BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Áslaug Munda framlengir við Breiðablik

06.04.2021

Knattspyrnudeild Breiðabliks tilkynnir með mikilli ánægju að Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við félagið.

Áslaug Munda er uppalin á Egilsstöðum en steig sín fyrstu skref með meistaraflokki Völsungs á Húsavík. Hún verður tvítug á árinu en er engu að síður að hefja sitt fjórða tímabil með Blikum og á að baki 79 leiki með liðinu þar sem hún hefur skorað 12 mörk.

Á ferli sínum í Kópavoginum hefur Áslaug Munda hjálpað Blikum að vinna tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil ásamt því að komast í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu árið 2019. Hún hefur sannað sig sem ein allra efnilegasa knattspyrnukona landsins, var fastamaður í yngri landsliðum og spilaði svo sína fyrstu A-landsleiki sumarið 2019. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli erlendra liða og meðal annars farið á reynslu til franska stórliðsins PSG.

Áslaug Munda er mikil fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar. Það eru sannarlega gleðitíðindi að hún hafi framlengt samning sinn við félagið og það verður gaman að fylgjast með henni halda áfram að leika listir sínar á vellinum með sinn mikla hraða og áræðni.

Til baka