BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

ENGIN SÓL Í SUNNY KEF

28.08.2021

Það var frekar þungt yfir öllu í Keflavíkinni góðu á fimmtudag þegar Blikastelpurnar fóru suður með sjó. Bæði var frekar þungt yfir veðrinu, yfir myndinni í útsendingunni góðu hjá Stöð 2 Sport og síðast en ekki síst þá hefur sennilega verið aðeins þungt yfir okkar konum eftir að Valskonur tryggðu sér titilinn deginum áður.
Þrjár breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá leiknum við Val sem fór fram fyrir hálfum mánuði.  Fyrst skal nefna að Áslaug Munda er farin í nám í Harvard og í hennar stað kom Birta Georgsdóttir. Þá komu þær Chloé og Tiffany inn í stað Taylor og Hildar Antons.  

Eftir rólegar upphafsmínútur komst Keflavík yfir. Hár bolti kom inn í teiginn  Sóknarmaður Keflavíkur náði ekki valdi á boltanum sem féll fyrir fætur Hafrúnar sem þrumaði boltanum í Kristínu Dís og það hrökk hann í markið. 1-0 fyrir heimakonur!  Síðan tóku við 84 mínútur af nánast stanslausri sókn Blika en þeim tókst ekki að koma boltanum framhjá frábærum markverði Keflavíkur Tiffany Sornpao þrátt fyrir urmul marktækifæra fyrr en á 88 mínútu þegar Selma Sól náði að koma boltanum í netið eftir að varnarmaður Keflavíkur hafði komst fyrir markskot Hildar Antonsdóttur. Boltinn hrökk inn fyrir vörnina hvar Selma Sól þrumaði honum í netið og bætti þar heldur betur fyrir að hafa klúðrað dauðafæri skömmu  áður þegar hún skaut í þverslánna fyrir opnu marki.

Það var í raun ótrúlegt að Blikakonur hafi ekki verið búnar að jafna miklu miklu fyrr. Sóknarlotur Blikaliðsins skullu á Keflavíkurvörninni með jöfnum takti allan leikinn. Þulurinn í sjónvarpsútsendingunni sagði færin eða markskotin hafa verið orðin 26 og þá var töluvert eftir af leiknum þannig að tækfærin hafa verið vel á fjórða tuginn þegar upp var staðið.  En eitt stig úr viðureignum okkar við Keflavík í sumar er ekki nægilega gott. Liðið var þó frískt framá við en markaskórnir urðu mögulega eftir Litháen þar sem okkar stelpur skoruðu 15 mörk í tveimur leikjum.  Það er ljóst að brotthvarf Áslaugar Mundu sem átti þátt í a.m.k .12 mörkum í sumar í deildinni (6 mörk skorðu og 6 stoðsendingar) hefur áhrif á sóknarleikinn. En ég hef fulla trú á því að þeir Vilhjálmur, Úlfar og Ólafur finni réttu blönduna fyrir leikina framundan.

Blikastelpur eiga eftir a.m.k. 5 leiki í sumar og haust. Vonandi samt miklu fleiri! 2 leikir eru eftir í deildinni (4. og 12. september) og vonandi fá ungu Blikastelpurnar Vígdís Lilja og Margrét Brynja sín tækifæri þar sem við höfum ekki að miklu að keppa þar. 

Þá eigum við eftir tvo leiki í Meistaradeildinni við lið Osijek frá Króatíu í umspili um laust sæti í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna. Fyrri leikurinn fer fram 1. september og sá síðari 9. september á Kópavogsvelli.  Eftir þessa rimmu verður ljóst hvort við komumst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem leiknir verða 2 leikir heima og heiman í október, nóvember og desember. Alls 6 leikir. 

Að auki bætist við úrslitaleikur Mjólkurbikarsins á móti Þótti föstudaginn 1. október.

H20

Breiðablik bjargaði stigi í lokin gegn Keflavík

Til baka