BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ellefu ömurlegar mínútur í Hafnarfirði

05.06.2013

Stelpurnar okkar hafa ekki sótt gull í greipar FH inga í Krikanum síðustu ár og í kvöld varð engin breyting á því. Hlynur stillti upp lítið breyttu liði frá síðasta leik. Birna var í markinu, Þórdís Hrönn, Fjolla, Ragna Björg og María Rós skipuðu fjögurra manna varnarlínu. Á miðjunni voru þær Rakel Ýr, Jóna Kristín, Hlín og Berglind Björg en frammi voru þær Rakel Hönnu og Greta Mjöll. Sannarlega sókndjarft lið og við sem vorum mætt í Krikann vorum bara nokkuð spennt fyrir framhaldinu.

Leikurinn byrjaði sannarlega vel, þær grænklæddu voru mun sterkari og náðu forystu strax á 14. mínútu þegar Berglind Björg skoraði með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Rakel Hönnudóttur af hægri kantinum. En í framhaldinu var eins og okkar stelpur ætluðu að skora þrjú mörk í hverri sókn, þeim gekk illa að halda boltanum innan liðsins og FH ingar komust meira og meira inní leikinn. Birna Kristjánsdóttir, sem var besti leikmaður Breiðabliks í kvöld, varði frábærlega á 25. mínútu og skömmu síðar áttu FH ingar að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd varnarmanns innan teigs. Dómarinn sá hins vegar ekki ástæðu til að dæma og all mörg skítaglott sáust á andlitum stuðningsmanna Breiðabliks.

Gloppótt varnarlína

En glottin voru fljót að fara af okkur, því sóknir heimastúlkna þyngdust jafnt og þétt og Ashlee Hincks komst allof oft upp á milli hafsentanna Fjollu og Rögnu og hafði Birna nóg að gera í markinu. En samt sem áður var ekkert sem benti til þess sem síðar myndi koma. Stelpurnar okkar náðu að skapa sér færi en skotin voru ekki nægilega hnitmiðuð og inn vildi boltinn ekki. Staðan var því 0-1 í hálfleik og við, stuðningsmennirnir, vorum bara þokkalega kát.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki ósvipað og sá fyrri hafði endað. FH ingar komu baráttuglaðar til leiks og Birna stóð í slíkum stórræðum að á 50. mínútu þurfti hún að fara af velli, meidd á hné. Í hennar stað kom nýliðinn Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir, en hún er aðeins 17 ára gömul og gríðarlega efnilegur markvörður. Hún sýndi það líka strax með frábærri markvörslu gegn hinni skæðu Ashlee Hincks. En enginn má við margmun og á 62. mínútu jöfnuðu FH ingar eftir slæm mistök á miðjunni. Í kjölfarið komu ellefu ömurlegar mínútur þar sem FH ingar skora tvisvar til viðbótar og breyta stöðunni úr 0-1 í 3-1.

Ekki gleyma – horfum, vegum, metum og lærum

Þessum ellefu mínútum vilja stelpurnar okkar sjálfsagt gleyma sem fyrst en það er afar mikilvægt að þeir leikmenn sem tóku þátt í leiknum með einum eða öðrum hætti horfi, vegi, meti, læri og finni það sem gekk vel og hvað það var sem ekki gekk upp.

Hlynur gerði tvær skiptingar til viðbótar í leiknum (fyrir utan markmannsskiptin) Jóna Kristín fór útaf á 64. mínútu fyrir Andreu Rán og Þórdís Hrönn vék af velli fyrir Esther Rós Arnarsdóttur, en allir varamenn kvöldsins eru ungir og ákaflega efnilegir leikmenn. Ásta Vigdís og Andrea Rán eru báðar fæddar 1996 en Esther Rós 1997. 

Áfram Breiðablik!

Til baka