Gamlar dagbækur gerðu útslagið
06.08.2025
Stórtíðindi!
Tólf árum eftir opnun stuðningsmannavefsins Blikar.is/kvk/, sem hefur verið ómetanlegur vettvangur fyrir áhugafólk um meistaraflokk kvenna í knattspyrnu hjá Breiðabliki, hefur vefsíðan fengið í hendur leikmannatölfræði fyrir fyrstu árin í sögu kvennaliðs Breiðabliks. Þessar upplýsingar hafa verið taldar glataðar eða óaðgengilegar og því er þetta ómetanleg tölfræði. Þetta er sögulegt skjal sem Rósa Áslaug Valdimarsdóttir hefur látið okkur í té. Á hún miklar þakkir skilið fyrir framtakið.
Upphafið
Vefsíðan blikar.is/kvk - sjálfstæður stuðningsmannavefur fyrir meistarflokk kvenna - opnaði í september 2013 með upplýsingum um leiki og tölfræði leikmanna sem aðgengilegar voru á þeim tíma. En stuðningsmannasíðan blikar.is/kvk snýst ekki bara um tölfræði og úrslit leikja.
Vefurinn
Vefsíðan blikar.is/kvk opnaði í september 2013 með upplýsingum um leiki og tölfræði leikmanna sem aðgengilegar voru á þeim tíma. En blikar.is/kvk snýst ekki bara um tölfræði og úrslit leikja.
Undir „Fréttir“ er að finna 438 pistla um leiki, fréttir af félagsskiptum leikmanna o.fl. Prófíl-síða er fyrir alla 348 leikmenn sem hafa spilað mótsleik í grænu Breiðablikstreyjunni frá fyrsta leik árið 1972. Allir 1190+ mótsleikir kvennaliðsins eru skráðir með upplýsingum um úrslit og tengingar í efni. Á „TV" síðunni“ er að finna 170 myndbönd. Á síðunni „Myndir“ eru núna 1302 myndir frá því að Breiðablik tók fyrst þátt í Íslandsmótinu árið 1972 og til dagsins í dag. Og „English-síðan“ er stútfull af fróðleik.
Aðalsíða blikar.is/kvk 1. nóvember 2013.
Á vefsafn.is eru aðgengilegar 90 vistanir frá 1. nóvember 2013 til 2. febrúar 2025 sem hægt er að skoða hér.
Þáttur Helga VIðars Hilmarssonar
Helgi Viðar sá um alla tölfræðiskráningu í 10 ár. Í upphafi árs 2023 lét Helgi Viðar vita að keppnistímabilið 2023 yrði hans síðasta.
Auk þess að sinna skráningu er Helgi Viðar liðtækur ljósmyndari. Hann er maðurinn með myndavélina í öllum liðsmyndatökum beggja meistaraflokka frá 2012. Og Helgi Viðar er duglegur að mæta með myndavélina á leiki meistaraflokka félagsins og birta á BlikarTV og samfélagsmiðlum.
Skráning
Frá opnun vefjarins í september 2013 hafa úrslit verið skráð jafn óðum, sem og leikjatölfræði leikmanna. Eins og áður hefur komið fram sá Helgi Viðar um allt slíkt fyrsta áratuginn. Í framhaldinu sá undirritaður tímabundið um skráningu og að setja efni á vefinn.
Undanfarið ár hefur Eyrún Ingadóttir séð um skráningu og uppsetningu efnis fyrir kvk vefinn.
Viðbótarskráningar
Í lok árs 2022 var farið ítarlega ofan í skráningu leikja og úrslita fyrstu árin sem Breiðablik tók þátt í Faxaflóamótinu. Blikastúlkur tóku síðast þátt í Faxanum árið 2020. Fjöldi leikja og úrslit frá fyrsta leik í mótinu 2005 liggja nú fyrir og eru skráð í gagnagrunn blikar.is/kvk.
Í lok árs 2023 var kafað í leikskýrslur KSÍ fyrir leiki kvennaliðs Breiðabliks í Deildabikar KSÍ (Lengjubikarnum) fyrir árin 1996 – 2000 og leikmannatölfræði uppfærð upp úr leikskýrslum frá KSÍ. Einnig var þátttaka Breiðabliks í Opna Norðurlandamótinu (Nordic Open) árin 1995,1996,1997 skráð í gagnagrunn blikar.is.
Áhugavert efni: Knattspyrna kvenna í 50 ár
Viðbótarviðurkenningar fyrir leikjaáfanga
Framangreindar viðbætur höfðu áhrif á leikjafjölda leikmanna varðandi viðurkenningar.
Margrét R. Ólafsdóttir. Hún tók þátt í öllum 24 leikjum Breiðabliks í Deildabikar KSÍ árin 1996-2000 og skoraði 20 mörk. Einnig spilaði hún alla 13 leikina á Norðurlandamótinu 1995-1997 og skoraði 2 mörk. Mótsleikir Margrétar eru 232, voru 195 fyrir uppfærsluna, og markafjöldinn fer úr 104 í 126. Flosi Eiríksson afhenti Margréti nýverið 200 leikja viðurkenningu í hófi í veislusal Breiðabliks í Smáranum sem haldið var í tilefni af 50 ára afmæli Kópavogsvallar.
Áshildur Helgadóttir. Eftir skráningu 10 leikja og 5 marka í Opna Norðurlandamótinu 1995-1997 og 10 leikja og 11 marka í Deildabikar KSÍ árin 1996 og 1997 er lokaniðurstaða keppnisleikja Ásthildar með Breiðabliki 100 leikir og 70 skoruð mörk.
Sigrún „Ída“ Óttarsdóttir spilaði 22 af 24 leikjum í Deildabikar KSÍ árin 1996-2000. Ída endar því ferilinn með yfir 257 keppnisleiki og 63 mörk. Á kvennakvöldi Breiðabliks í mars 2019, sem haldið var í Smáranum, fékk Ída 200 leikja viðurkenningu frá knattspyrnudeild Breiðabliks.
Með Ídu á myndinni eru þær Guðrún Erla Hilmarsdóttir og Kristrún Lilja Daðadóttir sem einnig fengu 200 leikja viðurkenningu ásamt Hlín Eiríksdóttur sem var fjarverandi.
Leikmannatölfræði fyrstu árin ábótavant
Þrátt fyrir uppfærslu á leikmannatölfræði í ofangreindum mótum og skráningu leikmannatölfræði upp úr leikskýrslum og gögnum KSÍ, vantaði enn upplýsingar um hvað leikmenn spiluðu leikina og skoruðu mörkin fyrstu sjö til átta árin. Til að reyna að bæta úr þessu var haft samband við leikmenn, þjálfara og forráðamenn, leitað til íþróttafréttamanna frá þessum tíma sem sendu frá sér bækur en heimtur voru litlar sem engar. Margir bentu hins vegar á Rósu Áslaugu Valdimarsdóttur í þessu samhengi og var haft samband við hana í desember 2023. Svar hennar var skýrt „jú, ég hélt utan um úrslit leikja og hverjar spiluðu og skoruðu í öllum leikjum kvennaliðsins fyrstu tíu árin (þ.e. 1972-1982)“.
Í yfirliti Rósu Áslaugar er að finna upplýsingar um alla leikmenn, liðsmyndir og úrslit leikja meistarflokks kvenna fyrstu tíu árin í öllum mótum frá fyrsta leik á Íslandmóti á Vallargerðisvelli 26. ágúst 1972 til loka keppnistímabilsins 1982, en það ár sigraði meistaraflokkur kvenna í öllum þeim mótum sem liðið tók þátt í heima og erlendis - samtals níu mót.
Smella á mynd af skýrslunni eða hér fyrir neðan:
Íslandsmót utanhúss 1972-1982.
Íslandmót innanhúss 1972 - 1982.
UMSK mót innanhúss: 1972, 1982.
Bæjarkeppni við Akranes: 1974, 1975.
Bautamótið á Akureyri: 1981, 1982.
Skotlandsferð 1975 - fyrsti leikur kvennaliðs Breiðabliks erlendis.
Ferð til Danmerkur og Svíþjóðar 1980: 4 leikir.
Fyrsta mót erlendis 1982: ID mótið í Kaupmannahöfn.
Ferill Rósu Áslaugar með Breiðabliki og landsliðinu
Rósa Áslaug Valdimarsdóttir fæddist árið 1959 og ólst upp á Álfhólsvegi 36 í Kópavogi. Hún byrjaði að æfa með Breiðabliki sumarið 1968, þá níu ára gömul.
Fyrsti knattspyrnuleikurinn var á Vallargerðisvelli þann 9. september 1968, Austurbær á móti Vesturbæ. Í Austurbæjarliðið vantaði einn leikmann og hljóp Rósa í skarðið en lék þá með sér töluvert eldri stúlkum. Haustið 1970 var Rósa mætt á æfingar í Kópavogsskóla undir stjórn Guðmundar Þórðarsonar. Þá varð ekki aftur snúið hjá Rósu. Fyrsta Íslandsmót innanhúss haldið vorið 1971.
Breiðabliksliðið var ekki skráð til leiks fyrsta árið. Akranes vann Íslandsmeistaratitilinn innanhúss það ár. Sem sárabót fékk Blikaliðið að fara upp á Skaga og spila við ÍA-stúlkur og í ferðinni kom í ljós Blikastelpurnar stóðu jafnfætis þeim. Strax ári seinna tók kvennalið Breiðabliks þátt í bæði inni- og útimótinu. Hefur svo verið allar götur síðan.
Breiðabliksstúlkur tóku þátt í Íslandsmóti innanhúss í fyrsta sinn og UMSK-mótum, bæði innan- og utanhúss.
Rósa Á. Valdimarsdóttir skoraði fyrsta mark kvennaliðs Breiðabliks í opnunarleik Íslandsmótsins utanhúss á Vallargerðisvelli 26. ágúst 1972.
Rósa skoraði einnig fyrsta sigurmark Blikakvenna á Íslandmóti í sigri á Þrótti R. á Vallargerðisvelli 9. september 1972.
A-landsleikir Rósu eru fimm. 1 VL-leikur árið 1981 og 4 EM-leikir árið 1983.
Rósa var fyrsti landsliðsfyrirliðinn l Fyrirliði Breiðabliks frá tólf ára aldri l Eftirminnilegir fyrstu landsleikir l Margt breyst undanfarna áratugi
Í EM-blaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 2. júlí 2025 birtist viðtal við Rósu Áslaugu Valdimarsdóttur, fyrsta fyrirliða kvennaliðs Breiðabliks 1972 en þá var hún aðeins 12 ára að aldri. Hún var jafnframt fyrirliði kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu í fyrsta leik liðsins árið 1981 gegn Skotlandi í Kilmarnock. Rósa lék fimm fyrstu landsleiki Íslands á árunum 1981 til 1983. Auk þess að vera fyrsti fyrirliði landsliðsins lagði Rósa upp fyrsta mark landsliðsins í leiknum gegn Skotum árið 1981 og var einnig á skotskónum í fyrsta keppnisleiknum, í eftirminnilegu 2:2 jafntefli gegn Noregi á útivelli árið 1982 í undankeppni fyrsta Evrópumótsins 1984.
Rósa var einungis 13 ára þegar fyrsta Íslandsmót kvenna fór af stað árið 1972. Faðir hennar, Valdimar Kristinn Valdimarsson heitinn, gjarnan kallaður Valdi vallarvörður þar sem hann fór með umsjón fótboltavallanna í Kópavogi, átti stóran þátt í að koma knattspyrnu fyrir konur á koppinn hjá Breiðabliki. Auk þess hvatti hann Rósu til þess að gera eitthvað í málunum þegar hún var ósátt við að ekkert kvennalandslið væri til. Smella á mynd af viðtalinu til að lesa,
Áfangi
Yfirlitið frá Rósu lokar nú löngu ferli sem hefur falist í því að leita að og rýna gögn um hvaða leikmenn kvennaliðs Breiðabliks spiluðu mótsleiki félagsins fyrstu árin. Nú liggja þær upplýsingar fyrir og skráningu leikmannatölfræði aftur í tímann því lokið. Þessi frábæra niðurstaða er sambærileg við það sem var hjá meistaraflokki karla fyrir nokkrum árum. Karlaliðið byrjaði að keppa á KSÍ-móti árið 1957 og 13 árum síðar vann karlaliðið sig upp í efstu deild (þá 1.deild) árið 1971. Aðgengi að opinberum upplýsingum um leikmannatölfræði karlaliðsins fyrstu 13 árin 1957-1970 var mjög takmarkað. Til að ráða bót á þessu tók Jón Ingi Ragnarsson árið 2013 að sér verkefnið „Fyrstu 13 árin“ sem fólst í því að kafa ofan í skýrslur og blöð Breiðabliks, gögn frá Héraðsskjalasafni Kópavogs, efni úr úrklippubókum og dagblöðum sem voru gefin út á þessum tíma. Einnig var talað við leikmenn sem spiluðu á þessum árum. Tölfræði leikmanna karlaliðsins aftur í tímann var svo skráð í gagnagrunn blikar.is veturinn 2013/2014.
Þakklæti og viðurkenning
Aðstandendur stuðningsmannasíðunnar vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til Rósu Áslaugar fyrir þetta ómetanlega framlag. Jafnframt eru sjálfboðaliðum vefsins færðar miklar þakkir fyrir ómetanlegt starf í gegnum tíðina með hvatningu um áframhaldandi gott starf.
Leikja- og markahæstar
Allir mótsleikir - 12 leikjahæstar
Fanndís Friðriksdóttir leiðir í fjölda mótsleikja með 316 leiki í Breiðabikstreyjunni. Síðasti keppnisleikur Ástu Eir var hennar 300. leikur. Berglin Björg og Agla María eru enn að og gætu því slegið leikjamet Fanndísar.
Allir mótsleikir - 12 markahæstar
Blikakonur skoruðu mörkin. Ásta B. Gunnlaugsdóttir er markahæst í öllum mótsleikjum kvennaliðs Breiðabliks frá upphafi með 195 mörk í 189 leikjum. Berglind Björg er enn að og er með 187 mörk í 245 mótsleikjum. Berglind er á góðri leið með að ná Ástu B. í markaskorun.
Efsta deild - 12 leikjahæstar
Sigrún "Ída" Óttarsdóttir leiðir með 179 leiki í efstu deild. Ástu Eir vantaði aðeins 3 leiki í A-deild til að jafna leikjafjölda Ídu þegar hún lagði skóna á hilluna frægu. Bæði Berglind Björk og Agla María eru enn að og geta náð Ídu.
Efsta deild - 12 markahæstar
Þrátt fyrir að tvær marksæknar Blikakonur séu enn að spila og hrella markverði er enn töluvert í að markamet Ástu B. Gunnlaugsdóttur verði slegið.
Leikmannahópur Breiðabliks 2025
Blikar.is/kvk/ er sjálfstæður stuðningsmannavefur fyrir meistarflokk kvenna hjá Breiðabliki í knattspyrnu. Pistlar sem birtast túlka sýn pistlahöfuna hverju sinni. Vefurinn opnar í september 2013 að frumkvæði Borghildar Sigurðardóttur.
Efni: Fréttir, pistlar, tölfræði, sagan, dagblöð, myndir og myndbönd.
Tölfræði: Helgi Viðar Hilmarsson - Pétur Ómar Ágústsson - Eyrún Ingadóttir
Pennar síðunnar: Anna Björg Lindberg - Eiríkur Hjálmarsson - Helga Katrín Jónsdóttir - Andri Yrkill Valsson - Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir - Halldór Arnarsson - Hlífar Rúnarsson - Eyrún Ingadóttir - Borghildur Sigurðardóttir
Uppsetning efnis: Eyrún Ingadóttir
Myndbönd: Heiðar B. Heiðarsson - Helgi Viðar Hilmarsson - YouTube rás Bestu deildarinnar
Myndir: Helgi Viðar Hilmarsson
Ábendingar sendist til: blikar@blikar.is
Hönnun og forritun: Zebra - www.zebra.is - Gylfi Steinn Gunnarsson
/PÓÁ