BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Langþráður sigur á Kópavogsvelli í baráttuleik um 2. sætið

18.09.2023 image

Breiðablik tók á móti Stjörnunni á Kópavogsvelli í dag og ljóst að hörkuleikur væri framundan. Fyrir leikinn var Stjarnan í öðru sæti Bestu deildarinnar með 35 stig og Breiðablik í því þriðja með 34 stig.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar hjá Blikakonum og síðasti sigurleikur var 7. ágúst á móti Þór/KA. Einungis eitt stig hefur unnist síðan þá og var það í 0-0 jafnteflisleik á móti ÍBV 20. ágúst. Mikið hefur verið um meiðsli og að leikmenn séu seldir í önnur lið og hópurinn þvi frekar þunnur og eitthvað andleysi í liðinu. Ljóst er að sigur er eitthvað sem Blikar þrá og alveg kominn tími á að binda enda á þetta slæma tímabil sem ágúst og september hafa verið. 

Leikurinn fór rólega og passíft af stað.

Á 17. mínútu lenti Vigdís Lilja í hörðum árekstri við leikmann Stjörnunnar. Þær voru báðar að horfa á boltann eftir langa sendingu frá Telmu upp völlinn og skullu saman. Vigdís Lilja þurfti á aðhlynningu að halda og ljóst að hún hafi meitt sig frekar mikið. Ekkert var dæmt á þetta og leikurinn hélt áfram án svo mikils sem aukaspyrnu. Áreksturinn var það harður að Vigdís Lilja gat ekki haldið leik áfram og fór meidd útaf. Inn á fyrir hana kom Viktoría París í sínum fyrsta leik í Bestu Deildinni. Breiðablik kallaði hana aftur til baka frá Augnablik í glugganum en hún er búin að vera að spila með þeim í Lengjudeildinni og standa sig gríðarlega vel. Viktoría er fædd árið 2005 og því einungis 18 ára.

Blikakonur komust lítið áfram því Stjörnukonur voru alltaf mættar til að verjast. Sóknirnar hjá Stjörnukonum voru þó frekar hægar eins og fyrri hálfleikur allur.

Clara fékk að líta fyrsta gula spjald leiksins á 41. mínútu fyrir peysutog. 

Restin af fyrri hálfleik hélt áfram á rólegu nótunum og mest megnis á vallarhelming Blika sem vörðust vel og Stjarnan náði ekki að skapa sér nein færi af viti.

Fyrsta hornspyrna Blika og skot á markið kom ekki fyrr en á 45. mínútu þegar Valgerður Ósk lét vaða fyrir utan teig en markmaður Stjörnunnar varði.

Í uppbótartíma fengu Blikakonur síðan aðra hornspyrnu sem Agla María tók inn í teig og boltinn endaði hjá Katrínu sem negldi boltanum í netið. Gríðarlega mikilvægt mark og Blikakonur komnar yfir 1-0 rétt fyrir hálfleik.

Stjörnukonur byrjuðu seinni hálfleikinn af meiri krafti en Blikar og voru meira með boltann. Þær náðu að skapa nokkur færi en kláruðu engin þeirra, sem betur fer.

Linli Tu kom inn á fyrir Hrafnhildi Ásu á 64. mínútu. Einungis 5 mínútum eftir að koma inn á slapp Linli Tu í gegn eftir klaufagang í vörninni hjá Stjörnunni. Hún fann Andreu Rut sem átti skot á markið sem var varið en boltinn féll beint fyrir framan fæturna á henni eftir vörsluna og hún kom botlanum í netið í annarri tilraun. Staðan orðin 2-0 og útlitið gott fyrir Blikakonur.

Linli Tu kom af krafti inn á og þremur mínútum eftir markið komst hún aftur ein í gegn en flaggið var komið á loft. Markmaður Stjörnunnar kom langt út á móti henni og stöðvaði hana og þær lentu í árekstri. Markmaður Stjörnunnar þurfti á aðhlynningu að halda en jafnaði sig fljótt og gat haldið leik áfram.

Sjörnukonur gerðu sitt besta til að minnka muninn en Blikar vörðust vel og mikil barátta í þeim sem hefur skort síðustu vikur.

Breiðablik gerði skiptingu á 90. mínútu þegar Líf kom inn á fyrir Katrínu og fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma.

Dómarinn flautaði leikinn af þegar rúmlega 94 mínútur voru á klukkunni og lokatölur 2-0 fyrir Breiðablik.

Blikakonur virðast vera að vakna aðeins til lífsins og mikil barátta var í leiknum og mjög langþráður sigur niðurstaðan.

Anna Björg

Til baka