BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þróttlítil fyrirstaða á Kópavogsvelli

14.05.2015

Blikastelpur tóku á móti Þrótti í fyrsta leik sumarsins og var mikil eftirvænting í Kópavogi enda Blikum spáð sigri í Pepsí deildinni þetta árið.

Í golunni á  Kópavogsvelli voru mættir 378 áhorfendur.

Blikar stilltu upp mjög sterku liði sem var þannig skipað:

Sonný var í marki, Fjolla, Guðrún, Fríða og Hallbera í vörninni, Rakel og Andrea á miðjunni með Aldísi fyrir framan í holunni, Svava og Fanndís á köntunum og Thelma fremst.

Leikurinn fór rólega af stað og nokkuð ljóst að völlurinn var erfiður og því mikið um feilsendingar hjá báðum liðum.  Blikar tóku samt fljótlega öll völd á vellinum og héldu þeim allt til loka. 

Á 18. mínútu leiksins fékk Fanndís boltann fyrir utan teig og brunaði upp vinstra megin að endamörkum og setti boltann fyrir á Telmu Hjaltalín sem skoraði örugglega fyrsta mark sumarsins.

Á 39. mínútu leiksins sparkar markmaður Þróttar út en boltinn hafnar beint á blika sem setur boltann innfyrir á Telmu Hjaltalín sem er ein í gegn og leggur boltann framhjá markmanninum.

Blikar voru með öll völd í fyrri hálfleik og hefðu klárlega getað skorað fleiri mörk en staðan 2 – 0 þegar flautað var til leikhlés.

Seinni hálfleikur var í raun eins og sá fyrri, algjörlega eign Blika.

Snemma í seinni hálfleik kom í raun eina hættulega færi Þróttar þegar vörn blika missir boltann til Flory sem tekur á rás og er ein í gegn en Sonný ver frábærlega frá henni.

Blikar gerðu sína fyrstu skiptingu á 53. mínútu þegar Jóna Kristín kom inná fyrir Aldísi Köru.  Ásta Eir kom svo inná fyrir Svövu Rós á 73. mínútu og Hildur Sif kom inn fyrir Hallberu á 80. mínútu leiksins.

Blikar sóttu stanslaust og áttu mörg hættuleg færi með Fanndísi þar fremsta í flokki.

Það var samt ekki fyrr en á 86. mínútu leiksins sem Fanndís fór upp vinstri kantinn, prjónaði sig í gegn um vörn Þróttar og lagi boltann í markið úr þröngu færi nálægt endalínu.

Aðeins 2 mínútum síðar fékk svo Rakel boltann hægra megin fyrir utan teig, brunaði í átt að markinu og setti hann fallega framhjá markmanni Þróttar.

Á 90. mínútu fór svo Hildur Sif upp vinstri kantinn gaf fyrir á Jónu systur sína sem lagði boltann út á Fanndísi sem skoraði með góðu skoti utan teigs, þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla.

Stuttu seinna flautaði svo dómari leiksins til loka og 5 – 0 sigur staðreynd í fyrsta leik sumarsins.

Fanndís Friðriksdóttir var valin maður leiksins í kvöld.

Næsti leikur hjá stelpunum er svo í Mosfellsbæ 19. maí og hefst sá leikur klukkan 19:15 og um að gera að mæta og styðja stelpurnar.

Til baka