BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusumar framundan

19.04.2022 image

Breiðablikskonur mættu með eina dollu í húsi til meistaraleiks meistaranna á Valsvöllinn. Deildarbikarinn er okkar og var það alveg glimrandi eftir að ljóst var að stelpurnar myndu ekki hampa Evrópubikarnum 2022 eftir lengsta keppnistímabil íslensks fótboltaliðs nokkurn tíma á síðasta ári.

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar frá því að það kom til jarðar sem snjór á Kópavogsvelli í Meistaradeildarleikjunum í vetur. Víða sköpuðust skörð í liðinu og hann Ási, nýr þjálfari liðsins sem þreytti frumraun sína með Breiðabliksstelpunum á móti Real Madrid, þurfti í senn að kynnast liðinu betur og byggja það upp að nýju.

Taplausar í Lengjunni

Okkar konur fóru taplausar í gegnum Lengjubikarinn, unnu hvern einasta leik í riðlinum og klikktu út með 2-1 sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Áttundi slíki bikarinn í húsi, sem sagt, en Stjarnan hafði lagt Val ansi örugglega í undanúrslitunum. Það er samt ekki hægt að reikna sig til niðurstöðu í fótboltaleikjum og í meistaraleik kvennanna mættust liðin sem hafa raðað sér í tvö efstu sætin í Bestu deildinni um árabil.

Svona mættu liðin til leiks, en það voru einhver meiðsl og forföll í báðum liðum.

image

Það var enginn þykjustuleikur í gangi með pressu okkar kvenna í byrjun leiks. Það liðu fjölmargar mínútur áður en þær rauðklæddu að tengja saman nokkrar sendingar og framan af leiknum sköpuðust fínar stöður eftir flottar sendingar, aðallega upp kantana, hvort sem boltinn vannst á miðjunni eða spilað var frá öftustu konum. Færin létu samt á sér standa enda virkilega vanar stelpur í Valsvörninni.

Upp úr miðjum hálfleiknum fengu Valskonur meiri tíma með boltann og þá stóð ekki á metnaðarfyllri sendingum. Langflestar þeirra voru étnar af okkar miðvörðum en stundum kom svolítið los á vörnina og hættulegasta færi hálfleiksins fékk stormsenterinn Elín Metta setti blessunarlega framhjá. Undir lok hans sótti í sama far og fyrr og okkar konur sterkari í návígum og í það heila sennilegri í öllum hálfleiknum. Samt markalaust.

Í hálfleik komu þær Anna Petryk frá Úkraínu inn á ásamt Birtu og Ási átti eftir að gera þrjár skiptingar til viðbótar í seinni hálfleiknum en Pétur Valsþjálfari gerði bara eina í öllum leiknum.

image

Anna með sinn fyrsta leik með Breiðabliki.

Opnari leikur

Síðari hálfleikurinn var í heildina eilítið opnari en sá fyrri (og mátti alveg við því). Í kringum 70. mínútuna gerðu okkar konur ítrekaðar atlögur að marki Vals þar sem Helena á hægri vængnum var ýmist að dæla boltum fyrir eða smella honum í slána.

Í kringum 80. mínútuna snerist dæmið við og Valur gerði orrahríð að okkar marki. (Þetta er smávegis lókalbrandari því synir mínir heita Valur og Orri.) Þá hefði boltinn allt eins getað endað í netinu eitthvert skiptið en þessi hnöttótti belgur númer fimm (68-70 sentimetrar að ummáli og 410-450 grömm að þyngd) ætlaði ekki í netið í hefðbundnum leiktíma. Við það sat.

Beint í vító

Vítakeppni er eins og konfektkassi; þú veist aldrei á hverju þú mátt eiga von. Önnur líking er að svona keppni sé eins og málsháttur í páskaeggi. Maður er tvístígandi fyrirfram og stundum verður maður óskaplega ánægður, en aldrei fyrr en eftir á. Það fór eins með vítakeppnina eins og málsháttinn í mínu páskaeggi þetta árið. „Æ sér gjöf til gjalda,“ var nú öll spekin sem var á gula miðanum mínum og ánægjan með hana svipuð og með niðurstöðu vítakeppninnar. Telma, sem stóð sig býsna vel í leiknum heild, varði eitt Valsvítanna en það bara dugði ekki þar sem við brenndum af tveimur. Það er rétt að nefna að Taylor var ansi hreint vösk í vörninni og mér fannst hún vera með Elínu Mettu í vasanum og Alexandra var dugleg en hefði mátt skjóta betur.

Í vorblíðunni virtist mér þetta leikur sem bæði lið voru áfjáðari í að tapa ekki en að vinna. Kannski halda þjálfararnir að þessi leikur slái einhvern tón fyrir væntanlega baráttu þessara öflugu liða í sumar. Kannski gerir hann það. Kannski er hann vísbending um jafna baráttu framundan, kannski um öflugan varnaleik beggja liða, kannski um að þarna eru tveir bestu markmenn landsins en er vonandi ekki til marks um markaþurrð.

image

Telma að verja víti

Næsti leikur

Íslandsmótið hjá Breiðabliksstelpunum í Bestu deildinni hefst miðvikudaginn 27. apríl. Þá koma norðankonur í Þór/KA á Kópavogsvöll. Þær fóru ekkert sérstaklega vel af stað í Lengjubikarnum nú í vetur en hafa þó styrkt sig nokkuð frá í fyrra. Öll á völl!

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjöllun annarra miðla:

image

Heimaleikir í Bestu 2022

Til baka