Stelpurnar okkar mæta Þrótti á útivelli á morgun, Þriðjudag, klukkan 18:00
29.09.2025
Okkar stelpur eru enn í góðum málum í úrslitakeppninni í Bestu deildinni en við trónum þar á toppnum með 10 stiga forskot á Þrótt sem situr í 3 sæti. Þróttur átti góðan leik í síðustu umferð þar sem þær sigruðu Víking 3-2 í hörkuspennandi leik og ljóst er að þær ætla að berjast hart við FH um evrópusæti, auk þess sem þær eiga enn möguleika á að landa Íslandsmeistaratitlinum. Það verður því ekkert gefið eftir og mikilvægt að við mætum með öll ljós kveikt í þennan leik.
Okkar stelpur áttu erfiðan leik á móti Stjörnunni sem fór með sigur af hólmi 1-2 og komu í veg fyrir að við gætum fagnað íslandsmeistaratitlinum á heimavelli. Sigur á morgun tryggir okkur titilinn. Við vonum að liðið okkar nái niður spennustiginu og nái að spila sinna leik- bara muna að spila og njóta og þá koma úrslitin.
Blikar.is vill nota tækifærið og óska Nik til hamingju með nýtt starf sem hann mun taka við um áramót sem þjálfari Kristianstad. Við þökkum Nik fyrir góða tíma hjá okkur Blikum og óskum honum velfarnaðar í nýju starfi.
Við hvetjum alla Blika til að koma á völlinn og styðja stelpurnar okkar því þær eiga það svo sannarlega skilið og með góðum stuðningi og góðri frammistöðu gæti 20. Íslandsmeistaratitill fallið okkur í skaut á morgun.
-B