BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Næsti leikur bikarmeistarana á föstudag

20.08.2025 image

Næsti leikur hjá nýkrýndum bikarmeisturum verður á föstudaginn klukkan 19:00 á Kópavogsvelli gegn Tindastól svo að stelpurnar okkar fá nú aðeins fleiri daga á milli leikja sem er gott enda hefur verið mikið álag undanfarið. 

Liðin hafa 7 sinnum att kappi í bestu deild og hafa okkar konur borið sigur úr býtum í öll skiptin með markatöluna 20-2. Hins vegar er það svo að sagan segir ekki allt. Tindastóll hefur verið á siglingu og í síðustu 3 umferðum hafa þær unnið tvo leiki og einungis tapað á móti sterku liði FH í síðustu umferð en unnið Þór/KA og FHL í umferðunum þar á undan. Það er ljóst að ekki dugar að mæta með einhverja bikarþynnku í leikinn því að Tindastólsstúlkur munu leggja allt í sölurnar til að ná í hagstæð úrslit. 

Þetta verður síðasti leikur stelpnanna  í mótinu fyrir Evrópukeppnina en þær munu spila á móti Írska liðinu Athlone Town  þann 27. ágúst erlendis.  Seinni leikur þeirra verður svo 30. ágúst en það fer eftir því hvernig fyrri leikurinn fer við hverja þær spila  í seinni leiknum.  Það eru einungis fjórir leikir eftir þar til kemur að úrslitakeppninni og þurfa stelpurnar okkar að leggja allt í sölurnar til að tryggja sigur í leiknum því það er alveg ljóst eftir leikinn á laugardag að FH stúlkur munu veita okkur harða keppni í deildinni allt til loka og hvetjum við því alla að mæta og hvetja okkar konur áfram. Þær eiga það svo sannarlega skilið. Áfram Breiðablik!

 

-B 

Til baka