BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stórgóður sigur á Selfyssingum

07.06.2022 image

Það var dauðafæri fyrir Breiðablikskonur nú í kvöld að sanna úr hverju þær væru gerðar og sýna hvort þær ætluðu að vera á heimaslóðum í efstu sætum Bestu deildarinnar eða vera á úti á einhverjum öðrum túnum þetta sumarið. Gestkomandi í blíðviðrið í Smáranum voru Selfossstúlkur (bara fyrir s-in þrjú í röð) en þær höfðu bara tapað einum leik fyrir kvöldið. Tækifærið, eftir gersigur á Aftureldingu í 7. umferðinni, var því að smella sér upp fyrir þetta kröftuga Suðurlandslið með sigri í stórleik 8. umferðarinnar.

Ási, sem sagðist í sjónvarpsviðtali fyrir leik, vera ánægðari með færasköpun en færanýtingu liðsins hingað til, stillti byrjunarliðinu svona upp:

image

Þessi lið eru þau sem haldið hafa best boltanum af öllum liðum í Bestu deildinni; Breiðablik númer eitt og Selfoss númer tvö. Það var því að búast við áhugaverðri baráttu um eignarhaldið á leiknum.

Í stuttu máli var þessi leikur eign Breiðabliks. Fyrri hálfleikurinn allur grænn og sá síðari skjalfest, þinglýst eign heimaliðsins. Það var í raun merkilegt að áhorfendur þyrftu að bíða í heilan hálftíma eftir marki. Fram að því höfðu stöðurnar, hálffærin og færin verið öll okkar megin en þetta tímaspursmál um mark stóð alveg fram á 30. mínútu. Þá fékk Hildur boltann inn á eiginn með manneskju í bakinu, náði snúningi og skoti í fjærstöngina og inn. Virkilega vel gert.

image

Hildir Antons skoraði eina mark leiksins

Sigurmarkið í boði Visir.is

Selfyssingarnir kunna alveg fótbolta og gerðu atlögu að snöggu svari en án árangurs sem fyrr og án þess að skapa sér færi það sem eftir lifði hálfleiks.

Hugsandi um það, þá held ég að Selfoss hafi ekki fengið færi í öllum leiknum. Í seinni hálfleiknum spiluðu okkar konur á miklu hærra tempói en Selfyssingar, unnu boltann á miðjunni og spilið var öruggara en í fyrri hálfleiknum. Spilað var upp í fínar stöður og frábærar stöður en markmaður Selfyssingana var góð í að taka fyrirgjafir, stundum vantaði grænar treyjur í teiginn og stundum vantaði oggupons upp á lágu fyrirgjafirnar hittu eða að árásina á tuðruna vantaði.

Í heildina held ég að þessi seinni hálfleikur, þó markalaus væri, hafi verið sá besti sem ég hef séð Breiðablikskonur spila í sumar. Áköf pressa og rosalegur dugnaður allan leikinn skilaði þessum seiglusigri í kvöld og við tosumst upp eftir töflunni. Kominn tími á 1-0 sigur eftir súr töp með sömu markatölu.

Það er erfitt að taka einhverja út úr hópnum sem afrekskonu kvöldsins. Útispilararnir voru hver ein og einasta tilbúin að leggja hart að sér og liðsheildin skilaði þremur stigum í kvöld. Í því ljósi skil ég alveg að Þótt hún hefði miklu minna að gera en markmaðurinn hinum megin, var hún traust og örugg í öllum aðgerðum og auðvitað á leiðinni í landsliðshópinn sem verður tilkynntur á föstudaginn!

image

Telma valin Bliki leiksins

Næsti leikur er erfiður útileikur á móti Þrótti í Laugardalnum eftir rétta viku. Þá er annað nákvæmlega eins tækifæri til að færa sig sætinu ofar í töflunni.

Vel gert. Gott kvöld!

Eiríkur Hjálmarsson 

Myndaveisla í boði Blikar TV: 

image

Til baka