BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar fallnir úr Mjólkurbikarnum

11.09.2020 image

Það var undarlegur knattspyrnuleikur sem fram fór á Kópavogsvelli fimmtudagskvöldið 10. september.  Íslandsmeistarar KR voru í heimsókn í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins 2020.   Sagan var ekki með Blikum fyrir leikinn eins og sjá má hér.  Við höfum mætt KR ingum 10 sinnum í bikarkeppninni og aðeins í tvígang slegið þá svartröndóttu út.  KR ingar hafa líka vinninginn í efstu deild – þó gengið hafi jafnast töluvert út hin síðari ár.

Það er farið að hausta og laufin byrjuð að falla. Frekar svalt var í veðri og farið að rigna á gervigrasið fagra – hægur vindur sem ágerðist þegar leið á leikinn.  Það var vitað að Elfar Freyr var í leikbanni sem er skarð fyrir skildi – hann bindur saman vörnina og það átti eftir að koma í ljós að hans var sárt saknað.

image

Það var vitað að Elfar Freyr var í leikbanni sem er skarð fyrir skildi – hann bindur saman vörnina og það átti eftir að koma í ljós að hans var sárt saknað. Liðsuppstilling Blika kom nokkuð á óvart.  Bæði Brynjólfur Andersen og Kristinn Steindórsson voru ekki í byrjunarliðinu.  Davíð og Damir voru í bakvarðastöðunum og Viktor Örn á miðjunni í vörninni.  Oliver þar fyrir framan. Alexander, Gísli og  Andri Yeoman á miðjunni.  Viktor Karl og Höskuldur á vængjunum og svo auðvitað Thomas Mikkelsen fremstur. 

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og Thomas fékk færi strax á 3. mínútu eftir frábæran undirbúning Gísla og Höskuldar, örugglega eitthvað sem þeir hafa æft á Vallargerðisvellinum fyrir 15 árum eða í garðinum hjá Höskuldi í Melgerðinu.  Það er unun að horfa á samspil þessara leikmanna, þeir hugsa oft eins og einn og sami maðurinn.  En inn vildi boltinn ekki þá.  Nokkur harka var í leiknum en smám saman náðu Blikarnir yfirhöndinni og stjórnuðu leiknum lengst af fyrri hálfleiknum en dauðafærin létu á sér standa hjá okkar mönnum.  Manni fannst vanta hraðann – eða öllu heldur hröðunina í sókninni.  Þó að góðir hlutir eigi að gerast hægt þá gildir það ekki endilega varðandi framkvæmd sóknarleiks í knattspyrnu.

Spjaldið sem aldrei var sýnt

Hallgrímur Helgason, rithöfundur gaf út bókina „Sextíu kíló af sólskini“ árið 2018. Það er mikið bókmenntaþrekvirki á pari við Íslandsklukku Halldórs Laxness og ég ráðlegg öllum að lesa.  Þar eru mörg gullkornin – meðal annars þetta hér:  „„Sögð orð gleymast en ósögð ekki“  Þessi spakmæli komu upp í hugann á  39. mínútu leiksins í stöðunni 0-0. Þá gerðist atvik sem mjög líklega skipti sköpum í þessum leik.  Blikar geystust í mjög álitlega sókn og Höskuldur var að komast í gegnum vörnina þegar Kennie Chopart keyrði í hann aftanfrá og rændi hann upplögðu marktækifæri.  Auðvitað var dæmd aukaspyrnu og allir – meira að segja hörðustu KR ingar bjuggust við gulu spjaldi á Kennie. Það hefði orðið hans annað gula spjald og því útilokun frá frekari þátttöku í leiknum. En viti menn:  Einar Ingi Jóhannsson dómari ákvað að fara ekki að knattspyrnureglunum og sleppti því að sýna honum það rauða.  Það voru alls 6 spjöld sýnd í þessum leik. Öll verðskulduð – en öll voru þau fyrir minni eða í besta falli viðlíka sakir.  Menn munu gleyma þeim öllum og fyrir hvað þau voru gefin.  En þetta spjald sem aldrei var sýnt mun sennilega lifa í minningunni lengi.  Svo gróft var það.    Maður spyr sig hvað þessu veldur – en einn góður félagi kom með sennilega skýringu í kaffinu í hálfleik: „Ef Kennie Chophart væri Fjölnismaður þá væri hann ekki lengur þátttakandi í þessum leik“.    Því miður er þetta standardinn í dómgæslunni hérlendis. 

Stuttu síðar fær KR hornspyrnu og það var með ólíkindum hvað KR ingurinn var grunsamlega ódekkaður og það fór enginn í vörninni upp með honum. 0-1 fyrir KR. 

