BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sé ekki eftir neinu á mínum knattspyrnuferli“ segir Grétar Kristjánsson

05.05.2023 image

Rafvirkjameistarinn Grétar Kristjánsson er goðsögn í lifanda lífi hjá okkur Breiðabliksmönnum. Ekki er nóg að hann hafi verið einn af snjöllustu leikmönnum félagsins á upphafsárum þess heldur sá hann til þess, ásamt Hildi Jóhannsdóttur konunni sinni, að koma út á knattspyrnuvöllinn þremur úrvalsleikmönnum í meistaraflokki. Þetta eru auðvitað bræðurnir Jóhann (1961), Sigurður Örn (1962) og Arnar (1972) Grétarssynir en þeir feðgar eiga samanlagt að baki hvorki fleiri né færri en 750 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og skoruðu í þeim 194 mörk. Þess má einnig geta að Sigurður var fyrsti atvinnumaður Breiðabliks í knattspyrnu og Arnar er einn leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Þar að auki eiga Grétar og Hildur dótturina Hildi sem var landsliðskona í blaki til margra ára og sat í stjórn knattspyrnudeildar og í aðalstjórn í mörg ár. Svo má ekki gleyma því að Gísli Sigurðsson, hálfbróðir Grétars, lék 129 leiki með meistaraflokki á árunum 1970-1981 og skoraði 18 mörk. Við Blikar eigum því þessari fjölskyldu margt að þakka!

image

Samtals 750 leikir og 194 mörk fyrir Breiðablik. Arnar Grétarsson, Grétar Kristjánsson, Sigurður Grétarsson og Jóhann Grétarsson.

Fyrir utan allt það sem Grétar hefur lagt til félagsins þá er hann líka einn af fáum sem eftir er á lífi af þeim sem lék með Blikaliðinu á fyrsta Íslandsmótinu árið 1957. Þess vegna finnst forráðamönnum blikar.is tilhlýðilegt að fá Grétar í viðtal um þessi fyrstu mótunarár félagsins. Í fyrstu var okkar maður tregur til og kvaðst lítið muna eftir þessum upphafsárum. En eftir töluverða umhugsun og góða aðstoð frá Hildunum tveimur í lífi hans féllst Grétar á að hitta okkur og ræða knattspyrnuferilinn. ,,Ég get ekki lofað að ég muni eftir neinu,“ sagði hann kíminn við forsvarsmenn blikar.is þegar þeir mættu heim til hans.

Grétar Kristjánsson hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag sitt til félagsins. Hann var sæmdur nafnbótinni ,,HeiðursBliki“ á 60 ára afmæli félagsins árið 2010 en það er æðsta viðurkenning sem félagið veitir. Árið 2013 veitti síðan knattspyrnudeild Breiðabliks Grétari, ásamt nokkrum öðrum, sérstaka viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til Breiðabliks á upphafsárum knattspyrnunnar í Kópavogi. Við sama tækifæri fékk Grétar viðurkenningarskjal fyrir að hafa leikið meira en 100 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks.

image

Laugardaginn 28. september 2013 stóð knattspyrnudeild Breiðabliks, Blikaklúbburinn og Stuðningsmannavefurinn Blikar.is fyrir uppákomu í Smáranum, þar sem leikmenn meistaraflokks sem byrjuðu og hættu að leika knattspyrnu með Breiðabliki á árunum 1957-1970, fengu viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til Breiðabliks á upphafsárum knattspyrnunnar í Kópavogi. Eftirtaldir einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til Breiðabliks á upphafsárum knattspyrnunnar í Kópavogi;  Baldur Sigurgeirsson, Dagbjartur Björnsson, Einar Magni Sigmundsson, Geir Magnússon, Grétar Kristjánsson, Guðmundur H. Jónsson, Guðmundur T. Magnússon, Guðmundur Vikar Einarsson, Gylfi Guðmundsson, Helgi Magnússon, Jakob Ólason, Jóhann H. Jónsson, Jóhannes Haraldsson, Jón Ingi Ragnarsson, Kristján Erlendsson, Logi Kristjánsson, Njáll Sigurjónsson, Ómar Guðmundsson, Ragnar Magnússon, Reynir Jónsson, Sigmundur Eiríksson, Sigurður Friðriksson, Sigurjón Hrólfsson, Sigvaldi Ragnarsson, Símon Ægir Gunnarsson, Sveinn V. Jónsson, Sveinn H. Skúlason, Sverrir Guðmundsson, Þorsteinn Karlsson, Þorsteinn Steingrímsson.

