BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Agla María til Svíþjóðar

04.01.2022 image

Breiðablik hefur samþykkt tilboð silfurliðs sænsku úrvalsdeildarinnar BK Häcken í Öglu Maríu Albertsdóttur og hefur hún náð samkomulagi við félagið. Yfirgefur hún Kópavoginn eftir afar glæsilegan feril. Agla María sem ung hóf að æfa með meistaraflokki Breiðabliks hefur verið í burðarhlutverki og unnið allt sem hægt er að vinna. Hún hefur spilað alls 126 leiki og skorað 97 mörk fyrir liðið sem er hreint mögnuð tölfræði. Þá hefur hún fyrir löngu fest sig í sessi í A-landsliðinu og á þar að baki 41 leik.

image

Það var mikill áhugi erlendis frá að fá Öglu Maríu til liðs við sig, enda hefur hún sannað sig sem ein albesta knattspyrnukona landsins síðustu ár. Að lokum kom gott tilboð frá Häcken og Öglu Maríu leist sömuleiðis vel á liðið, sem hafnaði í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og lék í riðlakeppni meistaradeildarinnar líkt og Breiðablik.

Breiðablik vill þakka Öglu Maríu kærlega fyrir sitt framlag síðustu ár þar sem hún hefur ekki aðeins skarað fram úr innan vallar heldur einnig verið framúrskarandi fyrirmynd fyrir unga iðkendur hjá félaginu. Það verður spennandi að fylgjast með henni í atvinnumennsku.

Takk fyrir okkur Agla María!

image

Til baka