BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Liðsheildin fær hrósið eftir magnaðan 4-3 sigur á HK/Víkingi

08.05.2013

Það var ekki laust við smá fiðring í kvöld þegar ég mætti í Víkina að sjá fyrsta leikinn hjá stelpunum mínum í Pepsideildinni. Fiðringurinn gerir alltaf vart við sig á vorin þegar grasið fer að grænka en kannski var spennan aðeins hærri hjá mér í kvöld vegna þess að ég hef ekki séð einn einasta leik á undirbúningstímabilinu og vissi nákvæmlega ekkert á hverju var von.

Það tók mig smá stund að átta mig á liðsuppstililnguni hjá Hlyni og eftir að hafa horft í báðar áttir og spurst til vegar þá komst ég að því að þjálfarinn stillti upp eins sókndjörfu liði og unnt var 3-4-3, nú skyldi blásið til sóknar! Birna var í markinu, varnarmenn voru Lilja, Ragna og Fjolla, inni á miðjunni voru Jóna, Hlín, Andrea og Berglind en frammi stóðu þær Aldís, Rakel Hönnu og Greta Mjöll vaktina.

Leikurinn fór líka bráðvel af stað. Mínar sóttu stíft að marki HK/Víkings og áttu þrjú dauðafæri á fyrstu 20. mínútum leiksins. Strax á annarri mínútu kom góð sókn upp vinstri kantinn þar sem Rakel gaf fyrir á Gretu Mjöll sem skaut framhjá. Aðeins þremur mínútum síðar skiptu þær um hlutverk stöllurnar, Greta gaf fyrir markið en Rakel skaut framhjá úr sannkölluðu dauðafæri.

Á 10. mínútu voru grænklæddar aftur á ferðinni og það kom frábær stungusending inn fyrir vörnina á Gretu Mjöll sem átti heldur slæma fyrstu snertingu og missti boltann frá sér.

Þegar þarna var komið var allur fiðringur farinn og maður var farinn að spyrja sig þeirrar ódauðlegu spurningar „hversu stór verður sigurinn!“. Já minni leið bara vel í stúkunni, sólin skein í gegnum rigninguna, grasið var grænt, stúkan full af fólki, vinir, kunningjar og allar stelpurnar úr yngri flokkum Breiðabliks sungu öll sín fegurstu hvatningarlög.

En þá kom reiðarslag. Algjörlegar uppúr þurru skoraði Berglind Bjarnadóttir fyrir HK/Víking, á 28. mínútu, með skoti úr aukaspyrnu á um 40 metra færi. Mér fannst að Birna hefði átt að gera betur þarna, en skotið var fast og hitti á rammann. Nú var bara að bíta í skjaldarrendur og snúa vörn í sókn!

Það tók stelpurnar okkar aðeins 12 mínútur því á 40. mínútu sendi Andrea Rán frábæran bolta út til vinstri þar sem Greta Mjöll sendi boltann fyrir markið á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem skoraði með laglegu skoti. Skömmu síðar komst Rakel Hönnu í dauðafæri á markteig en skot hennar fór yfir markið. 1-1 í hálfleik og manni var bara nokkuð létt.

Léttleikinn í hálfleiknum var full fljótur að hverfa því strax á 47. mínútu komst HK/Víkingur aftur yfir og enn á ný skoraði Berglind Bjarnadóttir með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu. Skotið var fast og vont viðureignar. Hafi farið um mig hrollur við markið þá átti hann enn eftir að versna því 10 mínútum síðar, á 57. mínútu, skoraði Hugrún þriðja mark HK/Víkings eftir undirbúning frá Karen Sturludóttur sem skaut á markið lengst utan af velli, Birna varði en Hugrún náði boltanum og potaði honum yfir marklínuna. Þarna átti vörnin okkar að gera betur og það var klaufalegt af þeim í báðum mörkunum í seinni hálfleik að gefa aukaspyrnuna og missa boltann frá sér á hættulegum stað.

Það var farið að fara um okkur í stúkunni. Einn stuðningsmaður Breiðabliks talaði um agalega niðurlægingu og annar þorði ekki í vinnuna í fyrramálið. En margir aðrir mótmæltu því og báðu fólk um að anda með nefinu, þetta gæti ekki versnað. Það gekk sem betur fer eftir, Hlynur gerði tvöfalda skiptingu á 62. mínútu Aldís og Andrea fóru útaf en í þeirra stað komu Björk og Ester. En það var ekki bara Hlynur sem hafði fengið nóg, það höfðu stelpurnar okkar líka og Greta Mjöll Samúelsdóttir braut ísinn á 63. mínútu þegar hún setti boltann í netið með þrumuskoti frá hægri og brúnin léttist heldur betur á stuðningsmönnunum, 3-2.