Ber árin vel

Það myndi víst fæsta gruna sem hitta Grétar að hann sé orðinn 85 ára gamall. Hann ber sig vel og lætur hávaðasama syni sína ekki kaffæra sig með neinu kjaftæði. Reyndar er sjónin aðeins farin að svíkja hann en toppstykkið er í fínu lagi. Eins og allir sem þekkja þessa fjölskyldu vita þá eru þau öll mikið keppnisfólk, nokkuð stjórnsöm en hafa samt gaman af því að fíflast í hvoru öðru. Þau eru hins vegar mjög samhent sem fjölskylda og bera virðingu fyrir skoðunum hvors annars. Það er því oft glatt á hjalla þegar þau hittast á fallegu heimili foreldranna í efri byggðum Kópavogs.  

image

KS - Breiðablik 1967. Grétar Kristjánsson hefur hér brugðið sér í hlutverk Loga Kristjánssonar markvarðar Blika. Ekki var það nú í sjálfum leiknum heldur þurftu leikmenn Blikaliðsins að halda sér heitum á meðan beið var eftir messulokum á Siglufirði. 

Grétar fæddist árið 1938 í Reykjavík en flutti 10 ára gamall í Melgerðið í vesturbæ Kópavogs. ,,Íþróttaaðstaðan var nú ekki beysin í bænum á þessum árum,“ segir Grétar. ,,Kársnesið var óttalegur melur en það var samt búið að ryðja svæði við  Vallargerðið og þar var hægt að sparka bolta og stunda einhverjar kastgreinar,“ bætir hann við. ,,En völlurinn var samt ekki sléttur, hann hallaði í áttina að Urðarbrautinni og á vorin var hann ein leðja. Við sættum okkur samt við þetta því við höfðum ekkert annað,“ sagði Grétar.

Vallargerðisvöllurinn var lagfærður og stækkaður árið 1956 en það var ekki fyrr en 1964 að sett var varanlegt undirlag á völlinn. ,,Þetta var gríðarleg framför enda gátum við loksins spilað heimaleikina okkar í næst efstu deild í Kópavoginum,,“ sagði Grétar. Þess má geta að fyrsti leikurinn á vellinum árið 1965 var gegn Ísafirði og vannst sá leikur 2:1. Það þarf vart að taka það að Grétar Kristjánsson skoraði bæði mörk Breiðabliks í þeim leik!. Breiðablik spilaði heimaleiki sína á Vallargerðisvellinum til ársins 1971 en þá vann liðið sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn. KSÍ samþykkti hins vegar ekki völlinn til keppni í efstu deild og þurfti þá Blikaliðið að fara með leiki sína aftur á Melavöllinn í Reykjavík.

image

Vallargerðisvöllur í upphafi

Ekki voru neinar skipulagðar æfingar fyrstu árin þegar Grétar var að alast upp í Kópavoginum.  en Grétar sagðist hins vegar hafa stundað frjálsar íþróttir og svo verið að leika sér í knattspyrnu allan daginn eins og strákar hafa í langan tíma gert. ,,Maður fór út á leika snemma á daginn og var í knattspyrnu eða öðrum leikjum frá morgni til kvölds. Þetta var áhyggjulaust líf eins og börn eiga að fá að upplifa,“ segir Grétar.

Telur sig ekki hafa verið undrabarn í knattspyrnu!

Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað árið 1950 þegar Grétar var 12 ára gamall. Knattspyrnudeildin sjálf var ekki stofnuð fyrr en árið 1957 en þá var félaginu skipt upp í fjórar deildir; knattspyrnu-, handknattleiks-, frjálsíþrótta- og skák og bridgedeild.  Ekki segist hann muna eftir stofnun félagsins þótt hann ætti síðar eftir að sitja í stjórn knattspyrnudeildar.  Fljótlega eftir að félagið var stofnað fór að verða meira líf í íþróttastarfsemi í bænum. Fyrsta formlega frjálsíþróttamótið var haldið á vellinum við Kópavogsbrautina haustið 1950. Þar fóru kastgreinarnar fram en hlaupin voru á túninu við Kópavogsbúið. Okkar maður segist líklegast hafa keppt í hlaupum á þessu móti þó að árangurinn hafi ekki verið eftirminnilegur. Hann segist þó muna eftir að hafa farið upp í Mosfellssveit að keppa á UMSK móti og það hafi verið heilmikið ferðalag.

image

Keppnisferð 1967: Frá vinstri: Halldór Halldórsson þjálfari, Guðmundur H. Jónsson, Guðmundur Þórðarson, Heiðar Breiðfjörð, Grétar Kristjánsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Þorsteinn Karlsson, Jakob Ólason, Daði Guðmundsson, Magni Jóhannsson, Þór Hreiðarsson, Júlíus Júlíusson, Jón Ingi Ragnarsson, Kristján Erlendsson, Sveinn V. Jónsson. Ungi maðurinn fyrir miðri mynd er Ásgeir Friðþjófsson.

Grétar spilaði sinn fyrsta knattspyrnuleik með meistaraflokki Breiðabliks árið 1952 þá aðeins 14 ára gamall. Ekki vill Grétar viðurkenna að hann hafi verið undrabarn í knattspyrnu þótt hann hafi spilað sinn fyrsta leik svona ungur. ,,Úrvalið af góðum knattspyrnumönnum var takmarkað þannig að það var pláss fyrir einn ungling í liðinu,“ sagði hann kíminn. Grétar segir að hann muni nokkuð vel eftir þessum leik því hann hafi farið fram á Tungubökkum í Mosfellsbænum sem hét þá Mosfellssveit. ,,Það var auðvitað mikið upphefð fyrir óharðnaðan ungling að spila leik með fullorðnum karlmönnum. Mig minnir að þetta hafi verið einhvers konar vígsluleikur á grasvellinum í bænum en ég hafði aldrei spilað á grasi áður. Þetta var því mjög gaman.“

image

Lið Breiðabliks og Aftureldingar eftir vígsluleik Varmárvallar við félagsheimilið Hlégarð í Mosfellssveit 14. júní 1959. Grétar Kristjánsson er þriðji frá vinstri við hliðina á Ármanni J. Lárussyni í aftrari röð.

Mjög flott tölfræði hjá Grétari

Þrátt fyrir hógværðina þá er ljóst að Grétar var mjög hæfileikaríkur framherji. Hann var eldsnöggur og mjög markheppinn. Einnig þótti hann sérstaklega lipur í hælspyrnunum og voru þær á margan hátt vörumerki hans allan hans knattspyrnuferil. Það er áhugavert að skoða tölfræði Grétars en hann lék 113 leiki með meistaraflokki Breiðabliks á árunum 1957-1968 og skoraði 50 mörk. Grétar skoraði til dæmis fyrsta sigurmark Breiðabliks í leik á Íslandsmóti. Það kom í 1:0 sigri gegn Reyni Sandgerði í B-riðli 2. deildar árið 1960. Sá leikur fór fram á Melavellinum sem var heimavöllur Breiðabliks enda var Vallargerðisvöllur ekki tekinn í notkun fyrr en 1964.

Í frétt í Þjóðviljanum 29.6.1960 segir meðal annars um leikinn: 

image

Breiðablik sendi reyndar lið á Íslandsmót í fyrsta sinn árið 1957. Árangurinn var nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Liðið spilaði fjóra leiki og markatalan var 3:23 andstæðingunum í vil. Grétar var þá 19 ára gamall og spilaði alla leikina. Ekki tókst honum að koma knettinum í markið það árið og segist hann helst vilja gleyma þessum leikjum. ,,Við töpuðum bæði frekar illa gegn Keflavík og gegn sameiginlegu liði Suðurnesja,“ segir Grétar og dæsir. ,,Samt þótti mér verst að tapa 0:1 gegn Þrótti.

