BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópusagan skrifuð á Kópavogsvelli á miðvikudag

07.10.2025 image

Eftir að hafa tryggt Íslandsmeistaratitil númer 20 þá fá stelpurnar okkar ekki langa hvíld því framundan er fyrri leikurinn í annarri umferð Europa Cup sem er ný keppni hjá UEFA. Blikar eru því fyrsta Íslenska liðið til að taka þátt í þessari keppni og fara beint í aðra umferð vegna góðs árangurs í forkeppni meistaradeildar Evrópu.

Andstæðingur okkar er lið Spartak frá Subotica í Serbíu.  Þær eru efstar í sinni deild sem hófst í haust og eru búnar að vinna alla sína 7 leiki það sem af er með markatöluna 20-2 og eru fyrir ofan ríkjandi Serbnesku meistarana í Crvena. 

Við höfum einu sinni mætt þessu liði áður en það var í undankeppni meistaradeildar Evrópu 2016 sem haldin var í Cardiff og endaði sá leikur 1-1 en Serbarnir jöfnuðu í uppbótartíma eftir að Berglind Björg hafið komið okkur yfir um miðjan seinni hálfleik. Við fórum áfram uppúr riðlinum þá enda með mun betri markatölu en Serbarnir.

En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og ljóst að bæði lið koma gjörbreytt til leiks.  Berglind Björg spilaði allan leikinn 2016 og Kristín Dís var á bekknum en að öðru leiti er Blikaliðið nýtt.  Hjá Serbunum þá var Violeta Slovic í liðinu og Alina Baka einnig en báðar eru varnarmenn og það er sami þjálfari með liðið og var fyrir 9 árum síðan, Boris Arsic.  

Þetta verður erfiður leikur en við erum í séns á að komast áfram í þriðu umferð sem væri frábær árangur en til þess að það gangi upp þurfa allir að leggjast á eitt.  

Toppmæting í stúkuna er algert skilyrði eigi vel að fara, og hvetum við alla sem eiga þess nokkurn kost að mæta og öskra Áfram Breiðablik. Leikurinn hefst klukkan 18:00

-B

Til baka