Á síðustu mínútu hálfleiksins mistókst Blikum að hreinsa úr vörninni – og Atli Sigurjónsson, fyrrum Bliki skoraði með skoti af löngu færi.  Flautan gall og við vorum 0-2 undir í hálfleik.

Kaffið bragðaðist ekki vel í hléinu. Einn félagi sagði: „Þetta er alveg hörmulegt – en við skorum örugglega 2 mörk í seinni hálfleik“  Hann reyndist sannspár.  En fótbolti snýst ekki bara um að skora mörk heldur líka að fá ekki á sig mörk.  Við hófum leikinn af krafti en KR komst í sjaldgæfa sókn.  Augnabliks andvaraleysi kostaði það að KR skoraði mark úr skyndisókn. 0-3. Þá kom loksins skipting og Brynjólfur og Kristinn komu inn á.  Það hleypti miklu lífi í Blikana og Brynjólfur skoraði gott mark eftir undirbúning Höskuldar.  Vekur reyndar spurningar um af hverju þessir leikmenn hófu ekki leikinn.

Skyldi þetta verða leikur aftur?  Hinn ungi Stefán Ingi Sigurðarson kom inn á fyrir Viktor á 80 mínútu – og varnarlína Breiðabliks því skipuð 2 mönnum og allt lagt undir.  Ekkert við því að segja – en KR ingar refsuðu með 4. markinu 2 mínútum síðar.

Stefán Ingi lagaði stöðuna aðeins með laglegu marki. Það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.  Leikurinn fjaraði út og napur raunveruleikinn blasti við í takt við haustrokið sem fyllti Kópavogsdalinn sem oft hefur verið fegurri á að líta.

Sjálfbærni

Sjálfbærni er eitt vinsælasta hugtak nútímans.  Þegar liðin gengu inn á völlinn í kvöld voru 8 leikmenn af 11 uppaldir hjá Breiðablik.  Þeir 3 sem komu inn á voru allir uppaldir leikmenn.  Hjá KR var 1 leikmaður sem fékk sitt knattspyrnuuppeldi þar á bæ.  Hinsvegar voru 3 leikmenn í KR liðinu Íslandsmeistarana einnig Íslandsmeistarar hjá Breiðablik frá 2010.  Þetta segir talsverða sögu.    Ég var beðinn um að vera gestgjafi fyrir þá Inga Björn Albertsson og Hörð Hilmarsson á leik okkar gegn Val.  Við hlið mér sat sú mæta kona Magdalena Kristinsdóttir  eiginkona Inga Björns og hún spurði mig „Hvað eru margir uppaldir leikmenn í liðinu hjá Blikunum?  Ég taldi – og svarið var „8“.  Ég sneri mér að Herði og spurði – hvað eru það margir hjá ykkur?  Hörður leit á mig og svaraði. „Það er bara 1, Birkir Már Sævarsson“. Bætti síðan við:  „Hann er nú orðinn 37 ára og það er enginn á leiðinni sýnist mér.

Auðvitað eru þeir sem ekki eru uppaldir hjá félögum jafn góðir liðsmenn og aðrir. Til að mynda telst Damir Muminovic ekki vera uppalinn hjá Blikum þó hann eigi 222 leiki með félaginu og hann er líka uppalinn í Kópavogi.  Sama má segja um Gunnleif Gunnleifsson, sem nú er kominn í þjálfarateymið okkar - og leitun er að öðrum eins Blika. 

Það er hinsvegar vert að huga að þessum þætti.  Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir  hversu mikið himinn og haf er á milli félaga þegar kemur að stefnumörkun varðandi unglingastarf.  Við Blikar hljótum að vera stoltir af því uppeldi sem við veitum okkar ungu knattspyrnumönnum og konum – og mættum huga oftar að þessum þætti.

Næstu skref

Nú er bikarævintýrinu lokið þetta árið.  Þar kom að því að okkar menn lutu í lægra haldi.  Það sem er svekkjandi við þetta tap er að það voru engir yfirburðir í spilamennskunni, fjarri því.   Gengi okkar hefur verið gott – 5 sigurleikir í röð í deild og bikar – og við erum í vænlegri stöðu um titilbaráttu í Pepsi Max.

Framundan er 10 leikja hrina í Pepsi Max deildinni.  Þar erum við í 2. sæti.  Það er kunnugleg staða – við höfum endað þar 2 síðustu árin.  Þar getur allt gerst með réttum aðgerðum og hvatningu til strákanna.  Næsti leikur er á sunnudaginn í Kaplakrika gegn FH. Við unnum þar frábæran sigur í fyrra og við þurfum nauðsynlega á sigri að halda núna ef við viljum halda í við Valsmenn sem eru með 5 stiga forskot þegar 10 leikir eru eftir.  

Hákon Gunnarsson

image

FH - Breiðablik í Kaplakrika 13.9.2020 kl.16:30!

Til baka