BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á Valskonum

25.06.2023 image

Í kvöld var sannkallaður stórleikur, Breiðablik tók á móti toppliði deildarinnar Val.  Liðin sem verma fyrsta og annað sætið. Mjög mikilvægur leikur fyrir okkar konur til missa Valskonur ekki of langt á undan sér. Með sigri tylla þær sér á toppinn með betri markatölu en Valur.

Fyrir leikinn var veitt viðurkenning fyrir langleikjahæsta leikmann Breiðabliks og það var engin önnur en Fanndís Friðriksdóttir, núverandi leikmaður Vals. Skemmtilega gert og gaman af þessu.

image

Annars gerðu Blikar tvær breytingar frá jafnteflinu við Þrótt, Toni er veik og Áslaug Munda fær sér sæti á bekknum. Í þeirra stað koma Andrea Rut og Birta Georgsdóttir.

image

Það voru ekki liðnar nema tvær mínútur þegar Agla María tekur á rás upp kantinn og fer ílla með varnarmann Vals og neglir boltanum í fjærhornið, virkilega glæsilegt mark.

Næstu mínutur voru eign Blikakvenna án þess þó að skapa sér neitt. Valskonur í allskonar vandræðum með pressu Blikana. Valur náði þó tveimur frekar lausum skotum á mark Blika sem Telma var ekki í neinum vandræðum með. Á 17. mínútu kom Hafrún sér í skotfæri eftir mikið harðfylgi en skotið fór framhjá.

Eftir hálftíma leik áttu Blikar aukaspyrnu á miðjum vallarhelmgingi Vals. Spyrnan sjálf var ekkert sérstök, en Agla hriti frákastið og lúðraði boltanum rétt framhjá, þessi hefði mátt syngja í netinu. Valskonur voru meira með boltann seinni helming hálfleiksins, en sköpuðu sér ekki færi. Það var eins og Blikarnir séu að reyna að halda í forystuna frekar en að sækja annað mark. Mikið um negglingar úr vörninni eitthvað út í buskann. Þær mega þó eiga það að þær verjast vel og pressa stíft sem gerir sóknarleik Vals frekar bitlausan.

Eiginlega gegn gangi leiksins tvöfalda Blikar forystu sína á 43. mínútu. Blikar tóku aukaspyrnu og boltinn datt fyrir Birtu sem átti skot sem fór í Örnu Sif varnarmann Vals og í netið.

Þannig stóðu leikar í hálfleik, það má deila hvort 2-0 hafi verið  sanngjarnt, en Valskonur voru bara ekki að skapa sér eitt né neitt á meðan við nýttum okkar færi. Nú þarf bara að klára þennan leik og ekki missa þetta í eitthvað kæruleysi.

Seinin hálfleikur byrjaði fjörlega, Valskonur áttu ágætis skot sem Telma átti ekki I vandræðu með og strax á eftir voru Blikar hársbreidd frá því að skora er Agla María átti skot af stuttu færi sem fór í varnarmann. Valskonur skoruðu á 53. mínútu, stórkostlegt mark og algjörlega óverjandi fyrir Telmu. Eftir að hafa fengið þetta mark okkur elfdust okkar konur og fóru að sækja meira Valskonur, án þess þó að skapa sér afgerandi færi.

Þótt Valur hafi verið meira með boltann og lagt áherslu á að jafna leikinn, áttu samt Blikarnir stórhættulegt færi á 73. mínútu þegar Andrea Rut á flott skot sem markvörður ver vel í þverslánna og boltinn dettur svo dauður niður rétt fyrir utan marklínuna. Þarna hefðum við getað klárað leikinn.

Valskonur sóttu án afláts restina af leiknum en Blikarnir vörðust með kjafti og klóm og átti Valur ekki eitt hættulegt marktækifæri, öll skotin, fyrir utan markið þeirra, máttlaus og auðveld fyrir Telmu.

Það má því alveg færa rök fyrir því að þetta hafi verið sanngjarn sigur Blikavkenna. Þær börðust fyrir að halda forystunni og gerðu það virkilega vel. Vissulega ekki áferðarfallegast bolti sem undirritaður hefur séð frá þeim, en það skiptir bara engu máli, þrjú stig í sarpinn og toppsætið er okkar.

Næsti leikur okkar er undanúrslitaleikurinn í Mjólkurbikarnum er við heimsækjum Stjörnuna, sá leikur er laugardaginn 1. júlí kl 14.00. Næsti deildarleikur Blikanna er 4. júlí þegar við tökum á móti Tindastól, leikurinn hefst klukkan 19:15.

Kristinn

Til baka