BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Undanúrslit Mjólkurbikars kvenna: Breiðablik – ÍBV | Fimmtudagur kl. 18:00 á Kópavogsvelli

29.07.2025 image

Það verður bikarstemmning í Kópavogi á fimmtudagskvöld þegar Breiðablik tekur á móti ÍBV í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Flautað verður til leiks kl. 18:00 og sigurliðið tryggir sér sæti í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.

Blikar hafa verið í banastuði í Bestu deild kvenna í sumar og sitja á toppi deildarinnar. Liðið hefur skorað mikið og varist vel, og eru hungraðar í að bæta enn einum bikarmeistaratitli við titlasafnið. En það verður ekkert gefið – ÍBV kemur í heimsókn með annað markmið og saga þeirra í Lengudeildinni er ekki ósvipuð sögu Breiðabliks í Bestu, þær skora mikið og fá á sig fá mörk. Það er því ljóst að það er ekkert gefið í þessu.

Meðan Blikar leiða Bestu deildina, þá hefur ÍBV verið á fleygiferð í Lengjudeildinni þar sem þær eru á toppnum og stefna í Bestu deildina að ári. Og þær sýndu í 8 liða úrslitum að Bestudeildarlið eru ekki fyrirstaða hjá þeim því þær unnu sterkan 2–1 sigur á Tindastól Það eru skilaboð sem Blikar munu taka alvarlega.

Breiðablik er eitt sigursælasta bikarlið landsins. Þær hafa hampað bikarmeistaratitlinum 13 sinnum. Síðasti titill Breiðabliks kom árið 2021, og það er klárt markmið hjá félaginu að ná aftur í bikarinn í ár.

ÍBV á að baki einn bikarmeistaratitil – árið 2017 og hafa án efa væntingar um að bæta númer 2 í safnið.

Blikar komust í undanúrslitin með öruggum 5–1 sigri á HK þar sem liðið sýndi breidd og gæði í leik sínum. Sóknarleikurinn hefur verið öflugur í sumar og liðið hefur fjölda leikmanna sem geta stígið upp í stóru leikjunum. Eyjaliðið kemur til Kópavogs með mikla baráttu og trú á verkefnið – og þær vita að eitt kvöld getur breytt öllu.

Við hvetjum stuðningsfólk til að mæta á völlinn og styðja okkar konur í grænu! Þetta er leikur sem skiptir máli – fyrir félagið, leikmennina og alla sem unna góðum fótbolta.

Til baka