BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Langþráður draumur að rætast

26.01.2021

Eins og greint var frá á dögunum hefur þýska félagið Eintracht Frankfurt fest kaup á Alexöndru Jóhannsdóttur frá Breiðabliki. Hlutirnir gerðust hratt eftir að tilboð barst frá Frankfurt og Alexandra þurfti í raun að kveðja með hraði eftir að hún samdi við félagið.

„Þetta gerðist ótrúlega hratt, það var mjög erfitt að þurfa að kveðja alla á einni helgi. Það var búið að vera markmið ótrúlega lengi að spila sem atvinnumaður svo þetta er bara langþráður draumur að rætast. Allir hafa verið ótrúlega almennilegir og vilja gera allt til að mér líði vel hérna. Aðstæðurnar eru mjög fínar, æfingasvæðið er flott og allt lítur vel út,“ segir Alexandra.

Alexandra kom til Breiðabliks frá Haukum haustið 2017 ogsegir það hafa skipt miklu máli fyrir ferilinn.

„Ég náði miklum framförum og mér finnst að tíminn minn þar hafi undirbúið mig vel fyrir næstu skref á ferlinum. Breiðablik er frábært félag, aðstaðan þar er ótrúlega góð og allir sem eru í kringum liðið hafa komið ótrúlega vel fram við mig seinustu ár. Bæði titlarnir 2018 og Íslandsmeistaratitillinn 2020 standa uppúr. Einnig var Evrópuævintýtið mjög skemmtilegt, þá sérstaklega leikirnir við PSG,“ segir Alexandra.

Hún er að lokum með skilaboð til allra Blika:

„Mig langar að þakka fyrir stuðninginn seinustu ár. Það er ekki að ástæðulausu að Breiðablik er eitt besta félag landsins. Ef horft er á áhorfendatölur er lang mest mætt á Blikaleiki - það munar um 12 manninn,“ segir Alexandra Jóhannsdóttir að lokum.

Breiðablik vill þakka Alexöndru fyrir frábær ár í Kópavoginum og óskar henni alls hins besta í atvinnumennsku. Það verður gaman að fylgjast með henni á stóra sviðinu í einni sterkustu deild í heimi

Til baka