BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vel vængjaðar með hausinn í lagi

21.08.2021 image

Það var svakalega einbeitt Breiðablikslið sem mætti Litháenmeisturum Gintra á heimavelli þeirra litháisku, Siauliai. Þetta var annar leikur Breiðablikskvenna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Í þeim fyrsta voru konurnar í færeyska vinabænum Klakksvík lagðar 7-0 og það virðist í uppáhaldi að vinna með sjö mörkum því nú var það 8-1.

image

Glaður Breiðablikshópur eftir 8-1 stórsigur á Gintra

Á morgun, sunnudaginn 22. ágúst, kemur í ljós hvert framhaldið verður hjá okkar kröftugu konum, hvaða liði þær mæta í einskonar umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Það tók 10 mínútur að komast í 1-0. Tiffany skallaði inn fyrirgjöf Karitasar og tónninn var sleginn. Þótt næsta mark og reyndar það þarnæsta líka hefðu ekki sýnt sig fyrr en undir lok hálfleiksins var tónninn sleginn og þær litháisku máttu hvorttveggja hafa sig allar við í vörninni og vera heppnar það sem eftir lifði leiks. Þeirra erfiði skilaði einu marki, okkar dugnaður átta.

Það var ekki bara tónn í eitthvert smátt lag sem Tiffany sló með skallamarkinu heldur heila sinfóníu skallamarka. Þau urðu fimm mörkin sem okkar konur skoruðu með höfðinu.

image

Yfir drottningin, Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, og prinsessurnar hennar

Mörk Breiðabliks í leiknum komu svona:

10. mín. 0:1 Tiffany - skalli eftir fyrirgjöf Karitasar.

42.mín. 0:2 Agla María – skalli eftir fyrirgjöf Áslaugar Mundu.

43. mín. 0:3 Áslaug Munda - negldi tuðrunni í netið með fætinum.

49. mín. 0:4 Tiffany - afgreiðsla eftir að komast ein í gegn.

55. mín. 1:5 Heiðdís - skallar inn horn frá Öglu Maríu.

64. mín. 1:6 Agla María - skallar inn fyrirgjöf Áslaugar Mundu.

71. mín. 1:7 Agla María - smellir fyrirgjöf Áslaugar Mundu í möskvana.

76. mín. 1:8 Hildur - skallar inn aukaspyrnu Öglu Maríu.

Hausinn á þeim grænklæddu var svo sannarlega í lagi í dag. Dugnaður okkar kvenna var rosalegur, þær einbeittar allt til enda að sækja á andstæðinginn og vel hugsaðar sóknir skiluðu fjölda færa og mekki af mörkum. Hausinn var því ekki bara notaður í að setja tuðruna í netið þótt fimm skallamörk gefi til kynna að þessi líkamshluti hafi átt svolítið annríkt.

Liðið var líka svakalega vel vængjað í dag. Þær Agla María og Áslaug Munda fóru á kostum, mötuðu hvora aðra og hverja sem hafði áhuga á að ráðast á fyrirgjafirnar þeirra inn á teiginn.

Vængjuðu liði með gott höfuð eru allir vegir færir.

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka