Stórleikur hjá stelpunum á fimmtudaginn
02.09.2025
Næsti leikur hjá stelpunum okkar er gegn FH næstkomandi fimmtudag klukkan 19:15 á Kópavogsvelli. Þetta er eins og allir vita toppslagur deildarinnar en FH er í 2 sæti aðeins 5 stigum á eftir okkar konum. FH er eina liðið sem hefur unnið okkur á árinu og það er því ljóst að það verður barist til síðasta blóðdropa og ekkert gefið eftir. Með sigri þá tryggjum við okkur efsta sætið í deildarkeppninni og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni, þannig að það er til mikils að vinna.
FH liðið hefur verið á miklu flugi í ár og komust í bikarúrslitaleikinn eins og okkur er í fersku minni, í leik sem var frábær skemmtun og sýndi að þessi lið eru mjög svipuð að styrkleika og við þurfum góðan stuðning úr stúkunni á fimmtudaginn.
Bæði þessi lið eru sterk sóknarlið og liðin hafa samtals skorað 99 mörk á tímabilinu sem er rúmlega 35% af öllum mörkum sem skoruð hafa verið í deildinni. Það er því ljóst að liðin munu sækja til sigurs og von á mjög skemmtilegum leik
Við hvetjum að sjálfsögðu alla Blika til að mæta og styðja við stelpurnar okkar þær þurfa á því að halda í toppbaráttunni og það má enginn vanmeta mátt stuðningsmanna þó að þær standi vel í deildinni núna. Áfram Breiðablik
-B