BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vonin dofnar

18.08.2021

Það má með sanni segja að það hafi verið eftirvænting í loftinu þegar Valskonur komu í heimsókn á Kópavogsvöll í uppgjöri langbestu liða landsins. Blikastelpur hafa haft ágætis tak á þeim rauðklæddu í undanförnum leikjum. Við unnum báða leikina í fyrra og höfum núþegar unnið Val tvisvar sinnum á þessu sumri. 3-7 í leiknum magnaða á Valsvelli og 4-3 í ennþá magnaðri leik á Kópavogsvelli í bikarnum. 

Það voru tvær breytingar á liði Breiðabliks frá 1-3 útisigrinum gegn Tindastóli í síðustu umferð. Þær Tiffany og Chloe tóku sér sæti á bekknum og inn komu þær Hildur Antons og Taylor Ziemer. Veðrið var upp á sitt allra besta - 14 stiga hiti og logn. 

Leikurinn var gríðarlegur baráttuleikur þar sem Valskonur voru svolítið ofan á. Það vantaði aðeins þetta óskilgreinda “auka” sem þurfti. Eina mark leiksins kom eftir hornspyrnu, hvað annað. Telma fór í skógarhlaup og missti af boltanum og Málfríður skallaði í tómt markið. Hvað annað segi ég en þetta er 12 mark Vals í sumar eftir hornspyrnu sem gerir 30% af heildarmarkafjölda liðsins. Þessi markaþurrð í leikjum liðanna var algjörlega úr takti miðað við síðustu leiki en ef til vill voru úrslitin í gær í takti við gengi liðanna að undanförnu. Valsliðið hefur sótt í sig veðrið og náð stöðugleika en lið Breiðabliks hefur ekki verið eins sannfærandi.

Eftir þetta sóttu okkar stelpur töluvert en náðu ekki inn jöfnunarmarkinu. Þegar upp  er staðið má segja að miðað við færin í leiknum voru Valskonur líklegri til að bæta við en Blikar að jafna. Varnarleikur Vals var virkilega góður frá fremsta manni og vinnslan í liðinu gríðarleg. Okkar hættulegustu menn Agla María og Áslaug Munda voru í strangri gæslu þeirra Elísu Viðars og Mary Alice og það var helst að þær næðu að prjóna sig í gegn þegar Elísa og Mary hættu sér of framarlega. En aðrir í liðinu náðu ekki að tengja nægilega vel og höndla pressu Valskvenna. Okkar stelpur virkuðu yfirspenntar og vantaði meiri ró að spila boltanum á milli sín.

Það var líka hálf dauft á pöllunum hjá okkur Blikum  og lítið heyrðist í okkar fólki á meðan okkrir kallar héldu uppi hvatningunni á sínar konur í Val svo glumdi um allan völl. Við þurfum að rífa okkur upp Blikar og styðja okkar fólk jafnt í blíðu sem stríðu. Það er ótrúlegt hversu fáir taka undir í hvatningunni. 

Í fyrirsögninni segir að vonin dofnar en hún lifir enn á meðan það er tölfræðilegur möguleiki á því að verja titilinn. Ennþá eru 9 stig í pottinum og Valskonur hafa 7 stiga forystu.  
Sú staðreynd að Blikar séu ennþá í möguleika á því að verja titilinn er í raun alveg magnað miðað við breytingarnar á liðinu frá því að liðið vann titilinn í fyrra.  3. október í fyrra vann liðið Val 0-1 á Valsvelli sem svo gott sem tryggði Blikum titilinn. Frá þeim leik hafa landsliðskonurnar Sonný Lára, Karólína Lea, Alexandra Jóhanns, Sveindís Jane, Rakel Hönnu og Andrea Rán yfirgefið skipið og eins efnilegasta kanttspyrnukona landsins Bergþóra Sól sleit krossband rétt fyrir mót. Að auki hvarf þjálfarinn magnaði Steini Halldórs á braut rétt fyrir mót. Vilhjálmur Haralds, Óli Pé og Úlfar Hinriks eiga hrós skilið fyrir árangurinn í sumar.

Ennþá eigum við Blikar möguleika á bikar, sjálfum Mjólkurbikarnum, en úrslitaleikurinn við Þrótt verður leikinn föstudaginn 1. október næstkomandi. 

-H2O

Myndaveisla Blikar TV

Til baka