BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Við erum ekki í nógu stórum fötum“

09.09.2023 image

Kópavogshreppur varð til árið 1948 eftir að hafa klofnað frá Seltjarnarneshreppi, en bærinn fékk kaupstaðaréttindi árið 1955.  Þegar Breiðablik var stofnað árið 1950 voru íbúar í hreppnum 1.600 talsins. Síðan hefur fólksfjölgun í Kópavogi verið gríðarlega hröð. Í dag eru íbúar yfir 40.000 talsins, eða meira en 10% af íbúafjölda íslensku þjóðarinnar. Þetta er ævintýralegur vöxtur. 

Umfangið í starfsemi Breiðabliks hefur vaxið samhliða stækkun bæjarins og í dag er félagið hið stærsta á landinu með 3.900 iðkendur í 12 deildum. 

image

Knattspyrna hefur lengi verið langstærsta deildin innan félagsins en þar eru nú skráðir 1.730 iðkendur 19 ára og yngri sem gerir deildina að langstærsta knattspyrnufélagi landsins og innan KSÍ. Iðkendur í meistaraflokkunum eru ekki inni í þeirri tölu. En Breiðablik er ekki venjulegt íþróttafélag heldur gegnir það veigamiklu samfélagshlutverki í Kópavogi. Öflugt starf er fyrir íþróttir eldri borgara, íþróttaskóli barna 2-5 ára hefur starfað í áratugi og þúsundir barna farið þar í gegn. Margir hlaupahópar eru á vegum félagsins og mætti áfram telja. 

Ég er á því að Breiðablik hefur átt stóran þátt í að móta þá ásýnd Kópavogsbæjar að hér sé vænlegt að ala upp börn og eiga heimili. Félagssvæði Breiðabliks  í Kópavogsdalnum í miðju höfuðborgarsvæðisins  blasir við tugþúsundum á hverjum degi, grænt og umhverfisvænt.  

Fjögur tímabil meistaraflokka á þroskaferlinum

Þegar saga knattspyrnunnar hjá Breiðablik er skoðuð er hægt að skipta henni gróflega upp í 4 tímabil.  

1950 – 1971. Þarna var tími frumherjanna – liðið lék í neðri deildum og sleit barnsskónum. Formleg iðkun knattspyrnu innan raða félagsins hófst ekki fyrr en 1957. Aðstaðan var ekki upp á marga fiska - en smám saman óx félagið og stækkaði. 

image

Á myndinni eru 12 leikjahæstu leikmenn meistaraflokks karla frá upphafi. Alls 1725 mótsleikir sem 461 leikmenn hafa spilað frá fyrsta mótsleiki Breiðabliks árið 1957. Smella á mynd til að sjá leikjayfirlit leikmanna.

1971 – 2005. Árið 1971 komst Breiðablik í fyrsta sinn upp í efstu deild í knattspyrnu á Íslandi.  Liðið náði ekki alveg að festa sig í sessi þar, en yngri flokkar félagsins vöktu athygli á landsvísu fyrir gott og öflugt barna- og unglingastarf. Sá þráður hefur aldrei slitnað. Fyrsti knattspyrnuleikur kvenna á Íslandi fór líka fram á Vallargerðisvelli árið 1971 og síðan hefur Breiðablik verið leiðandi í knattspyrnu kvenna á landinu.  Símamótið sem haldið er árlega með 3.000 þátttakendum – stærsta knattspyrnumót landsins – er góður vitnisburður um það.  Aðstaðan batnaði mikið og félagið fluttist í Smárann – sem er svæði með mikla möguleika. 

image

Á myndinni eru 12 leikjahæstu leikmenn meistaraflokks kvenna frá upphafi. Alls 1111 mótsleikir sem 326 leikmenn hafa spilað frá fyrsta mótsleiki árið 1972. Smella á mynd til að sjá leikjayfirlit leikmanna.

2005 - 2023  Árið 2005 komst Breiðablik upp í efstu deild karla eftir 3 ár í þeirri næstefstu. Síðan hefur meistaraflokkur karla ekki litið um öxl og verið óslitið í hópi bestu knattspyrnuliða landsins í efri hluta deildarinnar. Liðið varð Íslandsmeistari 2010 í fyrsta sinn og aftur 2022, og hefur tekið reglulega þátt í Evrópukeppni.  Alls hefur liðið leikið 36 leiki í Evrópukeppni frá árinu 2010 og árangurinn er mjög athyglisverður.  Síðast en ekki síst náði  kvennalið Breiðabliks þeim frábæra árangri, fyrst íslenskra liða, að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2021.

Í dag er Breiðablik að byrjað að skrifa nýjan kafla í 73 ára sögu sinni.  Aldrei fyrr hefur íslenskt karlalið komist í riðlakeppni á vegum UEFA og við taka áskoranir sem ekki hafa sést í knattspyrnu á Íslandi.

Eigum við erindi í riðlakeppni UEFA?

Nýtt viðmið um árangur íslenskra félagsliða hefur litið dagsins ljós hjá Breiðabliki og félagið er í fararbroddi þegar kemur að árangri íslenskra liða á alþjóðlegum vettvangi. Myndin hér að neðan sýnir þetta glögglega. Breiðablik er fánaberi íslenskra liða og hefur tryggt Íslandi sess í Evrópukeppni umfram önnur félög.  Nær helmingur af þeim árangursstigum sem mæla gæði þjóða á knattspyrnusviðinu á Íslandi kemur frá Breiðablik undanfarin 5 ár skv. meðfylgjandi tölum (frá UEFA). 

image

image

Frá 23. júní – 31. ágúst 2023 lék Breiðablik 10 leiki í Evrópukeppnunum þremur sem UEFA stendur fyrir.

Undankeppni – Meistaradeild

1.umferð - Breiðablik mætti írsku meisturunum Shamrock Rovers í 1. umferð undankeppninnar og gerði sér lítið fyrir og slógu þá írsku út með 0:1 sigri í Dublin og 2:1 sigri á Kópavogsvelli. 2. umferð - Blikar mættu dönsku meisturunum FC Copenhagen í 2. umfeð. FCK vann báða leikina: 0:2 á Kópavogsvelli og 6:3 á Paken í Kaupmannahöfn.

Undankeppni - Evrópudeild

3. umferð – Blikaliðið tók þátt í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og mætti þar Zrinjski frá Mostar í Bosníu-Hersegóvínu. Fyrri leikurinn í Mostar lauk með stórsigri heimamanna 6:2. Nánar um leikinn hér: "Þeir gættu brúarinnar". Seinni leikurinn var á Kópavogsvelli og lauk með 1:0 sigri okkar manna. Nánar um leikinn hér: Mikilvægt skref í átt að Evrópu! 

Sambandsdeild (play-offs). 

Umspil - Breiðabliksliðið mætti FC Struga frá N.Makedóníu í 2 upspilsleikjum um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA 2023/24. Fyrri leikuinn fór fram úti og lauk með sigri okkar manna 0:1. Nánar um leikinn: Magnað í Norður-Makedóníu!  Blikar unnu einnig eins marks sigur í síðari leikinn sem fór fram á Kópavogsvelli 31. ágúst 2023. Nánar um leikinn: Bimm bamm bimm bamm bimbirimbi bimm bamm! 

Árangurinn er eftirfarandi: 10 leikir – 7 sigrar og 3 töp gegn 6 liðum sem öll voru landsmeistarar í sínum heimalöndum. Árangur Breiðabliks er í raun ævintýralega góður miðað við þá staðreynd að leikmenn Breiðabliks eru áhugamenn í grunninn, ólíkt því sem raunin er hjá flestum andstæðingum okkar.

Ísland tryggði sér þátttökurétt í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar með fræknum 1-0 sigri á Kópavogsvelli gegn FC Struga þann 31. ágúst.  Það var ólýsanlegt andrúmsloft og fölskvalaus á troðfullum leikvanginum. Það hefur líka verið afar ánægjulegt hvernig keppinautar okkar hafa samfagnað þessum árangri enda gera flestir sér grein fyrir að þetta er sigur íslenskrar knattspyrnu, ekki eingöngu okkar félags. Nánar hér um leikinn gegn Struga.

Dregið var í 8 riðla Sambandsdeildarinnar í Mónakó þann 1. september. Breiðablik er í B-riðli.

image

Þátttaka í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA

Þegar þessi raunveruleiki blasir við þá vakna ýmsar spurningar um ástand Kópavogsvallar.  Uppfyllir hann þau skilyrði sem knattspyrnusamband Evrópu setur þegar komið er þetta langt í keppni á þeirra vegum?  Því miður er ekki svo.   Það er einu sinni þannig að UEFA setur ákveðin skilyrði til að hægt sé að leika heimaleiki í riðlakeppni sambandsins sem Svo virðist vera að langflestar  þjóðir sem mynda UEFA uppfylla þessi skilyrði.  Þetta er staðreynd sem er með ólíkindum.

Breiðablik fékk undanþágu frá UEFA til að leika heimaleiki sína gegn Zrinskij Mostar og FC Struga á Kópavogsvelli enda völlurinn ekki gjaldgengur í keppni á vegum UEFA þegar þetta langt er komið í keppni á vegum sambandsins.   Hvar mun Breiðablik leika heimaleiki sína í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu? Laugardalsvöllur er á undanþágu frá UEFA til að leika landsleiki og hefur Knattspyrnudeild Breiðabliks tilkynnt að þar muni heimaleikir félagsins fara fram. 

Dagsetningar heimaleikjanna er eftirfarandi:

5  október  -               Breiðablik – Zorya Luhansk (Úkraína)

9  nóvember -            Breiðablik – Gent (Belgía)

30 nóvember -           Breiðablik – Maccabi Tel Aviv (Ísrael)

image

Ef nauðsyn krefur að hita völlinn upp með tilheyrandi búnaði mun það kosta marga tugi milljóna fyrir hvern leik. Ekki er ljóst hver þurfi að bera þann kostnað.  Þetta er fyrir utan hefðbundna vallarleigu líkt og var í Evrópuleik gegn Aberdeen í fyrra sem fram fór á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur var ekki gjaldgengur.  Stóra málið er hinsvegar auðvitað það að miklu meiri líkur eru á góðum árangri þegar þú leikur á þínum eigin heimavelli fyrir framan þína dyggustu stuðningsmenn.  Það er einmitt það sem Óskar þjálfari og leikmennirnir hafa bent á.  Þá er rétt að taka fram að Laugardalsvöllur er líka á undanþágu frá UEFA fyrir alþjóðlegt keppnishald og spurning hvað hún heldur lengi.  Þá hefur alþjóðlegur knattspyrnuleikur aldrei farið fram 30 nóvember á Laugardalsvelli, íslensk veðrátta er einfaldlega þannig.  

Alþjóðlega viðurkenndur knattspyrnuleikvangur í Kópavogsdal

Augljóst er að Ísland er ekki samkeppnisfært þegar kemur að knattspyrnuleikvöngum sem standast staðla í keppni á vegum UEFA.  Samt sem áður gera Íslendingar kröfur um við stöndumst þjóðum snúning og náum langtum lengra en raunhæft er miðað við ástand knattspyrnuleikvanga.  Það er áleitin spurning hvenær þolinmæði UEFA þrýtur og Laugardalsvöllur fær ekki lengur undanþáguna sem við höfum lifað á. Staðan er því grafalvarleg.

image

Félagssvæði Breiðabliks í Kópavogsdal

Það er til lausn

Frændur okkar í Færeyjum hafa byggt alþjóðlegan knattspyrnuleikvang sem fékk viðurkenningu UEFA árið  2011   – Tórsvöllur í Þórshöfn í Færeyjum.  Þar eru sæti fyrir 5.100 áhorfendur og landslið Færeyja leikur þar heimaleiki sína.  Þar mun KÍ Klaksvík leika sína heimaleiki í Sambandsdeildinni í vetur.  Klaksvík er fyrsta færeyska liðið sem nær þessum árangri og samgleðjumst við frændum okkar frá þessum 5.100 manna vinabæ Kópavogs innilega.   Íslenskir sérfræðingar sem hafa mikla þekkingu á þessum málum hafa skoðað Tórsvöll – og telja að þar megi á margan hátt leita fyrirmyndar fyrir nýjan Kópavogsvöll.  Færeyingar eru 52.000 talsins – en Íslendingar tæp 400.000. Íbúar Þórshafnar eru 18.000 en í Kópavogi búa 40.000 manns eins og áður segir.