07.06 18:00
1957
Breiðablik
Þróttur
0:1
5
5
B-deild | riðill
Melavöllur | #

Ástæðan var sú að náfrændur mínir bræðurnir Helgi og Haukur Þorvaldssynir spiluðu þá með Þrótti. Þeir létu mann svo sannarlega heyra það og það var ferlegt að tapa á móti þeim,“ bætti hann við og greinilegt að töpin gegn Þrótti sitja enn í gamla framherjanum!  Þess má geta að Blikaliðinu tókst ekki að leggja Þróttara að velli á Íslandsmóti fyrr en árið 1970 en þá hafði Grétar lagt skóna á hilluna. En í tengslum við þetta mál og það sýnir að Þróttaragrýlan risti ekki mjög djúpt hjá Blikum þá var Helgi Þorvaldsson ráðinn þjálfari í yngri flokkum Breiðabliks á níunda áratugnum og þjálfaði þá meðal annars frænda sinn Arnar Grétarsson!

Datt aldrei i hug að skipta um félag

Eftir hrakfarir ársins 1957 ákvað Breiðablik að sleikja sárin og tók félagið ekki þátt í Íslandsmótinu 1958 og 1959. Bæði var erfitt að ná í lið og aðstaðan svo léleg að menn treystu sér ekki til að halda úti reglulegum æfingum. En árið 1960 var ákveðið að blása til sóknar á nýjan leik og hefur Breiðablik sent lið til keppni á Íslandsmóti frá þeim tíma.  Á þessum tíma voru að koma upp yngri leikmenn eins og bræðurnir Daði og Guðmundur (Dúmmi) Jónssynir, Jón Ingi Ragnarsson og Reynir Jónsson. Þetta voru allt leikmenn sem áttu eftir að setja svip sinn á Blikaliðið næsta áratuginn. Árangurinn var aðeins betri árið 1960 og þegar hefur verið minnst á sigurinn gegn Reyni S 1:0. Þess má geta að Breiðablik skoraði fjögur mörk á Íslandsmótinu árið 1960 og gerði Grétar tvö þeirra.  ,,Það munaði miklu að fá þessa yngri stráka inn,“ segir Grétar. ,,Daði og Dúmmi voru grjótharðir varnarmenn og Jón Ingi var hörkuframherji. En mest munaði um Reyni Jónsson enda var hann gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður. Því miður ákvað hann að skipta yfir í Val nokkrum árum síðar og sáum við mikið eftir honum,“ sagði Grétar.

Grétar segir að félagaskipti hafi verið mjög fátíð á þessum árum. Sjálfum hafi honum aldrei dottið í hug að skipta um félag. ,,Ég var Breiðabliksmaður og hefði aldrei fundið mig í öðru félagi. Félagaskipti Reynis voru algjör undantekning en hann stóð sig mjög vel með Val og spilaði nokkra landsleiki,“ segir framherjinn knái.

image

Grétar Kristjánsson eftir leik í Vestmannaeyjum.

Þegar Grétar er beðinn að nefna eftirminnilega leikmenn sem hann spilaði með þá segir hann kankvís, ,,Það er eins og að gera upp á milli barnanna sinna. En auðvitað man maður meira eftir ákveðnum leikmönnum en öðrum. Á þessum fyrstu árum man ég vel eftir Björgvini Guðmundssyni en hann var ótrúlega harðskeyttur leikmaður þrátt fyrir minniháttar líkamlega fötlun. Hann var líka formaður knattspyrnudeildar um skeið og drífandi í öllu félagsstarfi. Ingvi Guðmundsson bróðir hans var líka eftirminnilegur. Svo var alltaf gaman af bræðrunum Baldri og Gunnlaugi Sigurgeirssonum. Ekki má gleyma glímukóngi Íslands, Ármanni J. Lárussyni. Hann var ótrúlega fjölhæfur íþróttamaður. Hann spilaði yfirleitt sem hafsent en ef það vantaði markvörð þá fór hann í markið. Svo var hann mjög frambærilegur frjálsíþróttamaður og var glímukóngur Ísland í fjöldamörg ár. Þar að auki var hann sterkur bridgespilari. Ótrúlegur maður,, bætir Grétar við.

