BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik sigraði Íslandsmeistara Stjörnunnar 1 – 0 í sínum fyrsta leik í Pepsí deild kvenna.

13.05.2014

Í fyrsta skipti í sögunni var heimaleikur Breiðabliks í Pepsí deildinni leikinn í Fífunni en umgjörð leiksins var skemmtileg þrátt fyrir öðruvísi aðstæður en eru á Kópavogsvelli.

Ágætlega var mætt en má gera ráð fyrir að ca. 300 manns hafi séð leikinn sem er bara nokkuð gott miðað við plássið í Fífunni.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði liðin ætluðu að selja sig dýrt og einkenndist leikurinn í heild af mikilli baráttu.

Fyrsta hættulega færi leiksins átti Stjarnan á 6. mínútu leiksins, Blikar náðu þá ekki að hreinsa frá marki sínu og áttu Stjörnustelpur í tvígang skot en var bjargað á línu í bæði skiptin.

Á næstu þremur mínútum voru Blikar líklegir og komust tvisvar í hálf-færi, fyrst þegar Telma fékk boltann inn í teig en náði ekki að leggja hann fyrir sig og svo var Hildur næstum sloppin í gegn rétt á eftir.

Á 24. mínútu komst svo Aldís ein í gegn og náði að setja boltann í markið en línuvörðurinn var búinn að flagga rangstöðu, ekki frá því að þetta hafi verið rangur dómur.  Einungis einni mínútu seinna komst svo Telma í gegn vinstra megin og reyndi að senda boltann yfir á Berglindi en boltinn aðeins of langur.

Tveimur mínútum seinna komst svo leikmaður Stjörnunnar ein í gegn, Sonny fór út á móti en sóknarmaðurinn vippaði boltanum yfir hana en sem betur fer var Fjolla mætt til að hreinsa boltann útaf.  Þar munaði mjóu.

Á 30. mínútu kom Stjarnan upp hægri kantinn og átti fína fyrirgjöf þar sem sóknarmaður skallaði boltann í átt að markinu en Sonny varði vel.

Lítið var um færi það sem eftir lifði af fyrri hálfleik.  Blikar voru samt hættulegri í sóknum sínum en vantaði herslumuninn til að klára og komast innfyrir vörn Stjörnunnar.

Seinni hálfleikurinn byrjaði  líkt og sá fyrri með mikilli baráttu og gáfu Blikastelpur sig allar í leikinn.

Á 50. mínútu leiksins urðu svo slæm mistök í vörn Stjörnunnar þar sem leikmaður ætlaði að gefa til baka en Aldís Kara komst inní sendinguna og setti boltann snyrtilega framhjá Söndru í markinu.  Staðan orðin 1 – 0 fyrir Blika.

Einungis tveim mínútum síðar var svo Telma næstum sloppin ein í gegn en Stjarnan bjargaði á síðustu stundu.

Á 57. mínútu komst sóknarmaður Stjörnunnar ein í gegn en setti boltann sem betur fer framhjá markinu, þarna virtist vera um rangstöðu að ræða en ekkert dæmt.

Blikar voru svo ljónheppnir á 71. mínútu leiksins þegar fyrirliði Stjörnunnar smellti boltanum í innanverða stöngina en boltinn fór sem betur fer út og náðu Blikar að hreinsa í framhaldi.  Það þarf líka smá heppni til að vinna Íslandsmeistarana. J

Síðustu 15-20 mínútur leiksins lá töluvert á Blikum en vörðust þeir vel og náði Stjarnan ekki að skapa sér nein hættuleg færi.  Aftur á móti hefðu Blikar getað klárað leikinn alveg á 94 mínútu þegar það kom fín sending fyrir markið frá vinstri en skalli hjá Blikum fór rétt framhjá.

Það kom ekki að sök þar sem flautað var til leiksloka skömmu seinna og sigur Blika í höfn. 

Það er ekki hægt að segja annað en þetta sé frábær byrjun á mótinu enda er ansi langt síðan Stjarnan tapaði leik í Pepsí deildinni.  Heilt yfir var þetta bara sanngjarn sigur sem baráttuglaðar stelpurnar unnu sem ein heild.

Til hamingju Blikastelpur !

Næsti leikur hjá stelpunum er 20. maí og fer hann fram á Fylkisvelli kl. 19:15, nú er bara að fjölmenna og styðja stelpurnar áfram!

Áfram Breiðablik!

Til baka