Eftir skiptinguna og markið var eins og  það færðist ró yfir liðið, leikur stelpnanna var yfirvegaðri og þær sóttu af mun meiri ákefð og af meiri stefnufestu en áður.  Greta Mjöll átti skot framhjá á 64. mínútu, Berglind Björg skaut yfir á 66. mínútu og á 73. mínútu var Ester nærri því að skora eftir fína sendingu frá Björk.

Hlynur gerði sína þriðju og síðustu skiptingu á 77. mínútu en þá kom Ingibjörg Sigurðardóttir inná fyrir Hlín Gunnlaugsdóttur og það skipti engum togum á 80. mínútu jöfnuðu okkar stelpur eftir gríðarlega þunga sókn sem lauk með því að Ingibjörg skaut að markinu, markvörðurinn varði en Björk fylgdi vel á eftir og skoraði 3-3. Já varamennirnir voru heldur betur að þakka fyrir traustið!

Á 90. mínútu fá Blikar aukaspyrnu út við vítateig vinstra megin en þegar okkar stelpur voru að gera sig klárar í að taka spyrnuna þá kallar aðstoðardómarinn í dómarann og í kjölfarið fékk Jóna Kristín Hauksdóttir að líta rauða spjaldið. Við sem sátum í stúkunni höfum ekki hugmynd um af hverju en það kemur væntanlega einhver skýring á því áður en tímabilið er úti.

Það var hins vegar ljóst að okkar stelpur voru ekki komnar í Víkina til að fara heim með eitt stig, ó nei! Berglind Björg tók aukaspyrnuna af um 30 metra færi, boltinn berst út í markteiginn þar sem Rakel Hönnudóttir fylgdi vel á eftir breytti stöðunni í 3-4 og tryggði þrjú stig heim í Kópavoginn!

Ólei, ólei, ólei var sungið í stúkunni, fúli stuðningsmaðurinn tók gleði sína á ný og ég mæti í vinnuna. Það var engin niðurlæging heldur stolt, gleði og kraftur sem var í stúkunni og á vellinum það sem eftir lifði leiks. Stelpurnar þökkuðu vel fyrir sig eftir leikinn og Fossvogsdalurinn ómaði af söngnum okkar góða „Áfram Breiðablik, áfram Breiðablik, áfram Breiðablik!!“

Það er engin ástæða til að dæma leikmenn hér en ég leyfi mér að hafa áhyggjur af liðsuppstillingunni eins og hún var í þessum leik. Varnarlínan virkaði ekki sannfærandi sem heild en gleymum því ekki að þegar mótherjarnir eru með boltann þá eiga ALLIR okkar leikmenn að sinna varnarskyldum, ekki bara þessir þrír sem fáskipa varnarlínuna. Eftir að HK/Víkingur skoraði kom mikið fát á varnarlínuna sem kepptist við að koma boltanum eins framarlega á völlinn og unnt var og klipptu þar með miðjumennina okkar út úr leiknum. Reyndar má kannski segja að miðjumennirnir geti pínulítið sjálfum sér um kennt því þeir voru á tíðum afar óöruggir með boltann og skiluðu honum illa frá sér, þó vissulega hafi sést góðar sendingar sem bæði gáfu færi og mark.

En þessi leikur er að baki og þrjú stig í húsi og menn eiga að horfa á það sem vel var gert. Liðið, hópurinn allur, á sannarlega hrós skilið fyrir að hafa snúið vondri stöðu í góðan sigur, það þarf karakter til þess að geta það. Fundurinn eftir þriðja mark HK/Víkings og þrumufleygur Gretu Mjallar í öðru markinu gáfu liðinu von og vissu um að það væri hægt að snúa stöðunni við og sækja öll stigin þrjú.

Liðsheildin fær því hrósið að þessu sinni og ég mæti að sjálfsögðu jákvæð og full vissu um góð úrslit í næsta leik sem verður gegn Val á Kópavogsvelli 14. maí. Það kvöld má enginn stuðningsmaður Breiðabliks láta sig vanta – sameinuð stöndum vér, góða fólk, sameinuð stöndum vér!

Ingibjörg Hinriksdóttir – Bliki.

Til baka