BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik í úrslitaleik eftir sigur á Athlone Town

27.08.2025 image

Breiðablik tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik undankeppni Meistaradeildar Evrópu með 3–1 sigri á írsku meisturunum í Athlone Town í Enschede.

Byrjunarlið Breiðabliks var þannig skipað: Katherine Devine – Barbára Sól Gísladóttir, Heiðdís Lillýjardóttir, Elín Helena Karlsdóttir, Kristín Dís Árnadóttir – Heiða Ragney Viðarsdóttir, Samantha Smith, Agla María Albertsdóttir, Andrea Rut Bjarnadóttir – Birta Georgsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem bæði lið fengu sín færi en Blikar þó fleiri, komu mörkin loks í seinni hálfleik. Samantha Smith opnaði markareikninginn á 48. mínútu þegar hún fylgdi vel eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur og potaði boltanum í netið. Athlone náði þó að jafna metin á 59. mínútu þegar Madison Gibson skoraði beint úr hornspyrnu óheppilegt og allt í járnum.

Á 63. mínútu gerði Nik fyrstu breytingu Blika þegar Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir kom inn fyrir Birtu Georgsdóttur. Skömmu síðar, á 72. mínútu, kom Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir inn fyrir Kristínu Dís Árnadóttur.

Í kjölfar skiptinganna komu góðar mínútur hjá Blikum. Á 76. mínútu átti Hrafnhildur Ása glæsilega fyrirgjöf af hægri kantinum sem Samantha Smith skilaði í markið með viðstöðulausu skoti – hennar annað mark í leiknum. Aðeins einni mínútu síðar, á 77. mínútu, bætti Berglind Björg Þorvaldsdóttir við þriðja marki Blika með kraftmiklu skoti í fjærhornið eftir undirbúning frá Samönthu.

Á 83. mínútu fór hetja dagsins, Samantha Smith, af velli eftir tvö mörk og stoðsendingu – gott dagsverk hjá henni. Í hennar stað kom Karitas Tómasdóttir inn á.

Lokatölur urðu 3–1 fyrir Breiðablik sem þar með mætir annaðhvort Twente eða Rauðu stjörnunni (sem mætast síðar í dag) í úrslitaleik á laugardaginn.

Blikar áttu fleiri marktækifæri (14 skot gegn 11 hjá Athlone) og fengu alls tíu hornspyrnur. Þær Írsku voru inni í leiknum lengst af en á síðasta korterinu kom styrkleiki sóknarlínu Blika vel í ljós  og sigurinn því bæði verðskuldaður og sannfærandi.

Úrslitaleikurinn fer fram laugardaginn 30. ágúst. Með sigri þar getur Breiðablik tryggt sér sæti í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í annað sinn í sögunni. En þær eru núna þegar búnar að tryggja sér þátttökurétt í nýrri evrópukeppni sem heitir Europa Cup (Evrópubikar UEFA 2025/26), sem er útsláttarkeppni, þannig að það er ljóst að það eru að minnsta kosti tveir evrópuleikir framundan til viðbótar við þann sem verður á laugardaginn og vonandi fleiri.

image

Til baka