BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Takk fyrir, Sonný Lára!

05.01.2021

Sonný Lára Þráinsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Breiðabliks í knattspyrnu, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir liðið eftir afar farsælan feril hjá félaginu.

Þetta var frábært sumar hjá okkur en ég held að nú sé kominn tími til að einhver önnur taki við í markinu. Það er samt erfitt að gera þetta núna því mér finnst eins og tímabilið sé ennþá í pásu enda eigum við eftir að fá að fagna Íslandsmeistaratitlinum. Ég vona að við getum gert það fyrir framan okkar frábæru áhorfendur seinna meir,“ segir Sonný.

Síðan Sonný kom í Kópavoginn fyrir sjö árum hefur hún spilað 209 leiki fyrir Blika, unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla og verið fastamaður í A-landsliðshópnum. Hún segir velgengnina sannarlega eftirminnilega, en það er fleira sem stendur upp úr á Blikaferlinum.

Það er allt frábæra fólkið sem maður hefur kynnst og vinkonurnar sem maður hefur eignast í gegnum þetta. Það er eitthvað sem varir bara að eilífu og ég mun sakna liðsheildarinnar. Það er svo magnað að vera hluti af svona hópi og að hugsa til baka, hvað ég er búin að eiga frábæra tíma hjá Breiðabliki.

Sonný segist ekki vita hvort hún sé alfarið hætt, hún geti í það minnsta aldrei sagt skilið að fullu við fótboltann og er nú byrjuð að taka þjálfaranámskeið hjá KSÍ. Hún ætlar að halda tengslum við Blikana, hvort sem hún kíkir á æfingar eða verður aðdáandi númer eitt í stúkunni. Hún er svo með skilaboð til allra Blika á þessum tímamótum:

Framtíðin er klárlega björt hjá Breiðabliki og ég veit að liðið verður áfram í titilbaráttu næstu árin. Þetta er þannig félag. Ég vil þakka áhorfendunum og öllum sem hafa staðið við bakið á okkur öll þessi ár. Svo vil ég þakka þjálfurunum; Óla, Steina, Aroni og sjúkraþjálfurunum sérstaklega, fólkinu í stjórninni og Blikafjölskyldunni eins og hún leggur sig.

Breiðablik vill þakka Sonný Láru fyrir frábæran tíma í Kópavoginum og hennar framlag til félagsins, bæði innan vallar og ekki síður utan vallar. Hún hefur verið frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og iðkendur og verið mikilvægur hluti af Blikafjölskyldunni.

Takk, Sonný Lára!

Til baka