BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vilhjálmur hættir með Breiðablik eftir tímabilið

10.09.2021

Vilhjálmur Kári Haraldsson verður ekki þjálfari kvennaliðs Breiðabliks á næsta tímabili. Vilhjálmur tilkynnti stjórn að hann gæfi ekki kost á sér áfram eftir að samningur hans við Breiðablik rennur út. Vilhjálmur er í öðru starfi sem hann vill geta einbeitt sér að.

Vilhjálmur Kári tók við Blikum í vetur eftir að Þorsteinn Halldórsson var ráðinn landsliðsþjálfari. Vilhjálmur var þá nýlega búinn að tilkynna að hann væri hættur í þjálfun en sló til þegar honum bauðst starfið. Liðið tók miklum breytingum milli ára en Vilhjálmur og þjálfarateymið allt hefur unnið mjög gott starf.

Blikastelpur enda í 2.sæti í deildinni og hafa þar með tryggt sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili. Þá er liðið komið í úrslitaleik bikarsins og er fyrsta íslenska félagsliðið í sögunni til þess að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það eru því sannarlega fjölmörg spennandi verkefni framundan í haust og í vetur.

Stjórn knattspyrnudeildar vill þakka Vilhjálmi Kára fyrir gott samstarf á tímabilinu. Leit að nýjum þjálfara er þegar hafin.

Til baka