BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bayern kaupir Karólínu

21.01.2021

„Þegar svona stór klúbbur eins og FC Bayern hefur samband við mann þá er ekki hægt að neita því. Það hefur alltaf verið minn draumur að komast út í atvinnumennsku þannig ég er mjög stolt af sjálfri mér að upplifa drauminn,“ segir Karólína Lea um félagaskiptin.

Hún segist afar þakklát fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn og finnur fyrir því að Bayern sé eins og ein stór fjölskylda sem gaman sé að verða hluti af. Móttökurnar hafi verið virkilega góðar, en Karólína er nú meidd á hné og fór strax í sérstaka meðhöndlun innan félagsins.

„Maður finnur strax þegar maður kemur inn á æfingasvæðið hversu stór klúbbur þetta er og ég mun þroskast mikið innan vallar sem utan í þessu umhverfi. Ég var strax sett í sérstaka meðhöndlun sem inniheldur aðeins meidda leikmenn. Ég er búin að æfa mikið síðan ég kom hingað út og mér líður mjög vel líkamlega og andlega.“

Karólína Lea varð Íslandsmeistari með Blikum árin 2018 og 2020 auk þess að verða bikarmeistari 2018. Hún hefur sannað sig sem einn besti leikmaður deildarinnar og undirstrikað það með því að festa sig í sessi í A-landsliðinu í síðustu leikjum.

„Það var stórt skref fyrir mig að fara frá mínu uppeldisfélagi yfir í Breiðablik en ég sé alls ekki eftir því. Þjálfunin, sjúkraþjálfunin og allt í kringum liðið er til fyrirmyndar og ég er svo þakklát fyrir minn tíma hjá félaginu. Auðvitað var geggjað að vinna leiki og titla en það sem stendur mest upp úr er klárlega fólkið í kringum Breiðablik. Ég eignaðist mínar bestu vinkonur og fékk að kynnast endalaust af yndislegu fólki og mér finnst það standa mest upp úr,“ segir Karólína Lea.

Hún hefur fulla trú á Blikaliðinu þrátt fyrir miklar breytingar fyrir næsta sumar og ætlar að fylgjast vel með gengi liðsins.

„Að lokum vil ég þakka mögnuðum stuðningsmönnum Breiðabliks sem koma manni alltaf á óvart með alls konar lögum og fagnaðarlátum. Breiðablik á stórt pláss í mínu hjarta og ég mun kíkja við strax þegar ég get,“ segir Karólína Lea.

Hún fer beint á toppinn í Þýskalandi, en Bayern er með fullt hús stiga eftir tólf leiki á tímabilinu. Breiðablik vill þakka Karólínu kærlega fyrir frábær ár í Kópavogi og óska henni hjartanlega til hamingju með spennandi skref á ferlinum. Það verður afar gaman að fylgjast með henni í einni sterkustu deild heims.

Til baka