BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þægilegur sigur á glæsilegum grasvelli á Selfossi

31.05.2023 image

Byrjunarliðið:  Telma Ívarsd (m) - Toni Deion Pressley - Hafrún Rakel Halldórsd - Agla María Albertsd - Taylor Marie Ziemer - Katrín Ásbjörnsd - Andrea Rut Bjarnad - Ásta Eir Árnad (f) -  Karitas Tómasd - Elín Helena Karlsd - Áslaug Munda Gunnlaugsd.

Blikakonur voru mættar í kvöld á Selfoss til að spila við heimakonur. Leikið var á Jáverksvellinum sem virðist vera eini grasvöllur landsins sem hefur komið vel undan vetri. Breiðablik gerði 7 breytingar á liði sínu frá bikarleiknum við Fram sem fram fór um helgina.Blikar byrjuðu með boltann og hófu leikinn af ákefð. Strax eftir eina og hálfa mínútu kom fyrsta skotið frá Ástu Eir en það var lélegt og Idun Kristine markmaður Selfyssinga átti ekki í vandræðum með það. Það var svo eftir tvær og hálfa mínútu að Blikar fóru í glæsilega sókn. Ásta kemur boltanum á Öglu Maríu sem sendir fyrir en boltinn er hreinsaður aftur á Öglu Maríu og hún kemur boltanum inn í á Hafrúnu sem skorar glæsilegt mark 0-1. 

image

Blikar sóttu stanslaust eftir markið, og á fimmtu mínútu fá Blikar horn sem ekkert verður úr en Blikar héldu áfram að sækja næstu mínútur. Það var svo á tíundu mínútu að Blikar fá hornspyrnu sem Agla María tekur, rennir boltanum út í teig á Andreu sem sendir hann snyrtilega í markið 0-2.

image

Eftir markið fer boltin svolítið á milli teiga, liðin ná ekki góðu spili en Blikar alltaf meira með boltan og hættulegri. Á 34 mínútu komast Blikar aftur í gegn en Selfoss bjargar í horn. Aglamaría er með geggjaða hornspyrnu inn í teig þar sem boltinn fer í tvo varnarmenn Selfoss og inn og staðan orðin 0-3 okkur í hag og Agla María kominn með 3 stoðasendingar. Það sem eftirlifði fyrrhálfleiks var tíðindalítið og eftir góðan fyrri hálfleik þá fara Blikar inn í hálfleik með þægilega  0-3 forystu.

Selfoss mætti mun ákveðnari út í síðari hálfleik og ætluðu greinilega ekki að láta rúlla yfir sig í leiknum. Blikar eru samt hættulegri í sínum sóknaraðgerðum en Selfoss verst vel. Á 60 mínútu verður Katrín fyrir smá hnjaski og þarf að fara útaf en hún náði ekki að setja mark sitt á leikinn en við eigum það bara inni. Inn fyrir hana kemur Bergþóra Sól. Á 61 mínútu átti Selfoss sitt fyrsta skot að marki en ekki hafði verið neitt að gera hjá Thelmu fram að því. Í kjölfarið á þessu skoti átti Selfoss annað skot sem Thelma varði glæsilega. Á 66 mínútu verður Karitas fyrir því óláni að detta eftir návígi og liggur óvíg eftir og þarf að fara útaf, inn fyrir hana kemur Hildur Þóra, við vonum að meiðsli hennar séu ekki alvarleg. Selfoss var heldur betra liðið eftir þetta og erfiðlega gekk hjá Blikum að láta boltann ganga sín á milli samt er lítil ógn í sóknaraðgerðum Selfyssinga og  Blikar í raun að sigla þessu heim í rólegheitum. Blikar gera skiptingu á 84 mínútu þegar Agla María og Andrea fara útaf og inn komu Clara og Birta. Á 88 mínútu átti Selfoss hörkuskot í slá og niður þar sem heimamenn vildu  meina að hefði verið mark en svo var þó ekki. Á 90 mínútu fá Blikar aukaspyrnu út við hliðarlínu á móts við vítateig en boltinn svífur yfir allann pakkann. Blikar sigla þessum sigri heim örugglega og áreynslulaust en lokatölur voru 0-3. Mjög góður fyrrihálfleikur hjá okkar konum en svo var eins og áhuginn og ákefðinn víkju í síðari hálfleik og hefði verið gaman að sjá þær keyra á fullu allan leikinn. Annað sætið er samt staðreynd svo nú er bara að keyra á fullu í 90 mínútur í erfiðum leik á móti Stjörnunni sem verður á Kópavogsvelli 7 júní næstkomandi.

B

Til baka