Björt Birta yfir Breiðabliki!
05.09.2025


Í gærkvöld áttust við liðin sem léku einn eftirminnilegasta bikarúrslitaleik sögunnar, þegar okkar konur tóku á móti FH. Fyrir likin var Breiðablik með fimm stiga forystu á FH og því ljóst að þessi leikur skipti gríðarlegu miklu máli fyrir átökin framundan.
Byrjunarlið Blika var svona: Devine, Elín, Sammy, Agla, Heiða, Andrea, Karítas, Kristín, Heiðdís, Berglind og Barbára. Þrjár breytingar frá sigurleiknum á móti Tindastól, Heiða, Andrea og Kristín komu í staðin fyrir Hrafnhildi, Áslaugu Mundu og Edith.
Eins og fyrr segir var mikil spenna í loftinu, það var búið að kynda upp fyrir leikinn með skemmtilegum leikjum á milli þeirra sem var birt á samfélagsmiðlum, virkilega skemmtilegt framtak. En FH stelpurnar sýndu að þær ætluðu sér sigur, byrjuðu mjög vel og áttu dauðafæri strax á 3. mínútu og síðan 7 mínútum síðar er komið mark hjá gestunum.
Við markið vöknuðu okkar stelpur og áttu fínar rispur, Sammy sem markvörður FH náði að verja, skömmu síðar átt Berglind rosalegt skot sem small í þverslánni. Eftir þetta kom meira jafnvægi í leikinn, bæði lið áttu möguleika á fá færi án þess að það kæmi eitthvað dauðafæri, Blikarnir þó ívið sterkari, en gestirnir leiddu í hálfleik 0-1.
Blikarnir byrjðu seinni hálfleikinn betur, sóttu tölvuert og þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiktímanum kom Berglind boltanum í netið eftir að hafa tekið frákastið frá þrumuskoti Kristínar, en Berglind var dæmd rangstæð og markið því ekki gilt.
Blikar héldu áfram að herja á FH stelpur og fengu urmul hornspyrna og markvörður þeirra átti einnig prýðisleik, varði t.d. flott skot frá Birtu. Það var eins og það væru örlög á okkar stelpum, boltinn vildi bara ekki inn, en á 64. mínútu kemur Birta Georgsdóttir inn á og er ekki búin að vera lengi inn á þegar hún fellur í teygnum og vill fá vítaspyrnu, sem hún fékk ekki, sennilega rétt hjá dómaranum. Birta er síðan aftur í sviðsljósinu skömmu síðar með hörkuskot sem markvörður þeirra ver glæsilega, síðan átti hún annað skot rétt fyrir 90. mínútu.
Það var síðan ekki fyrr en á 90 mínútu að stíflan loksins brast þegar títtnefnd Birta átti skot í stöngina, tekur frákastið sjálf og í þetta sinn syngur boltinn í netinu. Okkar stelpur voru ekkert sáttar við eitt stig og herjuðu til sigurs, á 93. mínútu er, kona leiksins, Birta enn og aftur miðpunkturinn og skorar annað mark sitt og tryggir um leið mikilvægan sigur Blika 2-1.
Breiðablik komin með 8 stiga forskot og gott veganesti í átt að Íslandsmeistaratittlinum.