Glæsilegur sigur í glötuðu veðri
09.10.2025


Stelpurnar tóku á móti Sparta Slobotica í leiðinda veðri í fyrri viðureign liðanna í annarri umferð Europa cup á Kópavogsvelli í gær. Fyrir leikinn var Nik búinn að tala um að það væri mikilvægt að byrja vel og það var nákvæmlega það sem þær gerðu. Þær gerðu harða hríð að marki gestanna á upphafsmínútunum og á 8 mínútu var Berglind Björg búinn að skora fyrsta markið eftir sendingu frá Andreu Rut glæsilegt mark allt frá grunni. Það var svo tveimur mínutum seinna sem Aglamaría var búinn að bæta við öðru marki eftir sendingu frá Sammy, og staðan orðin 2-0.
Héldu nú margir að eftirleikurinn yrði auðveldur en svo var nú ekki. Serbnesku stelpurnar náðu að loka betur á Blika án þess þó að skapa sér eitt eða neitt, voru oft allar inni í eigin vítateig og ekki mikil ógn af þeim þar.
Blikar komust í álitlega sókn á 35 mínútu leiksins sem endaði á því að Sammy var felld inni í vítateig en Ungverska dómarateymið lét sér það í léttu rúmi liggja og dæmdi ekki neitt sem var ótrúlegt því þetta var augljóst brot, við vonum að landar þeirra sem dæma seinnileikinn bæti fyrir þessi mistök.
Vindurinn og veðrið voru svo áfram í aðalhlutverki og staðan í hálfleik 2-0 fyrir Blika.
Seinni hálfleikur spilaðist svo svipað og sá fyrri, veðrið stýrði leiknum og Blikar með boltan en náðu ekki að skapa mikið gegn varnarblokk Serbanna.
Nik gerir svo breytingar á 60 og 77 mínútu, fyrst komu þær Líf Joostdóttir van Bemmel og Hrafnhildur Ása inn á fyrir Smaönthu og Heiðu Ragney og svo komu Edith Kristín og Sunna Rún inná fyrir Andreu Rut og Berglindi Björg.
Við þetta færðist líf í sóknarleikinn að nýju og á 78 mínútu er Aglamaría búinn að skora sitt annað mark nú eftir stoðsendingu frá Birtu.
Á 90 mínútu voru það svo varamennirnir Edith og Sunna sem komu okkur í 4-0 þegar Edith á geggjaða fyrirgjöf inná teiginn þar sem Sunna tekur boltann og setur hann í netið, hennar fyrsta mark fyrir meistaraflokkinn og mark sem gæti skipt verulegu máli í framhaldinu.
4-0 lokatölur og gott forskot Blika staðreynd fyrir seinni leikinn sem verður í Sobotica næstkomandi miðvikudag.
Stelpurnar eru því í dauðafæri á að koma sér í 16 liða úrslit og við sendum þeim góða strauma og hvatningu fyrir útileikinn .