BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tvöfalt kvöld

28.07.2022 image

Af einhverjum ástæðum höfum við feðgarnir – Blikinn og KR-ingurinn – aldrei skilgreint montréttinn á heimilinu út frá úrslitum í meistaraflokki kvenna. Wonder why :-0

Hluta skýringarinnar má ef til vill sækja í sömu ástæðu og fyrir því að ég sá bara seinni hálfleikinn hjá Breiðablikskonum á móti KR í kvöld. Fyrri hálfleikurinn skaraðist við strákaleikinn í Evrópukeppni og þar var athyglin við sjónvarpið framan af kvöldi.

Ég missti meira að segja af byrjunarliðsuppstillingunni í Kópavoginum en hún var með þeim merkilegheitum að Rakel Hönnudóttir, 177 leikja og 80 marka leikmaður með Breiðabliki, sneri nú aftur á Breiðabliksleikskýrslu eftir barnseignahlé síðan 2020.Já, Rakel var varamarkaður Breiðabliks í kvöld, en eins og við vitum mörg þá fengum við sænska valkyrju í markið í vikunni.

image

Nichole Persson

Svona var byrjunarlið Ása í kvöld. Þarna er verulegur, funheitur styrkleiki, beint af EM, en auðvitað líka það verkefni að púsla saman svo vel láti.

KR-ingar hafa verið að sækja í sig veðrið eftir því sem liðið hefur á mótið. Spila af sífellt meira öryggi og virðingu fyrir eigin plani. Í hálfleik voru þær samt undir 1-0 og það er um það bil þar sem ég slóst  í hóp áhorfenda – á netinu austan úr sumarbústað reyndar.

Mér er sagt að fyrri hálfleikurinn hafi verið nokkuð jafn en sá síðari var eign okkar grænklæddu kvenna. Uppspil var alla jafna yfirvegað og árangursríkt, skilaði góðum stöðum, oft góðum fyrirgjöfum, stundum góðum færum og – eins og gæði heimakvenna verðskulduðu – slatta af mörkum.

Karitas setti sinn annað mark í leiknum um miðjan seinni eftir talsverða yfirburði í spilinu og þá var eins og flóðgáttir opnuðust. Agla María smellti honum, Clara skallaði inn með sinni fyrstu snertingu eftir enn eina flotta fyrirgjöf Karenar Maríu frá hægri og þriðja varakonan, Laufey Harpa, fullkomnaði kvintett fallegra marka eftir snotran undirbúning Margrétar Brynju, sem líka koma af bekknum.

5-0 eru falleg úrslit en ég verð að votta KR-konum virðingu fyrir að reyna allt fram á síðustu stundu að spila sinn bolta, sem vissulega skilaði hættu við okkar mark þarna inni í markasúpu síðari hálfleiks.

Á meðan þessu fór fram í Kópavogi hirtu grannkonur okkar í Garðabænum stig af Val á Hlíðarenda. Þá er stigamunurinn á toppnum bara tvö stig og markatalan okkar aðeins betri en Valskvenna. Það er þétt dagskrá fram undan hjá stelpunum. Næsti leikur í deild er eftir slétta viku – heimaleikur á móti Keflavík. Þriðjudaginn þar á eftir útileikur í deild á móti Stjörnunni, sem landaði jafnteflinu á móti Val á útivelli í kvöld, og svo undanúrslitaleikur í bikarnum  – laugardaginn 13. ágúst – á móti Selfossi. 

Einbeiting á hverjum leik, kæruleysisleysi, metnaður og slatti af þeirri leikgleði sem skilaði sér af Kópavogsvelli, í gegnum internetið og alveg austur í Biskupstungur mun skila okkur góðu sumri.

Takk fyrir grænt kvöld!

Eiríkur Hjálmarsson

Myndaveisla í boði Fótbolta.net.

Mörkin úr leikjum Vals og Stjörnunnar og Breiðabliks og KR í boði visir.is:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka