Blikar bíða enn eftir titlinum – Þróttur vann í Laugardalnum
01.10.2025
Byrjunarlið Breiðabliks var þannig skipað:
Katherine Devine – Barbára Sól Gísladóttir, Heiðdís Lillýjardóttir, Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, Helga Rut Einarsdóttir – Andrea Rut Bjarnadóttir, Agla María Albertsdóttir, Samantha Smith, Birta Georgsdóttir – Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Samantha Rose.
Það var mikið undir þegar Breiðablik heimsótti Þrótt í Laugardalinn í Bestu deild kvenna. Sigur hefði nánast tryggt Íslandsmeistaratitilinn, en að lokum voru það Þróttarar sem fögnuðu 3–2 sigri eftir fjörugan leik.
Blikar byrjuðu leikinn betur og bæði Samantha og Berglind Björg fengu færi til að koma okkur yfir. Þróttur nýtti hins vegar sitt fyrsta stóra tækifæri vel á 34. mínútu þegar Unnur Dóra Bergsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins, 1–0 og var það staðan í hálfleik.
Nik gerði sóknasinnaða breytinu í hálfleik þegar Karitas Tómasdóttir kom inná í stað Barbáru Sólar.
Á 64. mínútu jafnaði Berglind Björg metin með skalla eftir fyrirgjöf frá Öglu Maríu Albertsdóttur, ekki í fyrsta sinn sem við sjáum það dúó búa til mark fyrir okkur. Þróttur svaraði þó aðeins sjö mínútum síðar þegar Kayla Marie Rollins skallaði inn mark eftir fyrirgjöf Sæunnar Björnsdóttur, 2–1.
Á 66. mínútu kom Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir inn fyrir Öglu Maríu og aðeins tveimur mínútum síðar vorum við aftur búin að jafna. Aftur var það Berglind Björg sem gerði það þegar hún skoraði sitt annað mark með skalla eftir stoðsendingu frá Andreu Rut, 2–2.
Þróttarar voru ekki hættir því á 77. mínútu skoraði Sierra Marie Lelii eftir fyrirgjöf Mistar Funadóttur. Þrátt fyrir mikinn sóknarþunga Blika undir lokin – þar sem bæði Karitas og Berglind Björg komust í dauðafæri – stóðu heimakonur af sér áhlaupið.
Á 85. mínútu fór Helga Rut af velli og Edith Kristín Kristjánsdóttir kom inn á en allt kom fyrir ekki og lokatölur 3–2 fyrir Þrótt sem lyfti sér þar með upp í 2. sæti deildarinnar. Blikar bíða því enn eftir að tryggja Íslandsmeistaratitilinn, en liðið er enn með góða stöðu í toppbaráttunni sem þó er hvergi nærri búin og mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið komi á næsta leik og hvetji þær áfram en sá leikur er á föstudaginn á Kópavogsvelli á móti sjóðheitum Víkingsstelpum.
