BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2025: Breiðablik - Valur

15.05.2025 image

Stórleikur á Kópavogsvelli næstkomandi föstudag klukkan 18:00!

Slegið verður upp veislu fyrir áhorfendur. Svæðið opnar kl.17:00. Pylsuvagn frá Bæjarins bestu verður á svæðinu. DJ Gugga verður með upphitun úti á velli, Græna stofan að sjálfsögðu opin og skellt verður í skemmtilegan hálfleiks leik fyrir áhorfendur.

Okkar konur eru á toppnum í deildinni þegar 5 umferðir hafa verið leiknar. Síðustu ár hafa Breiðablik og Valur verið hlið við hlið í töflunni frá upphafi móta allt til loka en í dag er staðan aðeins önnur. Valur hefur farið rólegra af stað en undanfarin ár en samt er vitað að leikir á milli þessara liða eru alltaf miklir spennuleikir og ráðast úrslit oft seint.

Breiðablik hefur spilað 52 sinnum á móti Val í efstu deild frá árinu 2000 og hefur Breiðablik unnið 23 sinnum, Valur 21 sinni og 8 sinnum hefur orðið jafntefli á milli þessara liða. Í þessum leikjum hefur Breiðablik skorað 84 mörk og Valur 80 svo allar tölur benda til þess að um mjög spennandi leik verði að ræða Liðin hafa nú þegar spilað tvo leiki á árinu og skipt með sér sigrum í þeim leikjum. Valur vann Meistarakeppni kvenna á Kópavogsvelli í apríl 0-1 og Breiðablik vann úrslitaleikinn í Lengjubikar kvenna A deild í mars á Kópavogsvelli 2-1.

Nokkrir leikmenn hafa í gegnum tíðina leikið með báðum þessum félögum og má þar nefna Berglindi Björg Þorvaldsdóttur  og Ólöfu Sigríði Kristinsdóttir(í Breiðablik í dag) og Fanndísi Friðriksdóttur og Helenu Ósk Hálfdánardóttir (í Val í dag) sem leika með liðunum á þessari leiktíð. Aðrir leikmenn eru t.d. Hildur Antonsdóttir, Hallbera Gísladóttir, Katrín Jónsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Ólína Viðarsdóttir, Þórdís hrönn Sigfúsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir svo einhverjar kempur séu nefndar. Einnig hefur Edda Garðarsdóttir aðstoðarþjálfarinn okkar spila fyrir bæði lið.

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að mæta á völlinn á föstudag í blíðskapar veðri og hvetja stelpurnar okkar!

image

Leikmannahópur Breiðabliks 2025

Til baka