BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Enn er beðið

01.09.2015

Blikastúlkur mættu öfllugu Selfossliði á Jáverkvellinum í kvöld.  Með sigri hefðu þær grænklæddu getað tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn eftirsótta en Selfyssingar voru ekki á þeim buxunum að horfa upp á okkar lið fagna á sínum heimavelli.  1-1 jafntefli var niðurstaðan og verður hún að teljast nokkuð sanngjörn þó svo að bæði lið fengju ágætis tækifæri til að hirða 3 stig á lokametrunum. Áhorfendur fjölmenntu á leikinn og var slegið aðsóknarmet í Pepsí kvenna á þessum velli.  Vel rúmlega 600 áhorfendur létu sá sig og voru Blikar þar í nokkrum meirihluta enda fór stútfull rúta stuðningmanna úr Smáranum og fjölmargir fóru á einkabílum. Kopacabana mættu ferskir og stýrðu stuðningnum með miklum glæsibrag.

Liðsuppstilling Blika var með hefðbundnum sniði, Sonný var í rammanum og hinn öflugi varnarmúl þar fyrir framan samanstóð af þeim Fjollu, Fríðu, Guðrúnu og Hallberu.  Inni á miðjunni voru þær Andrea, Rakel og Jóna og á köntunum stóðu Fanndís og Svava Rós vaktina. Uppi á toppi lúrði svo Telma Hjaltalín.

Fyrri hálfleikur var ekki tíðindamikill, Telma fékk fínt færi eftir frábæran undirbúning Svövu á 18 mínútu leiksins en við fengum ekki mikið af færum í þessum hálfleik.  Það sama má segja um Selfossliðið, þær fengu þó ágætis færi undir lok hálfleiksins en náðu sem betur fer ekki að nýta sér það. 

Seinni hálfleikur var mun fjörugri og eftir sjö mínútna leik átti Málfríður skalla í slá eftir hornspyrnu Hallberu og sjö mínútum síðar slapp Telma ein innfyrir eftir frábæra stungu frá Hallberu og setti boltan snyrtilega framhjá góðum markverði Selfyssinganna.  Nú héldu margir að eftirleikurinn yrði auðveldur en Selfyssingar voru ekki á sama máli og settu þeir nú aukið púður í sóknarleikinn sem skilaði þeim marki aðeins 4 mínútum síðar.  Þar var að verki Dagný Brynjarsdóttir sem skoraði með góðum skalla eftir darraðardans í vítateig Blika.  Blikar héldu því hreinu í 1163 mínútur í sumar og verður það að teljast með eindæmum gott og örugglega heimsmet. 

Bæði lið sóttu nokkuð eftir þetta og vildu bæði vinna og fengu til þess ágætis færi, það besta var okkar þegar þær Telma og Aldís komust saman innfyrir vörn en við náðum ekki að nýta okkur það og 1-1 því niðurstaðan.  Mikil spenna var í stúkunni þar sem á þessum tímapunkti var jafnt í leik Stjörnunnar og ÍBV þar sem Blikinn Esther Arnarsdóttir hafði náð að jafna fyrir IBV  og miðað við þau útslit væri titillinn okkar en á síðustu mínútu uppbótartíma komst Stjarnan yfir að nýju og við þurfum því að bíða eitthvað eftir að fanga titilinn og fáum við aftur tækifæri í næsta leik til þess að tryggja okkur hann.  Það er útileikur á Akureyri og hvetjum við alla sem geta til að kíka norður og styðja við bakið á stelpunum í leiknum.  Fínt að taka bara langa helgi og njóta menningar sem akureyringar hafa uppá að bjóða og taka svo leikinn á mánudagJ

Bestar í dag voru Telma, Hallbera og Sonny

Til baka