BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bikarinn í bæinn aftur

12.08.2016

Breiðablik varð Borgunarbikarmeistari kvenna í ellefta sinn þegar liðið lagði ÍBV örugglega að velli 3:1 á Laugardalsvelli í gær. Olivia Chance og Berglind Björg Þorvaldsdóttir komu okkar stúlkum yfir í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir að Eyjastúlkur minnkuðu muninn í síðari hálfleik þá sá eldibrandurinn Fanndís Friðriksdóttir til þess að bikarinn kæmi aftur í Kópavoginn eftir tveggja ára hlé. Sigurinn var fyllilega verðskuldaður enda voru okkar stúlkur grimmari, sneggri og ákveðnari í öllum sínum aðgerðum meirihluta leiksins.

Segja má að Erpur Eyvindarson og félagar hans í Kópacabanahópnum hafi lagt grunninn að sigrinum með frábærri upphitun í Þróttaraheimilinu. Erpur, eða Blaz Roca eins og hann er oftast nefndur, söng ,,Kýlum þetta í gang“ og kveikti vel í þeim rúmlega 300 stuðningsmönnum Blika sem mættu í upphitunarpartýið. Elfar Tjörvi skartaði nýrri klippingu með fléttuðu hári og Hilmar Jökull streymdi ,,live“ út í kosmosið því sem var að gerast með nýja vivio appinu. Er hægt að biðja um meira?

Veðurguðirnir voru okkur einnig hagstæðir. Koppalogn ríkti í Laugardalnum og hitastigið í kringum 15 gráður. Jói vallarstjóri stikaði um svæðið ábúðafullur að vanda og sendi nokkra Hjálparsveitarmenn til að hafa auga með stuðningsmönnum Blika. Þeir höguðu sér hins vegar óaðfinnanlega þannig að Jói gat leyft sér að slaka örlítið á í síðari hálfleik.

Byrjunarlið Blika var þannig skipað:

Sonný í markinu,

Arna Dís, Ingibjörg, Málfríður og Hallbera í vörninni,

Fjolla, Rakel,  Olivia á miðjunni,

Fanndís og Svava á köntunum og Berglind uppá topp.

Hér er hægt að nálgast leikskýrslu og textalýsingu af leiknum.

Blikastúlkurnar fengu greinilega góða strauma frá áhorfendum því þær byrjuðu leikinn af feykilegum krafti.  Vestmanneyjastúlkur vissu vart hvort þær væru að koma eða fara. Það kom ekki á óvart að við næðum forystunni strax á annarri mínútu leiksins þegar Ný-Sjálendingurinn okkar Olivia Chance skaut bylmingsskoti að marki sem markvörður ÍBV réði ekki við. Fanndís og Hallbera voru með rútuferðir upp vinstri kantinn og sköpuðu stórhættu í hvert sinn sem þær fengu boltann. Þær tvær voru að öðrum ólöstuðum bestu leikmenn vallarins. Á 28. mínútu leiksins bætti síðan framherjinn Berglind Björg við öðru marki Blika með góðum skalla eftir hornspyrnu Fanndísar. Þrátt fyrir nokkur hálf-færi tókst okkur ekki að bæta við þriðja markinu fyrir leikhlé.

Létt var yfir stuðningsmönnum Blika í leikhléi. Heiðurshjónin og fastagestirnir Hreinn Bergsveinsson og Valgerður Pálsdóttir sögðust sjaldan hafa verið jafn lítið stressuð á leik. Jón S. Garðarsson Kyoceraforstjóri lýsti því yfir í heyrandi hljóði að við myndum vinna þennan leik með amk þriggja marka mun. Gamalt máltæki segir að lofa skuli mey að morgni og það reyndist eiga vel við fyrstu mínútur síðari hálfleiksins.

Búningsteið virtist eitthvað hafa farið vitlaust ofan í okkar stúlkur og Vestmannaeyjadömur gengu á lagið. Smá taugatitrings fór að verða varts í Blikaliðinu. Þær hættu að spila boltanum með jörðinni en fóru þess í stað í langar kýlingar fram sem engu skiluðu. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að ÍBV minnkaði muninn eftir smá klaufaskap í vörninni hjá okkur. En sem betur fer hristu stúlkurnar okkar þennan titring af sérog unnu sig inn í leikinn aftur.  Eftir frábæra sókn upp völlinn lagði Olivia boltann snöggt út á Fanndísi sem setti knöttinn snyrtilega í hornið með frábærri snúningsspyrnu. Þrátt fyrir að Hallbera hafi bjargað á línu rétt fyrir leikslok þá var sigur Blikastúlkna aldrei í hættu eftir þriðja markið.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar ágætur dómari leiksins flautaði til leiksloka og ljóst var að bikarinn kæmi aftur í Kópavoginn eftir einhvern misskilning undanfarin tvö ár! Þetta var sigur liðsheildarinnar hjá Blikunum. Stúlkurnar voru grimmar allan leikinn og börðust um hvern einasta bolta. Auðvitað slóg markið í byrjun andstæðinga okkar út af laginu en við vorum betri á nánast öllum sviðum leiksins. Samt vorum við að spila pent og þurfti sá svartklæddi ekki að sýna einum einasta leikmanni gula spjaldið í leiknum!

Það voru glæsilegar mótttökur sem stúlkurnar okkar fengu þegar þær komu aftur í Kópavoginn. Búið var opna salinn í Smáranum og þar tróð Blaz Roca aftur upp en nú með dyggum stuðningi eins efnilegasta rappara landsins Kópavogsbúans Árna Páls Árnasonar, betur þekktum sem Hr. Hnetusmjör. Flugeldar og blys tóku á móti bikarhetjunum okkar og inni í salnum trylltu rappararnir mannskapinn. 

Stelpurnar okkar fá hins vegar ekki mikla hvíld. Um helgina verður æft því á miðvikudaginn halda þær norður yfir heiðar til að mæta öflugu liði Þórs/KA. Í vikunni þar á eftir verður síðan flogið til Cardiff þar sem liðið tekur þátt í riðli í Evrópukeppni félagsliða. Borgunarbikarinn á hins vegar örugglega eftir að hjálpa Blikastelpunum að ná betri árangri í baráttunni framundan.

Hjartanlega til hamingu með þennan flotta sigur!

Til baka