BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sjöundi himinn

18.08.2021

Þær eru stundum kallaðar systurnar 18, eyjarnar sem mynda Færeyjar. Þau hefðu getað orðið 18 líka, mörkin sem Breiðablik skoraði gegn Færeyjameisturum Klakksvíkur frá Borðey.

Leikurinn var í Meistaradeild Evrópu, einskonar forkeppni, og var spilaður í sóttvarnarbólu í Litháen. Þetta var undanúrslitaleikur og myndi sigurliðið mæta liðinu sem vinnur leik FC Gintra frá Litháen og FC Flora Tallinn frá Eistlandi. Sigurliðið fer svo í umspil á móti öðru liði sem vinnur svipaða túrneringu og sigurliðið úr þeirri viðureign í aðalkeppni Meistaradeildarinnar. Mörkin urðu ekki 18 en leikurinn vannst 7-0. Klakksvík er jú hinn færeyski vinabær Kópavogs.

Okkar konur voru í sókn allan tímann og lygilegt að fyrsta markið hafi ekki komið fyrr en á 28. mínútu. Þar var Selma Sól á ferðinni og mörkunum fór að rigna. Þá fór þeim líka að rigna og svona gekk þetta fyrir sig: 1-0 Selma Sól Magnúsdóttir ('28 ) 2-0 Karitas Tómasdóttir ('34 ) 3-0 Tiffany Janea Mc Carty ('36 ) 4-0 Agla María Albertsdóttir ('45 ) 5-0 Karitas Tómasdóttir ('45 ) 6-0 Agla María Albertsdóttir ('58 , víti) 7-0 Selma Sól Magnúsdóttir ('90 ).

Það er svo á laugardaginn, 21. ágúst, að síðari leikurinn í þessari ferð fer fram. Þá ræðst hvort Breiðablikskonur ná í aðalkeppnina þetta árið en dráttur í riðla aðalkeppninnar verður sunnudaginn 22. Andstæðingarnir verða litháisku heimakonurnar í Gintra en þær unnu FC Flóru 2-0 í dag.

Stöð 2 Sport á mikinn heiður skilinn að sýna frá leiknum í Litháen og hér er samantekt Vísis.is á öllum mörkunum leiknum:

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka