BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skína ljósin nógu skært?

28.09.2021

Eigum við að ræða Breiðablik?

Íslandsmeistarar 18 sinnum. Bikarmeistarar 12 sinnum.

Eigum við að ræða landsliðið?

Úrslitakeppni Evrópukeppninnar 2009 og 2013 og 2017.

Eigum við að ræða bikarúrslitin 2021?

Breiðablik-Þróttur, Laugardalsvöllur, föstudagur 1. október kl. 19:15

Skína ljósin nógu skært frá í sumar? Nógu skært frá erfiðum útileik sem vannst í byrjun júlí? Nógu skært frá 6-1 sigrinum í Smáranum fyrir tveimur vikum?

Eigum við að ræða sumarið 2021?

Agla María best.

Tvær aðrar í liði ársins: Áslaug Munda sem er löngu farin í skóla og Karitas á bekknum, sem vermir varla mikið tréverkið í riðlakeppni Meistarakeppninnar.

Eigum við að ræða aukaþing KSÍ 2021?

Hilton Nordica, laugardaginn 2. október kl. 11:00.

Næsti formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, á 109 mótsleiki að baki með Breiðabliki auk þess að starfa sem þjálfari hjá félaginu í mörg ár. 

Eigum við að ræða UEFA Champions League 2021?

Klakksvík Færeyjum - Breiðablik 0:7

Gintra Litháen - Breiðablik 1:8

Osijek Króatíu - Breiðablik 1:1

Breiðablik - Osijek Króatíu 3:0

Skína ljósin nógu skært, stelpur, frá þessum sigrum? Var nógu gaman að spila á móti stelpum í búningum við sem við höfum aldrei séð? Var stuð að koma heim og hafa alla helvítis stúkuna með sér?

Eigum við að ræða þjálfaramál, félagaskiptamál eða ljósaperur í flóðljósum?

Stelpur í fótbolta eiga flestar rosalegum stuðningi að fagna. Sumar mæta mótlæti. Heima hjá sér, í fermingarveislum eða jafnvel í félaginu sínu. Þótt Breiðablik hafi líklega staðið sig klúbba best í að efla konur í boltanum hafa Breiðabliksstelpur mátt mæta allskonar sérkennilegheitum frá því Breiðablik var fundið upp. Árið í ár er ekkert nýtt.

Horfandi á þennan geggjaða árangur vaknar samt í hausnum á mér enn á ný spurningin um samanburð karlanna og kvennanna, og nú í nýju samhengi: Skína ljósin nógu skært?

Skína ljósin í okkur sjálfum nógu skært til að við metum framlagið og mergjaðan árangur þess að verðleikum?

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka