BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Risa skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum

21.08.2015

Blikastelpur tóku risa skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með frábærum 1 – 0 sigri á Stjörnunni og styrktu stöðu sína á toppinum.

Það var flott veður í Garðabænum þegar Blikar mættu á Samsungvöllinn og var vel mætt á þennan toppslag.  Fyrir leikinn sat Breiðablik á toppnum með fjögurra stiga forskot á Stjörnuna sem var í öðru sæti.   Copacabana mættu og sáu um frábæra stemmingu í stúkunni og var engu líkara en að  Blikar væru á heimavelli, frábært hjá bestu stuðningsmönnum í Pepsídeild kvenna.

Lið Breiðabliks var þannig skipað: 

Í Markinu var Sonný, vörnina skipuðu Fjolla, Guðrún, Fríða og Hallbera, á miðjunni voru svo Jóna, Andrea og Rakel, Svava og Fanndís á köntunum og Aldís fremst.

Hægt er að sjá leikskýrslu hér og textalýsingu á fótbolti.net hér.

Leikurinn hófst með mikilli baráttu og sást strax að mikið var undir og stöðubaráttan mikil.  Hvorugt lið var tilbúið að taka miklar áhættur en Blikar þó beittari þegar leið á hálfleikinn. 

Á 29. mínútu leiksins brunaði Fanndís upp miðjuna og átti góða sendingu á Aldísi sem komst í ágætt færi en skot hennar fór beint á Söndru í marki Stjörnunnar.  Stuttu seinna tók svo Fanndís stórhættulega hornspyrnu sem lenti ofan á markslánni hjá Stjörnunni.  Fanndís var svo aftur á ferðinni 2 mínútum síðar þegar hún átti skot fyrir utan teig en boltinn endaði í fanginu á Söndru, markverði Stjörnunnar.

Á 37. mínútu leiksins kom svo hættulegasta færi hálfleiksins þegar Svava fór illa með vörn Stjörnunnar, geystist upp hægri kantinn og gaf fyrir á títtnefnda Fanndísi sem átti fínt skot sem Sandra varði mjög vel.  Áður en flautað var til leikhlés átti svo Svava fínt færi í teignum, skaut boltanum í varnarmann Stjörnunnar og þaðan stefndi boltinn í markhornið en aftur varði Sandra.

Blikar mun hættulegri í fyrri hálfleik en náðu ekki að skora og staðan 0 – 0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn byrjaði heldur betur vel fyrir Blika.  Á 4.mínútu fékk Fanndís boltann fyrir utan teig  Stjörnunnar og tók snögga hreyfingu til hægri og smellti föstu skoti í fjærhornið, stórglæsilegt mark og Blikar komnir yfir. 

Eftir markið féllu Blikar aðeins aftar á völlinn og má segja að Stjarnan hafi haft boltann megnið af hálfleiknum án þess að skapa sér mikið af færum.  Allt sem kom nálægt marki Blika tók svo Sonný í markinu, greip vel inní og var öryggið uppmálað í öllum sínum aðgerðum. 

Það var því vel við hæfi á 80. mínútu þegar stúkan söng Sonný Lára 1000 mínútur en hún var þá búin að halda markinu hreinu í þann tíma, frábærlega gert hjá henni og að sjálfsögðu öllu liðinu.

Það voru svo mikil fagnaðarlæti þegar dómarinn flautaði til leiksloka enda Blikar komnir með 7 stiga forskot á toppnum og einungis fjórar umferðir eftir. 

Breiðablik gerði þrjár skiptingar í leiknum, Telma kom inn fyrir Aldísi á 60. mínútu, Hildur kom inn fyrir Svövu á 90. mínútu og Ingibjörg kom inn fyrir Andreu á 90. mínútu.

Næsti leikur hjá stelpunum er svo heima á móti Val og fer hann fram næsta þriðjudag kl. 18:00.

Allir að mæta og styðja stelpurnar enda frábær skemmtun þegar stemmingin er eins og í kvöld.

Til baka