BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svart og hvítt

17.09.2022 image

Lokaumferðin í Bestu deildinni fyrir úrslitakeppni rúllaði af stað í blíðaskaparveðri á Kópavogsvelli. Allir leikirnir í þessari síðustu umferð voru spilaðir á sama tíma út frá eldri reglum, Eyjamenn voru mættir í heimsókn. Peyjarnir voru búnir að vera að spila góðan bolta í síðustu leikjum með sigri á móti Stjörnunni og jafnteflum á móti Víkingum og Fram. Blikar þurftu hinsvegar nauðsynlega að ná í sigur eftir tap norðan heiða á móti KA í síðasta leik.

Byrjunarliðið var sem hér segir:

image

Fyrir leik voru þeir Elfar Freyr og Damir Muminovic verðlaunaðir fyrir 300 leiki fyrir Breiðablik.

image

Það voru sannkölluð gæfuspor fyrir okkkur Blika þegar varnarmaðurinn Damir Muminovic gekk til liðs við okkur á haustmánuðum 2013. Hann varð strax einn af lykilmönnum liðsins og hefur spilað nánast alla leiki frá þessum tíma.  Damir hefur ekki eingöngu verið sterkur varnarmaður heldu er er hann líka sókndjarfur og er alltaf hættulegur í föstum leikatriðum. Þar að auki er firnagóður spyrnumaður og hefur verið mikilvægur hlekkur í uppspili Blikaliðsins. Það kom því ekki á óvart að Damir var í fyrra valinn í A-landslið Íslands og hefur spilað tvo leiki með landsliðinu.

Elfar Freyr Helgason er einn mesti stríðsmaður sem hefur klæðst grænu treyjunni. Hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2008 og nú 14 árum síðar eru leikirnir orðnir 300. Elfar Freyr varð eftirminnilega Bikarmeistari með Blikaliðinu árið 2009 og Íslandsmeistari árið 2010. Hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku í Grikklandi, Noregi og Danmörku en kom svo aftur heim í Kópavoginn. Hann myndaði feiknarlega öfluga varnarmiðju með Damir félaga sínum þannig að eftir þvi var tekið. Elfar Freyr á að baki 1 A landsleik og 6 leiki um U-21 árs landsliðinu. Elfar Freyr hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin tvö tímabil en hefur með mikilli elju og ræktarsemi komið sér í stand á nýjan leik.

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur þó að ekki mikil hætta hafi skapast, Blikar reyndu að keyra upp hraðann og sækja á þá en höfðu ekki erindi sem erfiði. Fyrstu 25 mínúturnar voru rólegar og ákveðin ró yfir leiknum en Eyjamenn virtust ákveðnari og voru fyrr í boltann. Blikar náðu ekki nægilegu flæði og það þurfti að stilla taktinn til að koma mörkum inn.

Eftir 30 mínútur kom loks alvöru færi þegar að Blikar náðu að spila sig í gegn, föst sending út á hægri kantinn þar sem Höskuldur fékk boltann og kom með frábæra sendingu inn í teiga þar sem að Gísli fékk boltann fyrir opnu marki en á óskiljalegan hátt fór boltinn yfir markið. Besta færi leiksins þegar þetta gerðist.

image

Myndaveisla í boði Helga Viðars hjá BlikarTV

Fljótlega eftir þetta náðu Blikar aftur að gera sig líklega til að setja mark þegar að Kristinn Steindórs fékk boltann við vítateigslínuna en skaut fram hjá markinu. Rétt á eftir þetta vann Gísli boltann á vinstri kantinum og sendi á Höskuld sem átti skot hátt fram hjá markinu.

Markamínútan rann upp og Gísli vann aftur boltann á miðjunni, boltinn barst út á Jason sem tók stefnuna inn á markið. Snyrtileg sending frá Kristni Steindórs kom honum inn fyrir vörnina hjá ÍBV og Jason skyndilega einn á móti marki. Var samt með boltann á vinstri löppinni og náði ekki góðu skoti markið. Stuttu seinna var barningur á miðjunni og Gísli togaði leikmann ÍBV niður og uppskar að launum gult spjald.