Það er sorglegt að horfa upp á störukeppni milli ríkis og borgar þegar deilt er um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem standast alþjóðlegar kröfur.   Ljóst er að sú keppni mun halda áfram ef ganga skal út frá því að skattborgarar einir skuli standa að uppbyggingu íþróttamannvirkja.   Bent hefur verið á að lífeyrissjóðir landsins, þróunarfélög á sviði fasteigna  auk fjárfesta – bæði innlendir og erlendir – hafi sýnt áhuga á að koma að uppbyggingu alþjóðlegs knattspyrnuleikvangs í Kópavogsdal

Þann 22. júní 2023 sendi formaður Breiðabliks erindi til bæjarráðs Kópavogs með formlegri beiðni um að setja af stað heildarendurskoðun á íþróttasvæði Breiðabliks í Kópavogsdal.  Á fundi bæjarráðs þann 31. ágúst 2023 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs eftirfarandi bókun „Bæjarstjóra er falið að koma með tillögu að stofnun starfshóps á næsta fundi bæjarráðs, sem hefði það hlutverk að vinna heildarsýn fyrir Kópavogsdal. Jafnframt verði lögð fram drög að erindisbréfi fyrir starfshópinn þar sem nánar yrði skilgreint hlutverk og skipan hans

Bæjarráð hefur skipað 7 manna starfshóp um að skila tillögum um nýtt skipulag í Kópavogsdal.  Það er gott til þess að vita að hópurinn á að vinna hratt því tillögum á að skila í janúar næstkomandi.  Það er næsta víst að þar verður fjallað um framtíðaraðstöðu Breiðabliks og vallaraðstæður í þeirri vinnu.  Mikilvægt er að það sé unnið í samvinnu og samráði við bæjarbúa.  Breiðablik bindur miklar vonir við störf hópsins.

Þarna gæti verið komið fyrsta skrefið í að láta þennan draum okkar Breiðabliksmanna um leikvang sem gæti verið stolt okkar allra verða að veruleika. Það er afar brýnt að fylgja þessari samþykkt eftir þannig að skipulagsmál í Kópavogsdal komist í farsælan farveg.  Auðvitað eiga Breiðablik og Kópavogur að vera í fararbroddi í þessum efnum. 

image

Fáum okkur föt sem passa!

Það er í raun magnað magnað hvernig Breiðablik hefur hefur tekist að halda þeirri stefnu að gera hvort tveggja í senn – hlúa að grasrótarstarfi með áherslu á barna- og unglinga starf, en móta jafnframt afreksstefnu sem nú er að skila áþreifanlegum árangri. Stefnumótun hefur verið minn starfi undanfarna áratugi og ég hef séð ýmislegt á því ferðalagi. Árið 2014 kom ég að stefnumótunarvinnu á vegum knattspyrnudeildar og var sú vinna afar gefandi og árangursrík. Félagið mótaði stefnu og framtíðarsýn bæði til skemmri og lengri tíma.  Mörg verkefni komu úr þeirri vinnu.  Í samantekt vinnunnar kom fram að „Breiðablik er ekki í nógu stórum fötum“   Ef sá árangur næðist sem að væri stefnt og miklir möguleikar væri á, þá væru núverandi aðstæður ekki til þess fallnar að uppfylla þær kröfur sem starfsemin gerði. 

Núna, næstum áratug síðar hafa aðstæður því miður lítið breyst þrátt fyrir að sá raunveruleiki sem nú blasir við er eitthvað sem menn sáu að gæti verið í kortunum.  Við erum enn í of litlum fötum.  Breiðablik er eins og fermingardrengur sem vaxinn er upp úr fötunum og lítur í spegil.  Hann er ekki nógu ánægður með sjálfan sig, en hann hefur alla burði til að vaxa og dafna og njóta sín í passlegum fötum og skapandi umhverfi.

Það er löngu kominn tími til að hugsa skipulag Kópavogsdals upp á nýtt.  Breiðablik hefur sýnt með sinni starfsemi í 73 ár að það hefur alla burði til að leiða þá vinnu sem  nauðsynlegt er að fara í. Breiðablik á að vera áfram leiðandi í þróun íslenskrar knattspyrnu.  Við höfum alla burði til þess.  Byrjunin á þeirri leið er að hefja þá vinnu sem stjórn félagsins hefur lagt fram og er til meðferðar í stjórnsýslu Kópavogsbæjar. 

Hákon Gunnarsson

image

Breiðablikshópurinn fagnar eftir að hafa tryggt sæti í riðlalakeppni Sambandsdeildar Evrópu 2023/24.

Til baka