Góður sigur á Fram
08.08.2025


Breiðablik vann sannfærandi 6–1 sigur á Fram í Bestu deild kvenna á Lambhagavellinum í gær og sýndu okkar stelpur nokkra yfirburði alla leikinn. Fyrsta markið kom á 9. mínútu úr vítaspyrnu þegar brotið var á Edith og Samantha Rose Smith skoraði örugglega. Á 35.
mínútu bætti Kristín Dís svo við öðru marki þegar hún smurði boltanum í samskeytin með viðstöðulausu skoti og staðan var 2–0 í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks minnkaði Fram muninn þegar Lily Anna Farkas skoraði á 48.mínútu, og vonir þeirra glæddust. En þá tók við mjög góður kafli hjá Birtu sem skoraði tvö mörk á 53. og 54. mínútu eftir slæm mistök í varnarlínu Fram, og kom Blikum í 4–1.
Á 58 mínutu gerði Nik tvöfalda skiptingu þegar Aglamaría og Andrea Rut komu inná fyrir Samönthu og Birtu. Einungis mínútu seinna var Edith Kristín búin að bæta við fimmta markinu. Á 76. mínútu kom Sunna Rún Sigurðardóttir inn á fyrir Edith Kristínu Kristjánsdóttur í
sínum fyrsta leik fyrir þær grænklæddu.Það var svo undir lokin, á 90. mínútu, sem Líf Joostdóttir van Bemmel skoraði eftir fyrirgjöf frá Andreu Rut og lokatölur því 6-1 fyrir Blikastelpur.
Frábær sigur og stelpurnar halda áfram toppsætinu og bæta í markamuninn sem gæti komið sér vel að lokum í þeirri jöfnu toppbaráttu sem framundan er.
Næsti leikur hjá stelpunum er þriðji útileikurinn í röð þegar þær mæta á Víkingsvöllinn næstkomandi þriðjudag og hefst leikurinn kl. 18.