BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Spilað á hálfum velli

18.05.2016

Blikastelpur sóttu nýliða FH heim í Kaplakrika í kvöld og þrátt fyrir yfirburði inni á vellinum,  höfðu  þær ekki erindi sem erfiði.  Lokastaðan var markalaust jafntefli í leik glataðra tækifæra Blikaliðsins og þar sem markvörður FH inga fór á kostum.

Byrjunarliðið var óbreytt frá því í síðasta leik:

Sonný stóð á milli stanganna, Hildur, Fríða, Guðrún og Hallbera voru í varnarlínunni, á miðjunni voru Ingibjörg, Selma Sól og Andrea, Fanndís og Svava á köntunum og Rakel uppi á toppi.

Leikurinn byrjaði eins og við var að búast á því að Blikastelpur sóttu stíft upp kantana en FH ingar vörðust vel og í þau skipti sem okkar leikmenn komust í gegnum varnargarð Hafnfirðinga þá endaði það með frekar máttlausum skotum að marki eða í höndunum á frábærum markverði, hinni bandarísku Jeannette J Williams, sem var vægast sagt mjög góð í kvöld.  Það breytti því samt ekki að miðju og sóknarmenn okkar voru ekki að eiga sinn besta dag og komust lítið áfram í leiknum.  Selma Sól fór meidd af velli í fyrri hálfleik og Fjolla Shala tók hennar stöðu. 

Síðari hálfleikur var svipaður þeim fyrri.  Reyndar voru tilraunir Blika öllu betri og ákveðnari í síðari hálfleiknum en Jeannette var komin í stuð og engin leið að koma tuðrunni fram hjá henni.  Fh stelpur slepptu því reyndar alveg að sækja í síðari hálfleik þannig að múrinn var enn erfiðari en í þeim fyrri. Steini gerði tvöfalda skiptingu fljótlega í síðari hálfleik. Ásta Eir og Esther Rós komu inn fyrir þær Hildi og Ingibjörgu og Rakel færðist á miðjuna og kom það eilítið betur út og fleiri og betri færi létu dagsins ljós, en eins og áður sagði skilaði það ekki mörkum í dag.

Tölfræðin lýgur ekki  26 marktilraunir Blika á móti 2 hjá Fh ingum og 13-1 í hornspyrnum en það eru ekki gefin stig fyrir það, eða að minnsta kosti ekki fleiri en eitt og það var því niðurstaðan að þessu sinni. 

Blikar eru eftir leikinn tveimur stigum á eftir Stjörnunni í öðru sæti en það er ljóst miðað við úrslit í þessum tveimur umferðum að framundan er spennandi og skemmtilegt Íslandsmót.

Til baka