BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mikilvæg þrjú stig á Selfossi

29.05.2016

Blikastelpur fóru austur fyrir fjall og mættu Selfossi í 4. umferð Pepsí-deildar kvenna.  Það var mikið  stuð á Selfossi þar sem ungmennafélag Selfoss var að halda uppá 80 ára afmæli sitt.  Frítt var inn á völlinn, grillaðar pylsur og kaka í boði.  Nokkur fjöldi var mættur í stúkuna en hefði verið gaman að  sjá fleiri Blika þar.

Stelpurnar okkar, sem höfðu einungis fengið tvö stig úr síðustu tveim leikjum, þurftu að taka öll stigin til að vera í toppbaráttunni.

Byrjunarlið Blika var eftirfarandi:

Sonný, Ásta, Guðrún, Fríða, Hallbera, Fjolla, Rakel, Andrea, Svava, Fanndís og Esther.

Hér er hægt að skoða leikskýrslu og textalýsingu á fótbolti.net.

Blikar byrjuðu með nokkuð sterkan vind í bakið en náðu ekki að skapa sér mikið til að byrja með og var leikurinn frekar rólegur fyrstu 20 mínúturnar eða svo.  Á 22. mínútu var brotið á Rakel rétt fyrir utan vítateig og átti Hallbera skot úr aukaspyrnunni rétt framhjá markinu.  Rakel, sem meiddist við þetta brot, fór svo útaf í hálfleik en við vonum að meiðslin hafi ekki verið alvarleg.

Blikar sóttu svo meira og meira næstu mínúturnar.  Á 28. mínútu kom svo frábær sókn upp vinstri kantinn. Andrea átti flotta sendingu upp í hornið þar sem Hallbera kom á ferðinni og setti boltann fyrir í fyrstu snertingu en þar var Esther Rós  mætt inn í teginn og skaut boltanum yfir línuna.  Virkilega vel gert hjá stelpunum.

Það liðu einungis 4 mínútur þar til Blikar skoruðu annað mark.  Fanndís og Hallbera tóku þá stutt horn þar sem Fanndís sendi svo fyrir en sendingin breyttist í skot þegar vindurinn tók boltann sem lak inn á nærstöng.  Nokkuð slysalegt mark en við Blikar tökum það fegins hendi. J

Það var svo á markamínútunni frægu (43. mínúta) sem Sonný kom í veg fyrir að Selfoss minnkaði muninn eftir flotta sókn upp hægri kantinn.  Þá kom flottur kross fyrir þar sem Eva Lind var mætt á fjærstöngina og átti skot af stuttu færi sem Sonný varði frábærlega, þvílíkt dauðafæri.

Staðan 0 – 2 í leikhléi og nokkuð sanngjarnt.

Ingibjörg kom inn á miðjuna fyrir Rakel í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikurinn snerist nokkuð við þar sem Selfoss var með vindinn í bakið og lá nokkuð á Blikum á köflum í leiknum.  Á 72. mínútu fékk Lauren boltann inní teig Blika, tók skotið sem hrökk í Ingibjörgu og þaðan í mark Blika.  Þvílík óheppni og staðan orðin 1 -2.

Blikar vörðust vel það sem eftir lifði leiks og voru í raun nær því að bæta við marki en Selfoss að jafna þegar bæði Esther og Fanndís fengu hörkufæri eftir frábæran sprett hjá Svövu upp kantinn.

En dómarinn flautaði til leiksloka og Blikar tóku öll þrjú stigin á móti góðu liði Selfoss.  Þessi sigur setur stelpurnar í 2. sætið í deildinni og mikil spenna framundan.

Næsti leikur hjá stelpunum er í bikarkeppninni þar sem þær fara til Keflavíkur. Leikurinn er 11. júní og hefst kl. 14:00.

Nú er um að gera að fjölmenna í Bítlabæinn og styðja stelpurnar okkar.

Áfram Breiðablik !

Til baka