BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tvö stig út í veður og vind

24.05.2016

Kári var í aðalhlutverki þegar meistaraflokkur kvenna gerði 1:1 jafntefli við Þór/KA á Kópavogsvelli á þriðjudagskvöld.

Þrátt fyrir hryssingslegt veður var vel mætt en áhorfendurnir 311 héldust betur í sætum sínum en boltinn innan liða. Blikar byrjuðu betur og Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði af stuttu færi eftir 22. mínútna leik.

Guðrún Arnardóttir átti svo skalla yfir í dauðafæri eftir hornspyrnu og norðanstúlkur voru ekki líklegar framan af. Það voru þó sjaldséð mistök frá Sonný Láru Þráinsdóttur markverði Blika sem hleypti Þór/KA inn í leikinn tíu mínútum fyrir hálfleik. Hún hélt ekki fyrirgjöf og Anna Rakel Pétursdóttir kláraði vel í fjærhornið eftir að boltinn barst út í teiginn.

Seinni hálfleikur var tíðindalítill og eins og áður segir gekk báðum liðum illa að halda bolta innan liðs og spiluðu veður og vallaraðstæður þar stórt hlutverk. Lítið var um opin færi og jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Meistarar síðasta árs fara því hægt af stað en ljóst er á öðrum úrslitum að deildin verður jafnari en oftast áður og þannig eru aðeins tvö stig í toppsætið.

Fáir Blikar voru að spila af fullri getu, þó voru Málfríður Erna áberandi í vörninni og Svava Rós beitt í sóknarleik Blika.

Næsti leikur er svo gegn Selfossi fyrir austan fjall á laugardag kl. 16.00 og þar má búast við hörkuleik.

Til baka