BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

KR ekki fyrirstaða

28.07.2015

Blikastúlkur sóttu KR heim fyrr í kvöld í 12. umferð Pepsí deildarinnar. Fyrir leikinn var Breiðablik efst í deildinni með 31 stig og 32 - 2 í markamun, en KR með sex stig og 9 - 25 í markamun. Fyrri leik liðanna lauk óvænt með 1-1 jafntefli en þá náði Breiðablik að jafna á 87. mínútu leiksins. Eru það einu stigin sem Blikastúlkur hafa tapað á Íslandsmótinu í sumar.

Liðin voru eftirfarandi:

Byrjunarlið KR:
1. Tara E Macdonald (m) 
5. Sigrún Birta Kristinsdóttir 
7. Sonja Björk Jóhannsdóttir ('40) 
8. Sara Lissy Chontosh 
9. Margrét María Hólmarsdóttir 
11. Sigríður María S Sigurðardóttir  ('68) 
14. Hulda Ósk Jónsdóttir 
17. Jóhanna K Sigurþórsdóttir 
18. Íris Ósk Valmundsdóttir 
25. Hugrún Lilja Ólafsdóttir 
26. Kelsey Loupee  ('68) 

Varamenn:
4. Oktavía Jóhannsdóttir 
10. Stefanía Pálsdóttir ('40)
15. Sofía Elsie Guðmundsdóttir 
16. Bojana Besic  ('68) 
21. Ásdís Karen Halldórsdóttir  ('68) 
23. Guðrún María Johnson 
29. Guðfinna Kristín Björnsdóttir

Byrjunarlið Breiðabliks:
1. Sonný Lára Þráinsdóttir (m) 
2. Svava Rós Guðmundsdóttir 
8. Málfríður Erna Sigurðardóttir 
10. Jóna Kristín Hauksdóttir 
11. Fjolla Shala 
14. Hallbera Guðný Gísladóttir ('86)
17. Aldís Kara Lúðvíksdóttir ('89)
22. Rakel Hönnudóttir  ('77) 
23. Fanndís Friðriksdóttir 
28. Guðrún Arnardóttir 
29. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir 

Varamenn:
26. Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir (m) 
7. Hildur Sif Hauksdóttir  ('77) 
12. Arna Dís Arnþórsdóttir ('89)
13. Ásta Eir Árnadóttir ('86)
13. Steinunn Sigurjónsdóttir 
25. Ingibjörg Sigurðardóttir 

Hér má nálgast leikskýrslu.
 

Telma Hjaltalín Þrastardóttir var fjarri góðu gamni vegna brottvísunar í síðasta leik á móti Aftureldingu, sem rétt vannst 1-0. Í hennar stað var komin Aldís Kara Lúðvíksdóttir sem átti eftir að láta að sér kveða. Enn fremur var Fjolla Shala komin í hægri bakvarðarstöðuna í stað Ástu Eirar.

KR-ingar voru í einhverju veseni með að finna vallaþul en fundu einn á endanum, hver það var veit ný enginn. Athyglisvert var að vallarþulurinn kallaði þjálfara Breiðabliks „kónginn“ með miklum tilþrifum þegar hann las nafnið hans upp en ekkert fylgdi með þegar nafn þjálfara KR var lesið upp...

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og fengu nokkur góð færi á fyrstu 20 mínútunum en aldrei skapaðist hætta að marki Breiðabliks. Það var svo á 23. mínútu að eitthvað markvert gerðist. Svava Rós kom með frábæra fyrirgjöf, fasta og hnitmiðaða, frá hægri kanti beint á kollinn á Aldísi Köru sem skallaði boltanum í vinstra hornið frá henni séð. Algjörlega óverjandi og mjög flott mark í alla staði.

Aldís Kara var mjög hættuleg í þessum leik. Komst hún ein á móti markmanni á 36. mínútu eftir að hafa unnið boltann af varnarmanni KR-inga en skaut rétt framhjá. Var hún svo aftur á ferðinni á 44. mínútu en þá varði Tara markvörður KR vel.

Fyrri hálfleikur var algjörlega eign Breiðabliks og engin teljandi hætta skapaðist í sóknartilburðum KR.

Seinni hálfleikur var einnig eign Breiðabliks. KR-ingar komust lítið áfram gegn góðri pressu Breiðabliks. Það var svo á 60. mínútu leiksins að Breiðablik komst í 2-0. Aftur var það Svava Rós sem komst upp kantinn og sendi fyrir markið þar sem Aldís Kara var og virðist hafa komið boltanum í netið, alla vega kemur fram í leikskýrslu KSÍ að það hafi verið Aldís en ekki varnarmaður KR.

Eftir þetta var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn myndi lenda. Hildur Sif, sem kom inn á 77. mínútu í stað Rakelar Hönnudóttir, skoraði svo þriðja markið á 88. mínútu leiksins. Stoðsendinguna átti Fanndís sem var eins og svo oft áður síógnandi. Maður vorkennir þeim varnarmönnum sem þurfa að horfa á eftir henni þegar hún ákveður að setja í fimmta gír, þær eiga ekki sjéns.

Leiknum lauk með 3-0 sigri Blikastúlkna og var sigurinn verðskuldaður. Önnur úrslit kvöldsins voru:

Þróttur R. - ÍBV           2-3

Fylkir - Valur               5-1

Selfoss - Stjarnan       1-3

Eftir tólf umferðir er staðan í deildinni eftirfarandi:

Næsti leikur er þann 11. ágúst nk. kl. 19:15 á móti Fylki á Kópavogsvelli. Það eru allir leikir mikilvægir. Mætum á völlinn og sýnum leikmönnum Breiðabliks stuðning, konum og körlum!

Til baka