BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hrikalega svekkjandi jafntefli á Akureyri

30.07.2021

Blikastelpurnar lögðu land undir fót á miðvikudaginn og öttu kappi við Þór/KA. Fyrri leikur liðanna fór 3-1 fyrir Blika á Kópavogsvelli. Blikum hefur gengið ágætlega nyrðra undanfarin ár. Unnu t.a.m. 0-7 í fyrra og 1-4 árið 2019 en nú varð því miður breyting á. 

Vilhjálmur þjálfari gerði þrjár breytingar á liðinu sem vann seiglusigur á Selfossi á laugardaginn.  Taylor Marie Ziemer, Hildur Antonsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir komu inn í liðið í stað Tiffany og Karítasar sem settust á bekkinn en Kristín Dís  var ekki í hóp. Líklega í leikbanni þar sem hún fékk sitt fjórða gula spjald í sumar í leiknum við Selfoss. 

Leikurinn byrjaði með látum. Blikar sóttu stíft og uppskáru mark frá Öglu Maríu eftir rétt tæpar 5 mínútur. Líklega átti þetta að vera fyrirgjöf með vinstri fyrir utan teig en boltinn sveif í fjærhornið en það skiptir bara engu, mark er mark. Þetta var 10 mark Öglu Maríu í sumar. 7 markanna hefur hún skorað með hægri fæti, 2 með vinstri og eitt með skalla. Gaman að því.

Stuttu síðar jöfnuðu heimakonur. Markið kom eftir útspark frá markverði Þórs/KA. Miðjumaður fleytti boltanum áfram og Colleen Kennedy komst ein í gegn og renndi boltanum framhjá Telmu. Afar slysalegt mark og varnarlínan leit hreint ekki vel út, eitthvað samskiptaleysi í gangi þar. Svona mörk eigum við hreinlega ekki að fá á okkur.  Okkar stelpur komust aftur yfir eftir hreint magnaða skyndisókn. Þór/KA tók hornspyrnu sem ekkert varð úr en í staðinn komst Hildur á auðan sjó upp miðjan völlinn, renndi boltanum á Áslaugu Mundu sem setti hann í netið. Ekki tókst okkar konum að bæta við það sem eftir lifði hálfleiksins né í seinni hálfleik þrátt fyrir fína spilkafla. Það vantaði endahnútinn og betri ákvarðanatökur á þriðja leikhlutanum.  Oft á tíðum voru sendingarnar fram á við út í bláinn. Markskot reyndum við ófá – flest langt utan af velli en fæst þeirra ónáðuðu markvörðinn þar sem annað hvort fór skotið langt af leið eða vörnin komst fyrir.  Heimakonur vörðust líka virkilega vel og gáfu fá færi á sér. 

Það kom síðan í bakið á okkur þegar heimakonur jöfnuðu í uppbótartíma eftir töluvert klafs í teignum. Markið kom þegar liðnar voru 93:30 frá því að flautað var til leiks en uppbótartími var  a.m.k. 3 mínútur. 

Kannski var jafntefli sanngjarnt. Blikar voru svo sem ekki að skapa mikið og ekki heimakonur heldur. En við vorum svo sannarlega klaufar að ná ekki að halda þetta út. En þegar munurinn er bara eitt mark þá þarf ekki annað en horn eða aukaspyrnu og smá klafs = mark! Og það var akkúrat það sem gerðist og við verðum bara að sætta okkur við það þótt það hafi verið fúlt.

Þetta var aðeins annar leikur okkar kvenna  í deildinni á grasi og aftur töpuðum við stigum. Á móti ÍBV tapaðist leikurinn 4-2 og núna 2-2 jafntefli á rennblautum og hálum SaltPay-vellinum (Þórsvelli). Líklega eigum við bara eftir að fara einu sinni enn í deildinni á Gras sem verður á Nettó-vellinum í Keflavík. Blikastrákarnir hafa ekki sótt gull í greipar Keflavíkur (2 töp í deild og bikar) á Nettóvellinum en vonandi ná stelpurnar okkar að breyta því að Nettóvöllurinn verði einhvers konar ”bogey” völlur fyrir okkur Blika. 

H20

Myndaveisla frá leik Þórs/KA og Breiðabliks

Til baka