BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fjör í Fífunni á Gamlársdag

02.01.2023 image

Sigurverar mótsins "Hinir ósnertanlegu"

Það var mikið fjör í Fífunni á Gamlársdag þegar rúmlega sextíu knattspyrnumenn og konur spreyttu sig í þessari skemmtilegustu íþrótt í heimi. Þá fór fram hinn klassíski Gamlársbolti Breiðabliks. Elstu menn telja sig muna að þessi siður hafi byrjað árið 1992 þannig að mótið nálgast 30 ára afmæli sitt. Þó verður að taka tillit til þess að mótið féll niður tvö síðustu ár vegna  Covid19. Mótið er opið öllu knattspyrnuáhugafólki en nú spiluðu stelpurnar í sérriðli.  Tæplega tuttugu konur mættu og skemmtu sér konunglega á meðan strákarnir puðuðu á hinum völlunum. Stelpurnar voru líka svo almennilegar að leyfa Sverri Óskarssyni, Marteini Sigurgeirssyni og Andrési Péturssyni að spila með sér og voru þeir drengir himinlifandi með þann heiður!

image

Að vanda voru veitt verðlaunin eftirsóttu ,,Græni hatturinn“ en hattinn hlýtur sá sem giskar rétt á sigurvegara hinna ýmsu móta á árinu sem er að líða. Þá spá menn árið áður og þurfa að bíða í eitt ár áður en vitað er hver sigurvegari verður. En vegna faraldursins var birt spá sem var tekin á Gamlársdag 2019! Það var að sjálfsögðu barnakennarinn og lífskúnstlerinn Marteinn Sigurgeirsson sem hafði umsjón með þessum lið eins og endranær. Guðmundur Jóhann Jónsson og Haraldur Erlendsson voru jafnir og efstir og þurfti því að grípa til bráðabana. Þar hafði Guðmundur Jóhann betur og hneppti Græna hattinn.

image

Guðmundur Jóhann Jónsson og Haraldur Erlendsson

Nike umboðið gaf öll verðlaun í mótið og þakka Blikar þeim fyrir stuðninginn. En eins og allir Blikar vita þá spilar Breiðablik í NIKE búningum næstu árin.

-AP

image

Dúna Baldursdóttir, Hildur Einarsdóttir og Unnur Ósk Kristinsdóttir

Til baka