,,Það var líka gaman að spila með æskufélögum mínum þeim Sverri Guðmundssyni og Sigmundi Eiríkssyni. Svo síðar stofnuðum við Daði Jónsson fyrirtæki saman. Þar að auki eru Bára konan hans og Hildur konan mín góðar vinkonur. En þetta voru upp til hópa prýðismenn og á ég ekki nema góðar minningar frá þessum árum.“

image

Mynd tekin í Vestmannaeyjum 1958. Hún er með fyrstu myndum sem teknar eru af knattspyrnuliði Breiðabliks. Efri röð frá vinstri: Gylfi Gunnarsson, Ármann J. Lárusson, Grétar Kristjánsson, Sigmundur Eiríksson, Þorsteinn Steingrímsson, Árni Kristmundsson. Fremri röð frá vinstri: Magnús Örn Tryggvason, Björgvin Guðmundsson, Gunnlaugur Sigurgeirsson, Hilmar Björnsson, Sverrir Guðmundsson. Búningarnir voru grænir með hvítri rönd. Rendurnar vísuðu í stöðu þeirra á vellinum, hægra og vinstra megin og mynduðu V. Sá sem var með röndina frá vinstri öxl og niður til hægri spilaði vinstra megin á vellinum.

Var kominn með eigin rekstur 21 árs gamall

Aðspurður sagðist Grétar það hafa gengið ágætlega að sameina bolta, vinnu og einkalíf. ,,Ég var og er svo heppin að eiga afskaplega skilningsríka eiginkonu. Heimilisstörfin og uppeldið á börnunum lentu mun meira á henni en ég byrjaði snemma að vinna mjög mikið. Ég stofnaði mitt eigið rafverktakafyrirtæki 21 árs gamall þannig að ég réð mínum vinnutíma nokkuð mikið sjálfur. Ég gat því sinnt knattspyrnunni nokkuð vel þótt að nokkrir þjálfarar hefðu nú sjálfsagt viljað sjá mig oftar á æfingum“ sagði hann og hló. Arnar sonur hans sem var mættur á svæðið bætti þá við að ef hann hefði verið þjálfari pabba síns þá hefði hann ekki látið karlinn komast upp með að skrópa oft á æfingu. ,,Ég hefði ekki valið hann í liðið,“ sagði hann sposkur á svip.

Grétar tók undir þetta og sagði að líklegast hefði hann náð lengra ef hann hefði æft betur. ,,En ég komst alltaf upp með þetta því hópurinn sem við vorum með var ekki mjög stór. Ég komst því alltaf í liðið! En árið 1968 fór ég að gera mér grein fyrir því að ég þyrfti að æfa betur og meira því það voru að koma upp sterkir leikmenn eins og Guðmundur Þórðarson, Magnús Steinþórsson, Heiðar Breiðfjörð og Þór Hreiðarsson. Ég ákvað því að láta gott heita eftir það tímabil og skórnir fóru upp í hilluna,“ sagði hann án þess að hika.

Arnar og Sigurður Grétarssynir hafa lagt fyrir sig þjálfun. Kom það aldrei til greina hjá Grétari að verða knattspyrnuþjálfari? ,,Nei, það heillaði mig aldrei,“ segir hann ákveðið. ,,Ég var á fullu í minni vinnu sem rafvirki og fann mig vel í því starfi. Ég er ekki viss um að ég hefði orðið góður þjálfari. Ég held að ég hefði ekki haft þolinmæði að eiga við menn sem nenntu ekki að æfa nóg,“ sagði Grétar hlæjandi.

Grétar segist hafa hætt sáttur. ,,Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími og hefði ég ekki viljað breyta neinu. Í gegnum íþróttirnar kynntist ég mörgum af mínum bestu vinum. Svo tók við tímabil sem ég fylgdi strákunum í þeirra knattspyrnuferli. Þar kynntist ég enn fleira góðu fólki sem hefur spilað stórt hlutverk í mínu lífi líka. Ég á því Breiðablik mikið að þakka“

-AP

image

Hildur Grétarsdóttir, Arnar Grétarsson, Hildur Jóhannsdóttir, Grétar Kristjánsson, Sigurður Grétarsson, Jóhann Grétarsson.

Til baka