Þegar klukkan sló í 45 mínútur fengu Blikar hornspyrnu og litlu munaði að ÍBV skoraði sjálfsmark en boltinn flaug rétt fram hjá stönginni. Blikar fengu aðra hornspyrnu en náðu ekki að nýta hana og Ívar Orri dómari leiksins flautaði til hálfleiks og staðan 0-0.

Seinni hálfleikur og það var greinilegt að Blikar fengu góða ræðu, kaffi og hvað þarf til að rífa menn í gang. Seinni hálfleikur var ekki nema 4 mínútna gamall þegar að Gísli fékk boltann fyrir utan teig, tók laumusendingu á Andra Rafn Yeoman sem var að spila leik númer 399 fyrir Breiðablik, hann lagði boltann út í teiginn á Jason Daða sem setti boltann af öryggi í netið. Staðan orðin 1-0 fyrir þá grænu.

Á 52 mínútu fór títt nefndur Andri í boltann og fékk eyjamann á sig með þeim afleiðingum að báðir lágu óvígir eftir. Það fór um mannskapinn enda Andri verið ómetanlegur fyrir Blika. Blikar fengu dauðafæri upp úr þessari baráttu Andra en Ívar Orri dæmdi aukaspyrnu rétt fyrir utan teig.

Úr aukaspyrnunni skaut Dagur Dan að marki, fínasta tilraun sem að stefndi upp í nær hornið en markmaður eyjamanna varði vel. Blikar fengu hornspyrnu en náðu ekki að nýta sér það. Stuttu síður var brotið á Gísla fyrir utan teig, Kristinn tók spyrnuna inn í teig og Damir skallaði rétt fram hjá.

2 mínútum seinna komumst Blikar 3 á móti 2 varnarmönnum ÍBV en skot Jasons fór í varnarmann og aftur fyrir. Blikar voru nú komnir á flug og flott spil í gangi hjá þeim grænu. Blikar komu sér nokkru sinnum í mjög álitlegar stöður en náðu ekki að koma boltanum inn fyrir markið.

Nú var stemmning og stuð á Kópavogsvelli, Blikar héldu tempói og takti og loksins kannaðist maður við liðið sitt, fyrri hálfleikur og seinni hálfleikur svart og hvítt.

Dagur Dan fékk boltann á vinstri kantinum og keyrði beint á vörnin, tók létta gabbhreyfingu og setti boltann listavel með innanverðum fætinum alveg út við stöng. Stórkostlegt mark og staðan orðin 2-0 fyrir Blika.

2 mínútum síðar fékk Dagur Dan boltann og brunaði að marki, sendi fallega sendingu inn fyrir vörnina hjá ÍBV þar sem Jason Daði tók á móti boltanum og fór fram hjá Guðjóni Orra í markinu og setti boltann í autt markið. Nú léttist brúnin, 3-0 og það var sanngjarnt!

Á 70 mínútu keyrðu Blikar hratt upp völlinn en Kristinn Steindórsson fékk eitthvað tak í aðra löppina og fór niður. Því þurfti Breiðablik að gera sína fyrstu skiptingu þegar að Sölvi Snær kom inn fyrir Kristinn.

Blikar sigldu þessu örugglega heim svolítið eins og Herjólfur þegar hann mallar rólega inn í Landeyjahöfn. Þessi sigur þýðir að Breiðablik jók forystu sína á toppnum um 2 stig þar sem önnur lið náðu ekki að sigra sína leiki. Þetta var góður dagur. Fram undan eru 5 úrslitaleikir í október og forystan er 8 stig!  

KIG

Besta deildin: Breiðablik 3-0 ÍBV:

Glæsileg árangurstafla Breiðabliks undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar eftir 22 leiki 2022 og samanlagt fyrir þrjú síðustu ár. Liðið skorar 55 mörk í 22 leikjum í deildinni annað árið í röð en bætir stigametið frá í fyrra um 4 stig - endar með 51 stig og er með 8 stiga forskot á næstu lið eftir 22 leiki. 

image image

image

Smella á mynd til að sjá hápunkta leiksins á Youtube

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka