BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Partýinu frestað en ekki aflýst

26.09.2025 image

Fyrsti leikur Breiðabliks, eftir skiptingu, fór fram í gær þegar við fengum Stjörnustúlkur í heimsókn. Það var ljóst fyrir leikinn að með sigri þá myndum við tryggja okkur verðskuldaðan Íslandsmeistaratitilinn,  því FH gerði jafntefli fyrr um daginn. Það yrði reyndar lögreglumál ef við löndum ekki þessum tiitli í ár.

En byrjunarliðið var svona: Katherine, Elín, Sammy, Agla María, Heiða, Andrea Rut, Karítas, Kristín Dís, Heiðdís, Berglind og Birta.

Leikurinn byrjaði frekar rólega, Stjarnan ákveðin að gefa ekki mörg færi á sér, eiginlega engin marktækfæri fyrsta korterið, Samantha átti skot eftir gott hlaup inn á teig en yfir, en það var síðan copy-paste 6 mínútum síðar, nema í þetta skiptið skoraði Sammy eftir stoðsendingu frá Andrea. 1-0 og allt á réttri leið.

Eftir markið var smá lífsmark með gestunum án þess að eiga nein afgerandi færi, hálfleikurinn fjaraði síðan út, lítið markvert gerðist. Blikar fóru með 1-0 forystu í hálfleik, en ljótur blettur á hálfleiknum var þegar brotið var ílla á Elínu Helenu undir lokin, brot sem var algjörlega glórulaust og tilgangslaust. En Elín féll ílla í grasið og gat ekki haldið leik áfram, borin útaf á sjúkrabörum og beint í sjúkrabíl. Sendum Elínu hugheilar batakveðjur og vonumst til að sjá hana sem fyrst aftur á vellinum.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir okkar stelpur, sem virtust enn vera með hugann við samherja sinn í sjúkrabílnum. Stjarnan jafnaði 6 mínútum eftir að seinni hálfleikur hófst.  Eftir markið var fátt um fína drætti, Sammy átt gott skot sem var varið yfir, en þegar um 14 mínútur voru eftir af leiknum skora gestirnir og komast yfir, þær sigldu þessu síðan heim þrátt fyrir að við sóttum grimmt á markið. Þetta þýðir að partýið bíður en það verður.

Næsti leikur er á móti Þrótti á útivelli og fer leikurinn fram 30. september.

Áfram Breiðablik.

Til baka