BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tryllt og tragísk titilvörn

11.04.2023 image

Þá er hún hafin, okkar eigin íslenska Besta deild. Engin deild er eins í heiminum og ég held að engin deild sé jafn heitt elskuð af jafn fáu fólki og Besta deildin. Ég er einn af þeim, og þú lesandi góður, finnur einnig eflaust fyrir þessari tilfinningu. Með því að styðja lið eins og Breiðablik og þar af leiðandi elska íslensku deildina, er maður kominn í ástarsamband sem maður heldur svo mikið með að því lýkur sennilega seint eða aldrei. Meðan hinir og þessir dýrka ensku deildina rétt á meðan Liverpool og Arsenal gengur vel en fara svo í felur þegar illa gengur, þá erum við elskendur íslenska boltans klár í að mæta í 8 gráðunum með slagviðrisrokið í andlitið upp á Skaga eða þá í rjómablíðu upp í Árbæ. Mér finnst eins og okkur fari fækkandi sem elskum þessa deild svona heitt, þó engar vísindalegar gallup kannanir liggi þar á baki. Því þarf að hlúa að, styrkja og elska okkar eigin deild, því ef við gerum það ekki og snúum okkur til annarra deilda erlendis hver mun þá elska okkar eigin deild? Þó það sé gaman að fara á leik í enska boltanum og sproðrenna bjór og alltof heitri kjötböku undir stúkunni í hálfleik eða kaupa sex bjóra í svokallaðri herramannatösku í Þýskalandi, þá jafnast ekkert á við það að fá sér hið stórfurðulega combo popp og kaffi í íslenskri stúku íklæddur úlpu í júlí.

Liðsskipan okkar manna í leiknum:

image

Því var ég að sjálfsögðu mættur á öðrum degi páska á besta heimavöll landsins til að berja titilvörnina augum. Enginn smá leikur, HK kom í heimsókn, þessir leikir hafa alltaf getað brugðið til beggja vona enda Kópavogsslagur. Brugðið til beggja vona er frasi sem lýsir eiginlega bara gangi þessa leiks. Við byrjuðum með sama byrjunarlið og barði Víkinga niður í Meistari meistaranna.

Byrjunin á þessum leik var satt að segjast mjög slæm. Við fáum tvö ódýr mörk á okkur á fyrstu sjö mínútum leiksins sem skrifast á einstaklingsmistök. Það var augljóslega stress í okkar mönnum þessar fyrstu mínútur. Þó ógnuðum við á næstu mínútum eftir með skalla í stöng frá Gísla og dauðafæri sem Patrik Johanesen klúðraði. Svo kom doðinn, við stjórnuðum leiknum það sem eftir var en ákefðin var lítil og uppspilið alltof alltof hægt. Menn klöppuðu boltanum of mikið og voru ragir við að taka sendingar þvert upp völlinn sem myndi brjóta blokkir HK-manna upp.

Ég hélt að martröðinni væri lokið á 73 mínútu þegar Viktor Karl hnoðaðist einhvernveginn upp að endalínu og gaf fyrir á Gísla Eyjólfsson sem skallaði í netið. 1-2. Við fórum upp, vinnum aukaspyrnu, Oliver Sigurjónsson, sem kom með alvöru anda þegar honum var skipt inn á, gaf á Stefán Inga sem fer í einn, tvo við Andra Yeoman og klárar færið snyrtilega. Stefán kom inn á sama tíma og Oliver, flott innkoma sem breytti leiknum. Í stöðunni 2-2 var maður eiginlega orðinn viss um að við myndum komast yfir og sigla leiknum heim. Jú, Stefán Ingi sótti víti á 77 mínútu sem Höskuldur skoraði svo úr 3-2. Þrjú mörk á einhverjum 4-5 mínútum, þarna þekkti maður Blikana sína. Við í draumalandi.

Adam var þó helst til stutt í paradís þessa páskahátíðina. Því við tóku 10 frekar þungar mínútur þar sem manni leist ekki á blikuna, við bökkuðum óvenjulega langt niður og náðum ekkert að halda í boltann sem er óvanalegt fyrir okkar lið. Það varð einhvernveginn of langt milli varnar og miðju og svo miðju og sóknar. HK-ingar settu tröllvaxna Hvergerðinginn Atla Þór Jónasson inn á sem var að valda alls kyns usla. HK-ingar jafna svo eftir darraðadans í teignum eftir hornspyrnu og fór af Höskuldi og inn. Ótrúlega pirrandi. Martröðin varð svo enn verri þegar að Atli Hvergerðingur skoraði fjórða mark HK-inga, eftir að Eyþór Wöhler var alltof lengi að athafna sig, var étinn og upp fór Atli sem skaut á 35 metrunum beint á Anton sem einhvernveginn missti boltann undir sig og inn. Anton þarf að koma sér í sama form og á síðasta tímabili, hann var alltof óstabíll í þessum leik og óöruggur í atferli sínu í rammanum.

Titilvörnin hófst á jarðtengingu, kannski er það bara ágætt. Við höfum verið hafðir upp til skýjanna seinustu daga í fjölmiðlum og því er líklega bara gott að fá þetta högg í andlitið sem fyrst svo við getum tekið okkur saman í andlitinu og komist á gott skrið. Það eru 26 leikir eftir, og við sýndum ótrúlega takta á 70-80 mínútu sem vel hægt er að byggja ofan á. Það hefst með því að svara fyrir þetta tap gegn Valsmönnum í næsta leik. Upp með hendurnar allir Blikar innan sem utan vallar, höldum áfram með þéttum stuðningi við liðið og ég er nokkuð viss um að frammistöður inn á völlinum verði upp á við héðan í frá.

Freyr Snorrason

Myndaveisla í boði Blikar TV

image

image

Til baka