BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stökkpallur stelpnanna

08.04.2021

Nú á dögunum rifjuðum við upp að um þriðjungur gauranna í U21 árs landsliðinu okkar hefur spilað með Breiðabliki. Merkisberar kvennafótboltans í Breiðabliki gera gott betur. Meira en helmingur kvennanna í A landsliðshópnum, sem valinn var fyrir leiki á móti Ítalíu nú í apríl, hefur sparkað bolta klæddar í Kópavogsgrænt.

12 af 23 spilað með Breiðabliki

Landsliðshópurinn var kynntur rétt fyrir Dymbilvikuna. Í honum er 23 fótboltakonur spilandi víða um lönd. Þar af hafa tólf spilað Breiðabliki einhvern tíma ferilsins. Það eru 52%.

Gera þurfti eina breytingu á hópnum en fyrirliðinn, hún Sara Björk, er meidd og kallað var á Karítas Tómasdóttur í hennar stað. Karítas er núna leikmaður Breiðabliks rétt eins og Telma Ívarsdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Andrea Rán Hauksdóttir og Agla María Albertsdóttir. Sex núverandi Breiðablikskonur eru þannig í hópnum núna.

Ef við lítum á þær sem eru í hópnum og hafa einhvern tíma spilað fyrir okkur þá eru það þær Guðrún Arnardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Karolína Lea Vilhjálmsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir. Þarna eru sex konur til viðbótar þeim sem áður eru taldar. Hér mætti auðvitað bæta Söru Björk Gunnarsdóttur við, sem því miður verður ekki með í leikjunum tveimur, og spilaði fyrir Breiðablik hér um árið.

Stökkpallur

Það er athyglisvert þegar litið er á síðar talda hópinn hér að ofan hvað Breiðablik hefur reynst mörgum þeirra stökkpallur til tækifæra í útlöndum. Sumar þessara kvenna eru uppaldar hjá Breiðabliki, alls ekki allar, en allar nema ein fóru frá Breiðabliki til erlends liðs. Breiðablik getur verið stolt af því að vera þannig stökkpallur ungra kvenna rétt eins og ungra karla yfir á stærra svið í íþróttinni. Það ber hvorttveggja uppeldisstarfi félagsins gott vitni og afreksstarfinu þannig að félagið okkar verður eftirsóttur vettvangur ungs afburðafólks í fótbolta.

Leikirnir á móti Ítalíu

Laugardaginn 10. apríl kl. 14 og aftur á sama tíma þriðjudaginn 13. apríl mun kvennalandslið Íslands mæta ítalska landsliðinu í vináttuleikjum á Enzo Bearzot vellinum í Coverciano. Æfingasvæði ítölsku landsliðanna er á þessum krúttlega velli.

Því miður höfum við engar staðfestar upplýsingar um útsendingu frá leikjunum, sem er sorglegt.

UPPFÆRT 9. apríl: KSÍ mun sjá fyrir streymi frá leiknum á morgun á YouTube síðu samtakanna: Smella hér. 

UPPFÆRT 11. apríl: Stöð 2 Sport mun sýna leikinn á þriðjudaginn kl.14:00. Útsending hefst með upphitun kl.13:40. Nánar. 

Þetta eru fyrstu leikir nýs landsliðsþjálfara, Þorsteins H. Halldórssonar, sem var sóttur til hvaða liðs?

-Jú, til Breiðabliks og fengu eðalblikann Óla P með. 

Áfram Ísland!

Eiríkur Hjálmarsson

áhorfandi

Til baka