BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vorvísa

05.04.2023 image

,,Vorið er komið og grundirnar gróa“ orti Jón Thoroddsen á og nú byrjar tuðrusparkið eina ferðina enn skv. almanakinu og ekki seinna vænna.

Íslandsmeistarar Blika og Bikarmeistarar Víkings mættist í kvöld í árlegum leik um Sigurðarbikarinn og nafnbótina Meistarar meistaranna. Sömu lið börðust af sama tilefni í fyrra og þá höfðu Víkingar betur. Blikar að reyna við þennan titil í fjórða sinn, en þrem sinnum hafa þeir gengið bónleiðir til búðar.
Hellingur af fólki á vellinum og stúkan nánast full og því vel yfir þúsund manns á vellinum. Aðstæður prýðilegar í kvöld, hægur andvari af landsuðri, úrkomulaust og hiti nálægt 7° á celsíuskvarðanum. Óskar Hrafn þjálfari Blika í leikbanni eftir rauða spjaldið í leik liðanna í mótslok í fyrra, sem og Viktor Örn sem fékk sömuleiðis rautt í þeim leik. Einhver eymsl að hrjá suma leikmenn okkar eins og gengur.

Liðsskipan okkar manna í kvöld:

Erlendur málarameistari Eiríksson setti í gang á tilsettum tíma og fyrstu 5-6 mínúturnar voru gestirnir dálítið að dunda sér á okkar vallarhelmingi, óþarflega mikið fyrir minn smekk en án þess að skapa sér færi. Smám saman óx okkar mönnum svo ásmegin og fyrsta markið kom eftir tæpan stundarfjórðung eftir laglega sókn upp hægri kantinn. Höskuldur með fyrirgjöf sem Víkingar náðu að setja kollinn í en beint á Ágúst sem skallaði beint inn í teig á Patrik sem lagði hann út á Gísla sem setti hann í netið með yfirvegaðri innanfótarspyrnu. Sumir myndu segja að þetta hafi verið alsnoturt mark. 1-0.

Þarna voru Blikar komnir með öll völd á vellinum, spiluðu fast og pressuðu gestina hátt og unnu boltann ítrekað eftir slíka pressu. Færin létu hins vegar á sér standa enn um sinn.  En pressan skilaði sér fyrir rest því eftir rúmlega hálftíma leik unnu Blikar boltann hátt á vellinum, boltinn yfir til vinstri og svo aftur yfir á hægri væng á Viktor Karl sem sendi viðstöðulaust fyrir markið og þar var Patrik mættur og mokaði boltanum í markið. Ekta framherjamark myndu spekingarnir kannski segja. 2-0 og fyllilega verðskuldað.

Skömmu síðar þurftu gestirnir að skipta um markvörð og ég hef það fyrir satt að sá sem fór út af og hinn sem kom inná væru báðir þeir sem sagt var að þeir væru á leikskýrslunni og verður það að teljast nýmæli í þeim herbúðum. En markverðinum meidda eru sendar góðar batakveðjur, agalegt að lenda í þessu korteri fyrir mót.

Áfram hélt leikurinn og dómarinn hóf nú að raðspjalda Blikana. Fyrst Anton Loga og svo Ágúst fyrir næsta lítið. Var þetta sennilega gert að beiðni annars tveggja, eða beggja, fyrrverandi A - landsliðsmanna í liðsstjórn gestanna sem æddu út úr búrinu í hvert sinn þeim líkaði ekki, og það var alloft, og heimtuðu spjöldin á loft. Góður maður hafði á orði að þeir væru hvor um sig verri að þessu leytinu en núverandi helbrigðisráðherra sem þó kallaði ekki allt ömmu sína í þessum efnum hér í den. En þetta ku vera bannað skv. knattspyrnulögunum og þessir herramenn eiga ekki að fá neina sér meðferð. Áður en yfir lauk í fyrri hálfleik fékk svo Arnór Sveinn að líta gula spjaldið og kannski ekki mikið hægt að kvarta undan því.

Staðan 2-0 i leikhléi og verður að segjast að það var síst gegn gangi leiksins. Fólk bara nokkuð hresst með spilamennskuna. Hálfleikskaffið var án snúða. Greinilega að ekki er búið að ýta vallarsjoppunni í gang að fullu. Það kemur. En greinilega nægt framboð af bjór í dymbilviku. Það ku vera til að auka stemmninguna. Á henni bar hinsvegar lítið í kvöld, enda Hilmar illa fjarri.

Reyndar var norskur ung-karlakór frá Þrándheimi á vellinum og sló heldur betur í gegn á leiknum. Þeir studdu auðvitað okkur Blika til sigurs:) 

image

Síðari hálfleikur var tíðindalítill framan af og Blikar héldu vel sjó og næsta tíðindalítið lengi vel. Víkingar gerðu fjórfalda skiptingu og skömmu síðar kom Ágúst Orri Þorsteinsson inn fyrir Alexander Helga. Og svo fengu gestirnir vítaspyrnu upp úr þurru. Hár bolti sendur inn í teig þar sem leikmaður Víkings stekkur upp og Anton Ari sömuleiðis. Dómarinn mat það svo að Anton hafi farið með hönd í höfuð Víkingsins og dæmdi víti. Úr vítinu skoruðu gestirnir og minnkuðu þar með muninn.

Nú hljóp smá spenna í leikinn og kapp í kinnar okkar manna sem tóku hressilega við sér og það bar árangur þegar okkar menn fengu réttilega dæmda vítaspyrnu eftir snarpa sókn. Varnarmaður Víkinga hrinti all hressilega í bak Patriks í teignum eftir mikið kapphlaup og dómarinn blés samstundis í flautuna. Úr vítinu skoraði Höskuldur af miklu öryggi. Staðan 3-1 og enn 10 mínútur til leiksloka.

Blikar settu nú Oliver og Stefán Inga inná fyrir Patrik og Anton Inga og áfram hélt fjörið en nú með eilítið meiri hörku þegar gestirnir freistuðu þess að minnka muninn á ný. Blikar gáfu ekkert eftir og létu hart mæta hörðu. Varð af því all mikill brestur og svo stympingar þegar brotið var nokkuð fólskulega á Höskuldi. Þar fékk Viktor Karl spjald ásamt einum Víkingi. Eyþór Aron kom inn fyrir Ágúst Hlyn. Rétt fyrir leikslok fengu Blikar aukaspyrnu eftir að Stefán var sparkaður niður við vítateig og spyrnan rataði á koll Arnórs sem setti hann yfir úr góðu færi. Þar munaði litlu. En það voru svo gestirnir sem áttu lokaorðið þegar þeir skoruðu sitt annað mark þegar komið var fram í uppbótartíma.

En fleiri urðu mörkin ekki og Blikar því Meistarar meistaranna 2023.

,,Nú tekur hýrna um hólma og sker, hreiðra sig Blikinn og æðurinn fer“ bætti Jón við um vorkomuna og á mánudaginn mæta svo okkar menn nýliðum HK í 1. umferð Bestu deildarinnar. Það verður allt öðruvísi leikur. En með sama vinnuframlagi og samskonar liðsheild er ég ekki í vafa um að við munum uppskera úr þeim leik. En það dugar ekkert minna en þetta sem við sáum í kvöld. Bananahýðin eru víða – rétt eins og páskaeggin þessa dagana.

Áfram Breiðablik !
OWK

Myndaveisla í boði BlikarTV

image

Til baka